Sunnudagur 12. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Var lengi að sigrast á feimninni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég skal koma í viðtal við Mannlíf en legg til að við göngum á Úlfarsfell og viðtalið fari þar fram,“ svarar Guðni Th. Jóhannesson Mannlífi um viðtal fyrir komandi forsetakosningar.

Þetta skilyrði forsetans var í senn kærkomið og sjálfsagt. Ég hafði tveimur árum fyrr farið þess á leit við forsetann að hann yrði einskonar leynigestur í göngu Fyrsta skrefs Ferðafélags Íslands á fjallið. Það var með hálfum huga að ég bar upp erindið við hann þá daga en forsetinn samþykkti mér til gleði. Guðni fór á kostum á efsta tindi þar sem hann flutti tölu fyrir 70 manna hóp og sagði frá næstum óbærilegri feimni sinni á unglingsárum.

Við höfðum ákveðið að leggja upp frá skógræktinni í Mosfellsbæ kl.12 á hádegi. Ég var mættur ásamt ljósmyndara og hundinum Tinna þegar forsetinn sendi skilaboð á Messenger um að hann næði ekki að mæta fyrr en 12:15. Nokkru síðar sendi hann önnur um að þetta yrði líklega 12:17. Við biðum rólegir. Hvítur fjölskyldubíll birtist á bílastæðinu. Út stígur Guðni okkur til undrunar. Við höfðum reiknað með svörtu glæsibifreiðinni með skjaldarmerkinu og einkabílstjóranum. Guðni brosti þegar ég lýsti undrun minni og sagðist njóta þess vel að aka sjálfur þegar því væri komið við og þar að auki tengdist viðtalið framboðinu frekar en embættisstörfum.

Við göngum af stað inn í skóginn. Ég gorta mig af því að þetta sé gönguferð númer 1.140 á þessa útivistarperlu í miðri borginni frá því ég hóf, þjakaður af offitu, reglubundnar fjallgöngur fyrir 10 árum.

„Sjáðu hve miklu máli lýðheilsa í víðum skilningi skiptir. Ef þú skoðar þitt eigið lífshlaup liggur fyrir hvaða þýðingu hreyfing og hollt mataræði hefur. Lýðheilsa er eitt mikilvægasta mál þjóðarinnar,“ segir Guðni. Ég staðfesti það og upplýsi að líkast til væri ég dauður eða kominn í kör ef breytingin á lífsstílnum hefði ekki komið til þegar ég var 140 kílóa reykingamaður í starfi sem ritstjóri DV sem var eitt það mest streituvaldandi á Íslandi. Ég sé að mér og bendi forsetanum á að viðtalið ætti að snúast um hann en ekki mig.

„Ég greip af hendingu buff sem þarna lá í hrúgu.“

Alzheimer-buffið

- Auglýsing -

Við göngum áfram stíginn í gegnum skóginn, áleiðis á Hákinn. Það rignir dálítið en ekki þó teljandi. Hallur ljósmyndari er himinlifandi með að fá forsetann öðruvísi en uppstilltan í sparifötum með bindi. Því meiri rigning, því betra. Guðni er með Alzheimer-buffið fræga um hálsinn. Mynd Sigurðar Boga blaðamanns af forsetanum með buffið varð fræg. Guðni segir það hafa verið tilviljun að einmitt þetta buff með áletrun þeirra frómu Alzheimersamtaka hafi orðið fyrir valinu þegar hann valdi sér buffið á sínum tíma þar sem hann var viðstaddur vígslu á upplýsingaskilti við Skansinn á Bessastaðanesi, í hvassviðri og kulda.

„Ég greip af hendingu buff sem lá í hrúgu heima og las á það. Alzheimersamtökin, það er gott að styðja þau, hugsaði ég. Ég var heppinn að hafa ekki dottið niður á buff með föllnu bönkunum,“ segir hann og hlær.

Við viljum ólmir sjá hann með buffið í ennishæð. Eftir nokkrar fortölur fellst forsetinn á að setja það upp sem höfuðfat gegn því þó að þetta verði ekki forsíðumynd.

- Auglýsing -

„Hugsaðu þér þau gæði sem við höfum inni í borginni með þennan unaðsreit sem Úlfarsfellið er. Svo er það auðvitað Heiðmörkin og Álftanesið,“ segir Guðni þegar við göngum áfram í gegnum skóginn.

Guðni Th, Jóhannesson
Mynd / Hallur Karlsson

Ástúð og öryggi

Ég spyr um bernsku Guðna. Hann ólst upp með tveim bræðrum, Patreki og Jóhannesi. Foreldrar hans eru Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari við Menntaskólann í Reykjavík og fræðslufulltrúi hjá Íþróttasambandi Íslands, og Margrét Thorlacius barnakennari. Var hann hamingjusamt barn?

„Já, ég naut ástúðar og öryggis. Lífið snerist um skólann þegar hann var í gangi og svo íþróttir og leiki utanhúss. Pabbi var íþróttaþjálfari og fór meðal annars með frjálsíþróttahóp okkar Íslendinga á Ólympíuleikana í München 1972. Hann var um tíma aðstoðarlandsliðsþjálfari í körfuknattleik hjá Einari Bollasyni og í handboltanum með Jóhanni Inga Gunnarsyni. Við bræðurnir ólumst því upp í heimi íþróttanna.“

Patrekur, yngri bróðir Guðna, varð þjóðþekktur sem landsliðsmaður í handbolta. Var ekkert erfitt fyrir Guðna að standa í skugga litla bróður síns?

„Allt sem hann kann í handbolta lærði hann af mér,“ segir Guðni og skellihlær.

Guðni stundaði handbolta af kappi sem unglingur og stefndi langt í þeirri íþrótt.

„Þegar ég var á aldrinum 16 til 17 ára og Patti 12 ára gerði ég mér grein fyrir að hann var orðinn betri en ég í handbolta. Þá sá ég að það væri meira vit í að snúa mér að einhverju öðru. Ég get samt sagt með réttu að það varð mér sem táningi mikið áfall þegar ég áttaði mig á því að ég yrði aldrei landsliðsmaður í handbolta. Þetta er eitt af því sem ég hef hugleitt í embætti mínu sem forseti að við verðum að finna rétt jafnvægi í lífinu. Við viljum fá ungmenni til að hreyfa sig og hafa þau í skipulögðu æskulýðs- og íþróttastarfi en við getum ekki eingöngu búið til afreksfólk. Hvað verður um fjöldann er það sem við þurfum að huga að. Íþróttafélögin verða að huga ögn meira að því að láta alla njóta sín í íþróttastarfi á eigin forsendum. Auðvitað viljum við hlúa að þeim sem skara fram úr en við sjáum of mikið brottfall unglinga, 15 til 16 ára. Þá verða skilin svo skörp milli þeirra sem ná lengst og hinna sem sjá að það er ekki þeirra braut. Það þarf að finna þeim farveg. Þar að auki er nú alls ekki alltaf augljóst hverjir munu í raun skara fram úr þegar á reynir.

Föðurmissir

Mikið áfall dundi á fjölskyldu Guðna þegar hann var á unglingsaldri. Faðir hans lést fyrir aldur fram, aðeins 42 ára. Þetta er stærsta áfallið sem Guðni hefur orðið fyrir á lífsleiðinni. Hann segir það liggja í augum uppi að föðurmissirinn hafi verið sár.

„En það var ekkert annað í boði en að takast á við sorgina og þann vanda sem lífið kastaði í mann. Pabbi fékk krabbamein og hann lést eftir stutta sjúkdómslegu. En ég á góðar minningar sem gott er að ylja sér við. Allt sem ég hef afrekað get ég þakkað foreldrum mínum en allt sem miður hefur farið er á mína eigin ábyrgð. Mamma lyfti grettistaki og sá um okkur strákana þrjá og að okkur skorti aldrei neitt. Hún tryggði að við gætum látið drauma okkar rætast. Hún hljóp undir bagga þegar ég vildi halda til náms í útlöndum. Þá hjálpaði hún mér fjárhagslega en ég gat blessunarlega greitt henni það til baka síðar. Hún ók Patta á allar mögulegar og ómögulegar æfingar og keppnir í handboltanum og var honum stoð og stytta. Sama gegndi um Jóa bróður. Við eigum móður okkar mikið að þakka. Mamma varð áttræð í maí og er enn í fullu fjöri. Hún fer í langa göngutúra á hverjum degi.“

Utan trúfélaga

Við stöndum á hryggnum undir Hákinn, næsthæsta tindi Úlfarsfells. Við okkur blasir Reykjavíkurborg og raunar mestallt höfuðborgarsvæðið. Bessastaðir eru í fjarska í suddanum. Við tölum um dauðann og trúna. Guðni forseti segist ekki leiða hugann að endalokunum dagsdaglega.

„Ég leiði ekki hugann að því hvað gerist þegar kallið kemur og læt hverjum degi nægja sína þjáningu og á ekkert svar við því hvað er hinum megin. Ég er ekki í neinu trúfélagi. Ég var skírður til kaþólskrar trúar. Pabbi og mamma voru bæði kaþólsk. Mæður þeirra voru góðar vinkonur í æsku og fundu báðar styrk, trú og sáluhjálp í kaþólskri kirkju. Þetta átti kannski sérstaklega við um Sigurveigu, föðurömmu mína, sem lengi lá í glímu við berkla og var mjög leitandi í trúmálum. Atvikin höguðu því svo þannig að börnin þeirra, þessir tveir kaþólikkar, felldu hugi saman og ég tilheyrði kaþólskri kirkju. Ég sagði mig svo úr söfnuðinum í kyrrþey vegna framgöngu kaþólsku kirkjunnar í sambandi við kynferðisbrot innan hennar. Þar fyrir utan þótti mér kirkjan of íhaldssöm í jafnréttismálum og varðandi getnaðarvarnir. Ég komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að mér liði betur með að vera ekki skráður í söfnuðinn.“

Guðni Th, Jóhannesson
Mynd / Hallur Karlsson

Á toppi Úlfarsfells

Gangan upp fjallið í borginni heldur áfram. Við fikrum okkur upp gil í vesturenda Úlfarsfells. Ég spyr forsetann hvort ekki sé hægt að beita umbun af einhverju tagi til að fá fólk til að hreyfa sig.

„Öll stýring af þessu tagi vekur upp umræðu og ágreining í samfélaginu. Tökum sem dæmi sykurskatt eða áfengisgjald eða skatta á tóbak. Þetta er ekki í verkahring forsetans að hlutast til um. En þú nefnir einhvers konar umbun fyrir að stunda hreyfingu. Það gæti eflaust komið til álita. Jafnvel gæti þetta komið til í skólakerfinu þar sem nemendur fengju einingar fyrir að fara í útilegu eða fjallgöngur.“

Við nálgumst toppinn á Úlfarsfelli. Það hefur að mestu stytt upp en vindurinn gnauðar. Ég nefni forsetann Kristján Eldjárn, einn forvera Guðna, sem einhvern tíma lýsti því hve einmanalegt væri stundum á Bessastöðum. Guðni segir að Kristjáni hafi nú yfirleitt liðið vel þar og undanfarin ár hafi hann sjálfur síst glímt við einmanaleika. Fjölskyldulífið með ung börn sé fjörugt og nóg að gera í leik og starfi.

„Við hjónin erum undir þrýstingi frá börnunum að fá okkur hund.“

Kalt á toppnum

Það er alltaf jafngaman að ná toppnum. En það er napurt á Háknum. Vindurinn gnauðar sem fyrr. Hundurinn Tinni skoppar í kringum okkur og bíður þess að fá hefðbundin verðlaun fyrir að toppa. Forsetinn spyr um tegundina. American cocker spaniel, upplýsi ég og bæti við að hann fari ekki úr hárum og sé einstaklega geðgóður og hlýðinn. Guðni horfir áhugasamur á hundinn og spyr hvort ég mæli með tegundinni. „Hiklaust“ er svarið.

„Við hjónin erum undir þrýstingi frá börnunum að fá okkur hund. Strákana mína langar mikið í hund. Heldurðu að hundurinn gæti verið í sátt við köttinn okkar?“ spyr Guðni.

Ég upplýsi að Tinni sé gjarnan í nábýli við tvo ketti og þar ríki í versta falli afskiptaleysi, á meðan kettirnir fari ekki inn fyrir einkarými hundsins, en í besta falli algjör friður og kærleikur.

„Mér líst vel á þetta. En best að lofa ekki neinu,“ segir Guðni og hlær. Ég býðst til að kanna möguleika þess að forsetafjölskyldan eignist amerískan cocker og forsetinn þiggur aðstoðina með þökkum. Við höldum af stað niður fjallið í borginni. Guðni stoppar og tekur upp plastpoka með hundaskít sem einhver hefur skilið eftir. „Á maður ekki að koma þessu á réttan stað?“ spyr hann. Ég segi það vera snyrtimennsku og sýna umhverfinu virðingu. Við höldum áfram niðurleiðinni. Forsetinn með grænan poka í hendinni.

Þótt Guðni hafi ekki lengur þennan kaleik, uppreist æru, segir hann að samfélagið verði að gera upp við sig hvernig það taki á málum brotamanna sem hafi afplánað vegna glæpa sinna.
Mynd / Hallur Karlsson

Uppreist æru barnaníðinga

Ég spyr Guðna hvert hafi verið erfiðasta málið á ferli hans. Hann svarar að bragði og segir að það sé málið með uppreist æru þar sem um var að ræða barnaníðinga. Stúlkur sem brotið hafði verið á settu sig í samband við embættið.

„Ég fann fljótt í sál og sinni að ég yrði ekki sáttur við að skýla mér á bak við ábyrgðarleysi forseta eða að ákvörðunin hefði verið tekin annars staðar og hér hefði aðeins verið fylgt fordæmum þótt sú hafi verið raunin. Þannig að ég bauð þolendunum að koma á minn fund á Bessastöðum sem þær þáðu. Þar bað ég þær afsökunar á því að þær þyrftu að þola að menn sem brutu á þeim hefðu fengið það sem kallast uppreist æru. Ég veit ekki betur en að þær hafi kunnað að meta þann fund og það sem okkur fór í milli. Svo einsetti ég mér líka, ásamt öðrum, að þessi staða kæmi aldrei upp aftur. Nú er ákvæðið um uppreist æru horfið úr íslenskum lagabókstaf. Ég var ekki fyrsti forsetinn sem staðfesti ákvörðun ráðuneytis um uppreist æru en ég var sá síðasti. Þeir eru til sem ekki vilja fyrirgefa eitt eða neitt í þessum efnum. En við það verður að una.“

Þótt Guðni hafi ekki lengur þennan kaleik, uppreist æru, segir hann að samfélagið verði að gera upp við sig hvernig það taki á málum brotamanna sem hafi afplánað vegna glæpa sinna.

„Við þurfum að svara því hvað við gerum andspænis þeim sem hlotið hafa þunga dóma fyrir alvarleg brot. Hvernig tökumst við á við það þegar það fólk kemur út í samfélagið. Það er flóknara en svo að því verði svarað í hlíðum Úlfarsfells. Þau mál verða hvorki leyst hér né í athugasemdakerfum fjölmiðla.“

Inn á borð forseta berast ýmis mál og beiðni um aðstoð. Ljót mál tengjast því að deyfiefnum er laumað í drykki, oftast kvenna, í þeim tilgangi að misnota þær. Guðni fékk beiðni um að ýta af stað átaki gegn þessum óþverraskap.

„Ég var beðinn að styðja átak gegn þeim ljóta verknaði að setja slævingarefni í drykki, oftast kvenna, á skemmtistöðum. Lausnin átti að verða sú að fólk gæti fengið einhvers konar lok á glösin. Ég gerði þetta í góðri trú. En þá kom upp sú gagnrýni að verið væri að varpa ábyrgð og skyldu yfir á saklaust fólk. Fólk gæti ekki lengur notið drykkja sinna í friði. Þetta kenndi mér að þótt hugurinn sé góður þá geta spurningar vaknað og jafnan rétt að hafa varann á. Maður lærir jafnframt í þessu embætti að aldrei er hægt að gera öllum til hæfis og maður á reyndar ekki að reyna það.“

Guðni Th, Jóhannesson
Mynd / Hallur Karlsson

Málskotsrétturinn

Í yfirstandandi kosningabaráttu er Guðna legið á hálsi af mótframbjóðanda sínum að hafa ekki beitt málskotsréttinum. Hann hefur margsinnis svarað því hvað þurfi til þess að hann beiti því úrræði sem Ólafur Ragnar Grímsson, forveri hans, gerði svo eftirminnilega varðandi Icesave og þegar hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar.

„Forseti hefur þetta úrræði en ég hygg að langflestir hljóti að sjá að þegar forseta eru sendar áskoranir kjósenda þá verði þær að hafa þunga fjöldans með sér. Sú hefur verið raunin í tíð fyrri forseta að áskoranir nokkurra þúsunda hafa ekki leitt til þess að málum hafi verið vísað í dóm kjósenda. Mönnum hefur verið tíðrætt um þriðja orkupakkann. Þar ber til þess að líta að hann var innleiddur með þingsályktunartillögu sem kemur ekki á borð forseta Íslands. Hins vegar þurfti í framhaldinu að breyta lögum um Orkustofnun. Mér bárust sjö þúsund áskoranir um að vísa þeim lögum til þjóðarinnar og varð ekki við þeim, meðal annars vegna þess hversu fáar undirskriftirnar voru miðað við fyrri fordæmi. Þessi umræða hefur síðan hjaðnað. Ég hef notið þess að hafa víðtækan stuðning í embætti. Það væri örugglega þrúgandi að sitja í svona tignu embætti og njóta ekki stuðnings almennings.“

Barnalán

Guðni og eiginkona hans, Eliza Reid, búa við mikið barnalán. Þau eiga saman fjögur börn. Þau eru fædd með tveggja ára millibili, árin 2007, 2009, 2011 og 2013. Hann á eina dóttur frá fyrra hjónabandi. Hún er fædd árið 1994. Mikill aldursmunur er því á yngsta og elsta barni Guðna, eða 19 ár. Guðni segir að börnin tryggi hamingjuna. Það að yngri börnin eru fædd með tveggja ára millibili var ekki skipulagt.

„Við vissum að við vildum búa saman og eiga börn. Ég er þó ekki í félagi aldraðra feðra,“ segir hann og vísar til þess að hann var kominn á miðjan aldur þegar yngstu börnin fæddust.

Ekkert glæsilíf

Margir sjá embætti forseta Íslands í hyllingum og telja líf forsetans og fjölskyldu hans einkennast af glæsileika og í flestu frábrugðið því sem almenningur lifir. Guðni segir að lífið á Bessastöðum sé í raun ósköp venjulegt fjölskyldulíf barnafjölskyldu. Þá njóti hann þess að geta óáreittur farið allra sinna ferða og blandað geði við fólk.

„Ég reyni að flétta saman starf mitt og fjölskyldulíf eftir bestu getu. Það hefur oftast tekist blessunarlega vel en auðvitað verður stundum eitthvað undan að láta. Börnin vita að ég hef skyldur og sýna því skilning. Ég get nefnt sem dæmi að í gærkvöld kom ég fram í sjónvarpsþætti en náði svo að bruna á fótboltaleik með einum syni mínum í Garðabæ. Ég náði síðasta korterinu. Svona kringumstæður gátu nú líka komið upp í mínu fyrra starfi en við Íslendingar búum við það lán að sá eða sú sem gegnir embætti þjóðhöfðingja getur um frjálst höfuð strokið.“

Jafnrétti ríkir á milli hjónanna á Bessastöðum þegar kemur að heimilisverkum og barnastússi. Guðni segist aðspurður kunna á þvottavél heimilisins og önnur þau tæki sem til staðar séu.

„Áður en ég fór á Bessastaði skiptum við verkunum samviskusamlega. Í dag höfum við starfsfólk sem léttir undir með okkur eins og þörf krefur. Við höfum þó meðvitað reynt að láta þessa breytingu á mínum starfshögum ekki hafa of mikil áhrif á okkar daglega líf og höldum börnum okkar utan við sviðsljós fjölmiðlanna.“

Enn spurt um hund

Leiðin niður af Úlfarsfelli gengur vel. Veðrið er þurrt og skógurinn veitir okkur aftur skjól. Guðni spyr meira um rakkann Tinna sem fylgir okkur fast eftir. Hann er enn með pokann með hundaskítnum í hendinni, rétt eins og hann sé að æfa sig. Ljósmyndarinn býðst til að taka pokann svo forsetinn sé ekki á öllum myndum með pokann. Forsetinn lætur hann af hendi, að því er virðist með nokkurri eftirsjá. Við fikrum okkur áfram í gegnum skóginn. Kyrrð í bland við fuglatíst rammar inn tilveru okkar.

Guðni er nú að ljúka sínu fyrsta kjörtímabili. Ég spyr hvað hann telji eðlilegt að forseti sitji lengi.

„Ég álít hentugt og farsælt fyrir forseta og þjóð að sá eða sú sem gegnir embættinu sitji í tvö til þrjú kjörtímabil. Þar bergmála ég skoðanir sumra forvera minna og hef ekki breytt þeirri afstöðu minni. Ég veit að á vettvangi stjórnarskrárnefndar er rætt um að setja slík takmörk á setu forseta og jafnvel má hugsa sér að lengja kjörtímabilið í því samhengi. Finnar hafa til dæmis það fyrirkomulag að forseti megi sitja í tvisvar sinnum sex ár.“

Forsetanum er tíðrætt um lýðheilsu sem hann segir vera einhverja mestu áskorun fyrir þjóðina. Það gildi um alla aldurshópa.
Mynd / Hallur Karlsson

Hreyfing mikilvæg

Forsetanum er tíðrætt um lýðheilsu sem hann segir vera einhverja mestu áskorun fyrir þjóðina. Það gildi um alla aldurshópa.

„Ungmenni þurfa að temja sér lífsstíl sem felur í sér gott mataræði og hreyfingu. Eldri borgarar þurfa að sama skapi að ástunda hreyfingu og huga að mataræði sínu. Þetta er ekki aðeins spurning um líf og heilsu fólks. Það er líka hægt að reikna inn í þetta hagnað í krónum og aurum,“ segir Guðni og vísar til meðferðar við sjúkdómum sem tengjast hreyfingarleysi og óhollu mataræði.

Við stöldrum við í brekkunni neðan við Hákinn. Guðni heldur áfram að ræða þá heilsubót sem felst í hreyfingu. Hann segir það vera umhugsunarefni í velferðarsamfélaginu á Íslandi þar sem veraldleg gæði hafa aukist til muna ef miðað sé við fyrri kynslóðir, hve mörgum líður illa andlega.

„Það verður að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að ráða á þessu bót. Sumt sjáum við sem ástæðu vanlíðunar. Það er sífelldur samanburður á samfélagsmiðlum. Tilfinningin er gjarnan sú að allir séu að gera það gott nema maður sjálfur. Þetta á kannski sérstaklega við um unglinga sem spegla sig í fölskum myndum annarra á Snapchat, Instagram, Facebook og hvað þetta heitir allt saman. Það er eins brýnt að við hlúum að andlegri heilsu og þeirri líkamlegu.“

Þunglyndi og innilokun

Þetta eru orð að sönnu, bendi ég Guðna á. Samstarfsmaður minn hjá Ferðafélagi Íslands hefur gjarnan sagt frá glímu sinni við þunglyndi. Hann hefur þá lokað sig af, slökkt á síma, dregið gluggatjöldin fyrir og fæst ekki til að tala við nokkurn mann. Er einn í myrkri. En með nánast ofurmannlegu átaki hefur hann jafnan náð að rjúfa vítahringinn og fara í fjallgöngu. Þá var björninn unninn og hann losnaði úr svartnættinu. Guðni samsinnir þessu.

„Líkamleg áreynsla gerir líkamanum gott og kemur af stað ákveðnum boðskiptum sem eru góð fyrir heilabúið. Þetta er vísindalega sannað. En það sem mér finnst við þurfa að gera er að auka og styrkja sjálfsmynd barna og unglinga. Það má gera með því að leyfa öllum að njóta sín á eigin forsendum. Þetta gerum við með því að viðhalda aga og áreynslu en gera jafnframt skólakerfið sveigjanlegra. Í þessu felst að fólk þarf að leggja hart að sér til að uppskera þannig ánægju og jafnvægi. Fólk þarf að kunna að mæta mótlæti og ekki gefast upp í fyrstu brekku. Jafnframt þurfum við að hjálpa þeim sem þess þurfa. Þetta hef ég séð. Röð og regla er eitt það mikilvægasta í lífi fólks til að hamla gegn þunglyndi, kvíða eða öðrum andlegum sjúkdómum. Stundum þarf fólk aðeins smáaðstoð við þetta en svo verður það nauðsynlegur þáttur í lífinu og enginn vill snúa til baka.“

Guðni hefur sjálfur séð hvernig fólki er hjálpað inn á rétt spor til að ná tökum á tilveru sinni.

„Ég hef verið við brautskráningu hjá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu í Reykjavík fyrir fólk, mest ungmenni, sem hefur ekki fundið sig í framhaldsskólum eða flosnað upp úr starfi. Mörg hver ná þau að blómstra á eigin forsendum og eigin hraða, sjálfum sér og samfélaginu til mikils gagns. Við útskriftina í síðasta mánuði kom fram að 86 prósent þeirra sem hafa lokið námi hjá Hringsjá undanfarin ár, fóru annaðhvort í frekara nám eða eru komin með fasta vinnu. Maður spyr sig hvar þessi 86 prósent væru ef þetta úrræði væri ekki í boði. Þau væru ekki ánægð og ekki að skila sínu til samfélagsins.“

Enginn nefndi Guðna

Þegar dró að kosningum árið 2016 var vinsæll samkvæmisleikur að benda á hugsanlega frambjóðendur. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði lýst yfir að hann myndi hætta eftir 20 ár á Bessastöðum. Ýmsir voru nefndir framan af en ekki þó Guðni.

„Mitt nafn var framan af nær aldrei nefnt í tengslum við forsetaembættið. Það er stundum sagt í gamni að í aðdraganda forsetakjörs sé það nánast móðgun ef maður er ekki orðaður við framboð,“ segir Guðni í léttum dúr.

En svo breyttist allt og skyndilega var nafn Guðna komið í umræðuna. Í apríl 2016 komust uppljóstranir tengdar Panama-skjölunum í hámæli. Guðni var þá kallaður til álitsgjafar í fréttum sem sagnfræðingur og fékk þjóðarathygli. Honum hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa notað Ríkisútvarpið sem stökkpall á Bessastaði.

„Ég get aðeins svarað sannleikanum samkvæmt að ég sá ekki fyrir frekar en aðrir þessa uppljóstrun. Ég varð við beiðni ýmissa fjölmiðlamanna, eins og margoft áður, um að segja skoðun mína á rás viðburða. Á þessum tíma í aðdraganda forsetakjörs höfðu margir stigið fram og lýst áhuga eða framboði til þessa embættis. Enginn hafði fengið mikinn byr í seglin. Ég var þarna í ákveðnu sviðsljósi og fékk áskoranir og hvatningu um að bjóða mig fram. Þarna stóð ég andspænis því að ef ég myndi bjóða mig fram til forseta væru ágætis líkur á því að ég hefði erindi sem erfiði. Ég lét kanna jarðveginn og við tóku ævintýralegir dagar. Eftir að ég tilkynnti framboð mitt sá þáverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, sig um hönd og sóttist eftir endurkjöri. Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var í hópi frambjóðenda. Ég sá því fram á að keppa við þessar tvær stórkanónur. Báðir áttu þeir að baki magnaðan feril og mikla reynslu. Seinna hætti Ólafur Ragnar aftur við en margir öflugir frambjóðendur tókust á um embættið.“

„Davíð á merkan feril í stjórnmálum að baki.“

Davíð og ósigurinn

Guðni sigraði með nokkrum yfirburðum eða með rúmlega 39 prósenta fylgi. Athygli vakti að Davíð Oddsson, sem rak mjög harðskeytta baráttu, sérstaklega gegn Guðna, fékk aðeins brot af því fylgi sem stuðningsmenn hans höfðu reiknað með. Fleyg urðu ummæli Guðna þegar hann spurði Davíð hvort hann hefði enga sómakennd. Guðni segir átök þeirra tveggja ekki hafa skilið eftir nein ör af sinni hálfu. Davíð hafnaði í fjórða sæti með aðeins 13,75 prósenta fylgi og stærsta tapið á ferli hans varð að veruleika. Guðni segir Davíð hafa tekið ósigri sínum vel.

„Mér fannst Davíð rísa hátt á kosningakvöldinu þegar ósigur hans blasti við. Okkar leiðir hafa ekki legið mjög saman síðan en við höfum þó hist og ég geri mér ekki far um að forðast hann. Davíð á merkan feril í stjórnmálum að baki. Þegar sagan verður skrifuð mun hann teljast í hópi þeirra stjórnmálamanna sem mótuðu okkar samfélag mest á seinni hluta 20. aldar og fram á þá 21.“

Sligandi feimni

Stígurinn í skóginum er þröngur. Rætur trjánna liggja víða fyrir fótum göngumanna og hunds. Það styttist í bílastæðið. „Er þetta ekki að verða komið hjá okkur?“ spyr forsetinn sem þarf að mæta í myndatöku fyrir annan fjölmiðil innan skamms. Ég segi honum að þetta styttist í annan endann. Ég rifja upp þegar hann gekk með Fyrsta skrefi Ferðafélags Íslands á sama fjallið fyrir tveimur árum. Þá sagði hann frá feimninni sem lengi hafði hrjáð hann. Guðni segir að sem unglingur hafi feimnin plagað sig mjög. Hann rifjar upp bitra minningu frá þeim tíma þegar hann ætlaði að taka þátt í ræðunámskeiði.

„Þetta kvöld tók ég strætó úr Garðabænum. Ég kveið þessu mikið en ætlaði að sigrast á feimninni. Þegar ég gekk upp tröppurnar í MR fann ég mátt minn þverra í hverju skrefi. Þetta var þrautaganga. En svo brast kjarkurinn og ég sneri við. Ég tók strætóinn til baka og fór alla leið suður í Hafnarfjörð til að mamma færi ekki að spyrja mig af hverju ég kæmi svona snemma heim. Ég hugsaði allan tímann með mér hvers konar ræfill, vitleysingur og asni ég væri að gefast upp. Þetta mótaði mig og ég ákvað að gera aðeins það sem ég kynni best að meta, að fræðast um liðna tíð, lesa og grúska í friði fyrir öðrum. Þannig varð sagnfræðin mitt skjól, minn heimur og síðan starfsvettvangur. Þá þurfti maður að flytja fyrirlestra, kenna og stýra umræðum og smám saman öðlaðist maður dýrmæta reynslu í þeim efnum, reynslu sem hefur svo sannarlega komið að gagni í því embætti sem ég gegni núna. En planið að vera ekkert í sviðsljósinu, það hefur ekki beint gengið upp! Ég veit það líka úr heimi íþróttanna að maður þarf að halda réttu spennustigi til að allt gangi upp. Maður má hvorki vera á nálum né vera of værukær. Mikilvægast er að vera vel undirbúinn og búa að reynslu og heilbrigðu sjálfstrausti, en ekki sjálfshóli eða drambi, það voru bannorð í mínu uppeldi.“

Forsetinn stundar sjálfur gjarnan útivist. Hann gengur mikið og hefur gaman að því að hlaupa og ganga. Svo sinnir hann náttúruvernd með því að tína upp rusl.

„Ég hef komist upp á lag með að plokka úti á Álftanesi. Það eykur kappið í hlaupunum að tína upp rusl og auðvitað eigum við öll að ganga hreinlega um landið, hvar sem er og hvenær sem er.“

Heimur fræðanna

Guðni Th. Jóhannesson er ekki í vafa um hvað hann ætlar að fást við þegar forsetatíð hans lýkur.

„Þegar ferli mínum sem forseta lýkur ætla ég að hverfa aftur í þann heim fræða sem ég fór úr. Þá mun ég sinna rannsóknum og fræðum. Ég hef mikinn áhuga á miðlunarleiðum sögunnar og tel til dæmis löngu tímabært að við Íslendingar eignumst vandaða og íburðarmikla sjónvarpsþáttaröð um sögu Íslands. Við getum horft til fordæma svo sem History of Britain þar sem sögu Bretlands eru gerð skil eða sögu Danmerkur. Við getum sviðsett atburði og notað tölvutækni til að breyta umhverfinu. Til dæmis gætum við breytt Reykjavík, sem við horfum hér yfir, og fært hana til annarra tímaskeiða og yfir í ónumið land. Þannig gætum við séð hvernig Ísland blasti við Ingólfi Arnarsyni, Hallveigu Fróðadóttur, konu hans, og öllu þeirra föruneyti, þar með talið þrælum og ambáttum. Við þurfum að segja sögu okkar í sem víðastri mynd. Í því felst að við segjum frá því sem hefur sameinað okkur og ekki síður því sem sundraði okkur. Við segjum frá því sem miður fór og því sem vel gekk. Þetta á að vera saga almúgafólks ekki síður en fyrirmenna. Hér renna kannski saman forsetinn og sagnfræðingurinn og vil ég þó ekki tala um sjálfan mig í þriðju persónu! En sagan er margslungin og stjórnsamir valdhafar freistast gjarnan til að nota hana eða misnota í eigin þágu, hampa eigin sýn á fortíðina og saka þá sem eru á annarri skoðun um að vinna gegn hagsmunum eða heiðri ríkis og þjóðar. Sagan er öflugt vopn í samtímanum og ég hef reyndar oft komið inn á þetta í ræðum og ávörpum undanfarin ár.

Við kveðjum forsetann þar sem gangan hófst rúmri klukkustund fyrr, á bílastæðinu við skóginn. Hundurinn sem heillaði forsetann dinglar rófunni, eins og í kveðjuskyni. Hann ber hér með tignarheitið Forsetahundurinn. Við snúum baki við Úlfarsfelli og höldum heimleiðis með viðtal við forsetann í farteskinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -