Mánudagur 27. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Víðir Reynisson glímir við langtímaafleiðingar veirunnar: „Ég var með svokölluð Covid-lungu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hann er yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra, húsasmiður að mennt, kvæntur tveggja barna faðir og afi sem nýtur þess að leika með barnabarninu í indíánatjaldinu eða að lesa og segja sögur. Víðir Reynisson er einn af þríeykinu svokallaða sem hefur stappað stálinu í landann í tæp tvö ár í tengslum við heimsfaraldurinn. Hann birtist á skjánum yfirvegaður og góðlegur og fólk vill hlýða Víði. Sjálfur þekkir hann veiruna skæðu á eigin skinni og það var áfall að greinast fyrir rúmu ári síðan. Veikindin tóku á bæði andlega og líkamlega og hann hefur ekki enn náð sér að fullu. Um þessi áramót ræðir Víðir meðal annars einmitt um heimsfaraldurinn sem ræður svo miklu um heimsbyggðina í dag og hann ræðir líka einmitt um veikindin og álag í starfi sem hefur stundum haldið fyrir honum vöku. Hann ræðir líka um þessi tímamót. Áramót. Og hvernig hann horfir á nýtt ár. Árið 2022.

„Þetta hefur náttúrlega algjörlega tekið yfir líf manns. Það er ekki hægt að orða það neitt öðruvísi. Bara frá því í mars 2020 hefur einhvern veginn líf manns hverfst í kringum það að taka þátt í þessari baráttu með þeim stóra hópi sem er í þessu á hverjum degi og allt annað hefur einhvern veginn þurft að víkja. Sem betur fer á maður stórkostlega fjölskyldu sem stendur við bakið á manni og gerir það að verkum að maður getur lagt sig allan í þetta,“ segir Víðir Reynisson í viðtali við Mannlíf en hann hefur ásamt þeim Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni verið fastur gestur á skjám landsmanna og veitt okkur upplýsingar um heimsfaraldurinn, sagt frá nýjustu reglum og stappað í okkur stálinu.

Ný kórónuveira kom jú fram á sjónvarsviðið seint á árinu 2019 og er kennd við það ár – Covid 19. Ekki er enn búið að komast að uppruna hennar þótt margir telja að hún eigi upptök sín á markaði í kínversku borginni Wuhan og vilja margir tengja hana við leðurblökur. Sumir telja hins vegar að hún hafi verið búin til á rannsóknarstofu þar rétt hjá þar sem rannsakaðar eru einmitt kórónuveirur í leðurblökum; í frétt mbl.is 13. ágúst er til dæmis skrifað um að vitað sé að vís­inda­menn við Veiru­fræðistofn­un­ina í Wu­h­an hafi unnið með kór­ónu­veir­ur úr leðurblök­um á rann­sóknar­stof­um í borg­inni en kín­versk yf­ir­völd hafa verið treg til að veita nán­ari upp­lýs­ing­ar um þær rann­sókn­ir. Dr. Peter Emba­rek, sem leiðir hóp á veg­um Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar (WHO) sem rann­sak­ar hvernig far­ald­ur­inn hófst, greindi frá því að kínversk­ur vís­indamaður gæti hafa hrundið af stað far­aldrinum eft­ir að hafa sýkst af henni þar sem hann safnaði sýn­um úr leður­blök­um. Um tveimur árum eftir að veiran fór að sýkja fólk hafa ekki enn fundist dýr á svæðinu með veiruna en leðurblökurnar þykja þó samt vera sökudólgurinn. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sakað Kínverja um að vilja leyna upprunanum. Fela hann. Ekki vilja vera nógu samvinnuþýða. Svo eru vísbendingar um að veiran hafi fundist mun fyrr til dæmis í Evrópu en talið var í fyrstu.

Jú, fólk tók að veikjast. Deyja. Og fólk ferðaðist um alla jörð með veiruna í farteskinu. Heimsfaraldur. Veikindi. Dauði. Sorg. Áhyggjur. Gjaldþrot. Atvinnumissir.

Ósýnilegur óvinur sameinar heimsbyggðina.

Þjóðir heims sem stundum eru sundraðar og berast jafnvel á banaspjótum standa nú allar saman frammi fyrir sömu ógninni. Ósýnilegur óvinur sameinar heimsbyggðina.

  1. febrúar árið 2020 var sett tilkynning á síðu landlæknisembættisins:

 Fyrsta tilfelli COVID-19 kórónaveiru greinist á Íslandi

- Auglýsing -

Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýrri kórónaveiru (COVID-19). Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms (hósti, hiti og beinverkir). Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið hér á landi.

Í ljósi þessa mun ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni virkja hættustig almannavarna. Er þetta gert bæði vegna þess að ekkert lát er á hópsýkingu af völdum veirunnar ytra, þá sérstaklega í Evrópu, og að fyrsta tilfellið hefur nú verið staðfest hér á landi.

Maðurinn sem greindist var nýverið staddur á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis. Unnið er að rakningu smitleiða en markmið þeirrar vinnu er að varpa ljósi á það hverjir gætu verið útsettir vegna þessa staðfesta smits.

- Auglýsing -

Á blaðamannafundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis sem haldinn var fyrr í dag, sátu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra fyrir svörum ásamt Ölmu D. Möller landlækni og Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra flæðisviðs Landspítala.

Þetta var fyrsti blaðamannafundur þríeykisins svokallaða vegna heimsfaraldursins. Og þeir hafa síðan verið margir og landsmenn finnst mörgum án efa þeir þekkja þau Víði, Ölmu og Þórólf.

Síðan hefur reglulega verið tilkynnt um upplýsingafundi Almannavarna klukkan 11; sem hefjast þó yfirleitt klukkan 11.03.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var. Veiran hefur stökkbreytt sér oft og mörgum sinnum og við Íslendingar höfum staðið framarlega í þessum málum, þökk sé meðal annars íslensku heilbrigðisstarfsfólki og Íslenskri erfðagreiningu sem hefur lagt sitt lóð svo sannarlega á vogarskálarnar meðal annars með því að raðgreina veiruna svo athygli hefur vakið víða um lönd.

Víðir Reynisson

 

Um 155.000 manns hafa fengið örvunarskammt

Víðir segir að það sé allaf ánægjulegt að starfa með Ölmu og Þórólfi. „Eitt af því sem hefur haldið manni svo orkumiklum í þessu er að við þrjú einhvern veginn smullum saman. Við erum með léttan húmor í okkar starfi sem skiptir miklu þegar álag er mikið og við erum ólík og nálgumst hlutina með ólíkum hætti. Við erum á fundum oft gagnrýnin hvert á annað en þetta er á jafningjagrunni. Við erum sérfræðingar hvert á sínu sviði, við rökræðum málin og ég held að það sé einkenni á góðu teymi eins og okkar að við erum alls ekki alltaf sammála. Einn af kostunum við að vinna með þeim er að þau eru mjög vel gefin og skörp, fljót að greina hlutina og þau eru ekki föst í einhverjum skoðunum. Þau bara hlusta á rökin og tölfræðina sem og vísindin og þekkinguna og taka upplýstar ákvarðanir í framhaldi af því.“

Willum Þór Þórsson settist nýlega í stól heilbrigðisráðherra og segist Víðir lítast vel á hann sem og nýjan ráðherra yfir almannavarnarmálum, Jón Gunnarsson. „Þetta fer vel af stað, finnst mér. Við erum búin að eiga góð samskipti við þá ráðherra sem hafa verið mest með þessi mál, Svandísi, Áslaugu Örnu og svo Katrínu og núna Willum Þór, Jón og Katrínu. Þetta er fólk sem er í stjórnmálum til að gera samfélagi sínu gott og er eins og gott teymi á að vera; þau eru ólík og nálgast hlutina með mismunandi hætti og það er styrkur.“

Nýjasta afbrigðið, Omicron, uppgötvaðist fyrir nokkrum vikum í Suður-Afríku og virðist ætla að verða ráðandi en það er mun meira smitandi en Delta-afbrigðið svokallaða sem á undan því var ráðandi. Það er grískur stæll á heitinu á afbrigðunum. Stökkbreytingunum. Svo hefur komið í ljós að þorri fólks virðist ekki veikjast eins alvarlega af Omicron og Delta og 28. desember kom frétt um að rannsókn vís­inda­manna í Suður-Afr­íku bend­i til að Omicron-afbrigði kór­ónu­veirunn­ar gæti hindrað út­breiðslu Delta-af­brigðis­ins þar sem sýk­ing af völdum Omicron eyk­ur ónæmi gegn eldra af­brigðinu. Daginn áður, 27. desember, greindust  836 hér á landi. Það var met. Þar af voru nokkrir ráðherrar.

„Það er fyrst og fremst þessi óvissa sem þetta nýja afbrigði skapar sem olli því að við þurftum að endurskoða stöðuna og grípa til aðgerða,“ segir Víðir en eftir að Omicron varð ráðandi þurfti að herða reglur hér á landi rétt fyrir jólin. „Það er mikil óvissa í kringum þetta Omicron-afbrigði; það virðist vera miklu meira smitandi en á sama tíma þurfa hlutfallslega færri að leggjast inn á spítala,“ segir Víðir en leggur áherslu á að fólk veikist almennt ekkert minna en til dæmis af Delta-afbrigðinu en að færri veikjast hins vegar eins illa af völdum Omicron heldur en Delta.

Þó að það sé sjaldgæfara að einstaklingar veikist mikið sýnir reynsla landanna í kringum okkur að þegar svo margir smitast þá megi búast við að þó nokkur fjöldi einstaklinga þurfi á sjúkrahúsvist að halda

RÚV birti frétt 28. desember og hefur eftir frétt á Guardian að Sir John Bell, prófessor við Oxford-háskóla og einn helsti ónæmisfræðingur Breta, segi einmitt að Omicron-afbrigðið valdi ekki sömu veikindum og sáust í fyrri bylgjum. Í fréttinni kemur fram að hann telji að há dánartíðni af völdum COVID-19 heyri nú sögunni til. Þá segir að bandarískir vísindamenn telji ólíklegt að heilbrigðir, fullbólusettir einstaklingar verði alvarlega veikir af völdum afbrigðisins, sér í lagi ef þeir hafa þegið örvunarskammt.

„Þó að það sé sjaldgæfara að einstaklingar veikist mikið sýnir reynsla landanna í kringum okkur að þegar svo margir smitast þá megi búast við að þó nokkur fjöldi einstaklinga þurfi á sjúkrahúsvist að halda þrátt fyrir mun lægra innlagnarhlutfall.“

Þórólfur hefur sagt að veiran sé óútreiknanleg.

„Okkar mestu sérfræðingar og sérfræðingar alls staðar í heiminum hafa verið að tala um að það séu svo miklar breytingar í Omicron-afbrigðinu og að jafnvel fyrri sýking sem menn hafa talið að sé það besta í þessu muni ekki virka,“ segir Víðir en þegar hafa komið upp tilfelli meðal annars hér á landi þar sem einstaklingar hafa sýkst aftur. Víðir nefnir í þessu sambandi nauðsyn þess að fólk fái örvunarskammtinn, þriðju bólusetninguna. Nú þegar hafa um 155.000 manns hér á landi fengið örvunarskammt. „Þeir sem hafa fengið hann virðast að minnsta kosti vera betur staddir heldur en hinir; þær þrjár sprautur duga að minnsta kosti eins og tvær sprautur gegn Delta og það er jákvætt. Við sjáum bara hvað það er mikill munur á þeim sem eru bólusettir og óbólusettir. Þeir sem eru óbólusettir veikjast meira og lenda frekar á spítala.“

Sama dag og fyrrnefnd frétt birtist, 28. desember, kom fram í tilkynningu á vef Landspítala að mönn­un á spítalananum sé mik­il áskor­un nú þegar um 100 starfs­menn eru frá vegna einangr­un­ar og fjöl­marg­ir í sótt­kví. Far­sótta­nefnd og viðbragðsstjórn hafi þung­ar áhyggj­ur af stöðunni en for­dæma­laus fjöldi smita sé að grein­ast á degi hverj­um. Land­spít­ali var 28. desember færður á neyðarstig vegna vax­andi álags. Neyðarstig hjá Landspítalanum þýðir í raun að hann geti ekki starfað án utanaðkomandi aðstoðar. Verið var að flytja yfir 30 sjúklinga á aðrar stofnanir til að reyna að létta á álagi.

Víðir Reynisson

Áfall að greinast

Veiran skæða fer ekki í manngreinarálit. Víðir, sem fræddi landann og stappaði stálinu í fólk, fór extra varlega mánuðum saman og fór ekki einu sinni út í búð. Samt náði veiran honum. Hann talar í því sambandi um sameiginlega snertifleti og að ekki hafi komið í ljós hvernig hann og fleiri í fjölskyldunni smituðust. Veiran laumaðist á hann eins og þjófur um nótt.

Það var áfall að greinast. Og Víðir segist hafa veikst frekar leiðinlega og var hann veikur ansi lengi.

Tekin var lungnamynd og kom í ljós að ég var með svokölluð Covid-lungu þar sem þetta var komið ofan í lungu.

„Ég fór í próf í kringum 25. nóvember í hittifyrra vegna smits nálægt mér því ég var í sóttkví. Þá kom jákvæð niðurstaða en ég var einkennalaus. Ég greindist á miðvikudegi og vaknaði síðan á föstudagsmorgninum með flensueinkenni; ég byrjaði á að fá kvef og var með hausverk og fékk svo hita og var í tvo til þrjá daga með talsvert háan hita, hausverk og smáhósta. Svo fór mér að skána. Ég var orðinn miklu betri á mánudeginum og hélt að ég myndi komast létt í gegnum þetta. Hóstinn fór hins vegar að ágerast. Ég varð svo ennþá lasnari þegar fór að líða á þá viku. Ég fékk þá mjög háan hita, mikinn hósta og andþyngsli. Súrefnismettunin var mæld og kom í ljós að hún var mjög lág þannig að ég var tekinn inn á göngudeildina og þá var ég líka orðinn mjög þurr og þurfti vökva. Tekin var lungnamynd og kom í ljós að ég var með svokölluð Covid-lungu þar sem þetta var komið ofan í lungu. Ég var svona veikur í viku til 10 daga og þá fór mér hægt batnandi. Ég byrjaði að vinna fyrir jólin en ég var bara mjög lélegur og slappur og læknirinn sendi mig aftur í veikindaleyfi þannig að ég byrjaði ekki að vinna fyrr en í janúar. Ég missti á þessum tíma bragð- og lyktarskyn og það svona kemur og fer hjá mér ennþá. Það er eitt af þessum einkennum; suma daga finn ég enga lykt og ekkert bragð en aðra daga finn ég vonda lykt og vont bragð af öllu og svo suma sama finnst mér bragð- og lyktarskynið vera eðlilegt. Þetta rokkar dálítið. Þetta virðist versna ef ég er mjög þreyttur.“

Hvað með hræðslu? Hræðslu við sjúkdóminn sem getur drepið? „Það voru tímabil þegar ég var sem veikastur þar sem ég átti erfitt með að ná andanum þegar ég fékk hóstaköst; það var mjög óþægileg tilfinning að finnast maður ekki geta andað almennilega þegar maður hóstaði svo mikið að maður náði ekki andanum. Það var mjög óþægileg tilfinning.“

Þetta er sama sagan og maður heyrir frá mörgum sem hafa lent í þessu; menn hafa einhvern veginn byrjað algjörlega á núllpunkti í þrekinu þó menn hafi verið í fínu formi áður.

Víðir fór að byggja sig upp í fyrrasumar; hann fór að hreyfa sig meira og hlaupa. „Það gekk ágætlega til að byrja með en þrekið fór að detta niður og ég varð mjög móður svo sem þegar ég gekk upp tröppur þegar ég æfði ekki reglulega. Þetta er sama sagan og maður heyrir frá mörgum sem hafa lent í þessu; menn hafa einhvern veginn byrjað algjörlega á núllpunkti í þrekinu þó menn hafi verið í fínu formi áður.“

Smitskömm

Víðir sagði að það hafi verið áfall að greinast. Hvað með andlegu hliðina síðan? Sálina? „Manni leið náttúrlega illa til að byrja með og auðvitað hafði ég áhyggjur af þessu. Ég fann það samt fljótt að ég var í góðum höndum. Starfsfólk Covid-göngudeildarinnar hringdi í mig einu sinni til tvisvar á dag; einu sinni á dag til að byrja með og svo tvisvar á dag þegar ég var orðinn lasnari. Þegar þeir kölluðu mig inn þá fann maður að það var verið að hugsa vel um mann þannig að ég var svo sem aldrei smeykur við þetta þannig. En auðvitað leið manni ekki vel og ég hafði áhyggjur. En mér fannst ég alltaf upplifa að ég væri í öruggum höndum og að það væri passað upp á mann. Síðan eftir þetta var maður eins og eðlilegt er í einhvern tíma að jafna sig á þessu. En eins og ég segi; það var áfall að smitast. Það var það mikið sjokk. Ég þjáðist verulega lengi af smitskömm þrátt fyrir það að hafa sjálfur talað mikið um og er enn að tala mikið um að menn eiga ekkert að skammast sín fyrir að smitast. Það geta allir smitast og það geta allir smitað einhvern annan. En þetta var bara mjög erfitt en maður komst í gegnum þetta og sér hlutina bara eftir á í öðru ljósi. Ég skammast mín ekki lengur fyrir að hafa smitast. Þetta er núna fyrir aftan mig eins og hvert annað verkefni og ég hef lagt mikla áherslu á það við fólk að þetta sé eitthvað sem gerist og að það geti kannski ekkert gert í því þó það passi sig, fylgi sóttvörnum og fari í bólusetningu. Svo bara læðist þetta einhvern veginn aftan að fólki. Þessi veira smeygir sér inn víða jafnvel þó maður hegði sér mjög vel og geri allt sem á að gera.“

Ég fór alla þessa mánuði bara í vinnuna og síðan heim til mín. Ég fór ekkert.

Víðir talaði um smitskömm. Margir settu yfir forsíðumynd sína á Facebook setninguna „Ég hlýði Víði“. Hann er spurður hvort smitskömmin tengist því – að sá sem fólk vildi hlýða smitaðist svo sjálfur af veirunni. „Já, alveg örugglega. Eins og ég segi; maður var sjálfur búinn að vera í marga mánuði í framlínunni að tala fyrir sóttvörnum en ég hafði farið gríðarlega gætilega en frá því í mars hafði ég ekki farið í verslun eða neitt þar sem var fólk. Ég fór alla þessa mánuði bara í vinnuna og síðan heim til mín. Ég fór ekkert. Maður bara hélt sig einn og sér en ein lyftuferð eða eitthvað slíkt virðist hafa verið nóg til að maður fengi þetta þrátt fyrir allt. Þarna lærði maður kannski líka ennþá betur að það er engin ástæða til að vera með einhverja smitskömm en það tók mig smátíma að átta mig á því.“

Ég fell þess vegna að einhverju leyti inn í þann hóp sem er með langtímaafleiðingar af Covid.

Og Víðir var lengi að jafna sig. Hann segist í sjálfu sér ekki enn vera orðinn jafngóður og hann var áður en hann veiktist þrátt fyrir að 13 mánuðir séu síðan hann smitaðist. „Ég fell þess vegna að einhverju leyti inn í þann hóp sem er með langtímaafleiðingar af Covid.“

Hann sagði að Covid-baráttan hafi yfirtekið líf sitt. Hann er spurður hvort það að hafa sjálfur fengið Covid hafi aukið áhuga hans á því að sinna starfi sínu varðandi Covid: Að upplýsa landann og stappa stálinu í fólk. „Maður brennur fyrir að láta þetta ganga upp og gera það sem maður getur til þess að draga úr afleiðingunum. Það er alltaf verið að tala um afleiðingar á samfélagið og heilbrigðiskerfið en ég hef ekki síður verið að talað mikið fyrir því hvað það skiptir miklu máli að hver einstaklingur sleppi við að fá þetta. Ég er kannski ennþá meira að hugsa um að það að hver einstaklingur sem sleppur við að fá Covid er sigur fyrir okkur öll.“

 

Mikill lærdómur

Það hefur mikið mætt á Víði undanfarin misseri og hann hefur lært mikið um samfélagið og sig sjálfan.

„Mér finnst ég hafa fengið fullvissu fyrir því hvað Íslendingar eru seig þjóð, hvað seiglan okkar er mikil og hvað við getum tekist á við erfiða stöðu. Við bognum en við brotnum ekki. Mótlætið hefur keyrt okkur saman. Við erum ekkert endilega sammála um leiðirnar en við höfum að mestu leyti staðið saman á þeirri leið sem hefur verið ákveðin. Hvað mig sjálfan varðar þá hef ég lært hvað það skiptir miklu máli að halda ró sinni og reyna að horfa yfirvegað á hlutina. Mér finnst skipta máli að setja mig í spor þeirra sem maður er í samskiptum við. Maður er í samskiptum við fólk sem er jafnvel búið að missa lífsviðurværi sitt og er mjög reitt og síðan er það fólk sem hefur ekki trú á því að Covid sé til og aðilar sem halda að bólusetningarnar séu plat. Maður verður að reyna að setja sig í spor þessa fólks sem er með aðrar skoðanir og horfir á hlutina allt öðruvísi heldur en maður gerir sjálfur og reyna að skilja hvað það er sem lætur það hugsa og tala eins og það gerir og reyna þá að afla upplýsinga og gagna og rökræða við fólk um það. Maður hefur lært mikið á sjálfan sig í því að halda ró sinni sama hvað gengur á. Það hefur skipt mig mjög miklu máli.“

Það veit enginn hvernig þetta fer með næsta mann en ég var 53 ára þegar ég veiktist og í góðu formi og ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma en ég varð samt svona hundlasinn.

Og Víðir hefur líka lært mikið af því að hafa sjálfur fengið Covid. „Ég fékk meiri innsýn og meiri samhug eða samúð með þeim sem eru að veikjast svo sem þeim sem veikjast illa. Ég skil miklu betur hvað fólk er að ganga í gegnum sem fær þetta ofan í lungun og er að baksa við það, er með lélega súrefnismettun og er hundlasið og líður mjög illa. Auðvitað er auðveldara að setja sig í spor þess þegar maður er búinn að prófa þetta. En þetta er ekki það sem maður vill að neinn lendi í; það er ekki skemmtilegt að prófa þetta. Það veit enginn hvernig þetta fer með næsta mann en ég var 53 ára þegar ég veiktist og í góðu formi og ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma en ég varð samt svona hundlasinn. Það sem þessar samfélagslegu aðgerðir ganga dálítið út á er að vernda þá sem verða veikari; en við getum ekkert pikkað út þann hóp og sagt að ákveðinn hópur sé miklu líklegri til að verða veikari. Maður veit aldrei hvort sá sem smitast næst verði með lítil einkenni og lasinn í tvo til þrjá daga eða hvort hann endi á gjörgæsludeild og í öndunarvél.“

Starfi Víðis fylgir mikið álag – ekki bara á tímum kórónuveirunnar. Vinnudagarnir eru margir og oft langir. Og yfirlögregluþjónninn segist vera vanur því. „Ég hef alla tíð unnið mikið og er með nokkuð góða seiglu varðandi það og svo þarf maður bara að finna sína leið og það skiptir máli að vera við góða heilsu á meðan maður stendur í svona miklu álagi. Það er grundvallaratriði að borða vel, taka lýsi, hreyfa sig og hvíla sig. Nota tímann vel. Svo er ómetanlegt eins og ég sagði áðan að hafa svona sterka og öfluga fjölskyldu á bak við sig sem styður mann. Ég fæ mjög mikla orku frá mínu fólki.“

Víðir Reynisson

Flott teymi

Jú, landsmenn þekkja Víði í lögreglubúningnum. Hann á sér auðvitað sögu eins og aðrir. Þegar hann var lítill dreymdi hann um að verða flugmaður. Hann er lærður húsasmiður og vann við smíðar í um 10 ár. Hann fór í björgunarsveit árið 1986 og var til að mynda sendur vestur í kjölfar snjóflóðanna árið 1995. Hann fór síðan að vinna hjá Almannavörnum ríkisins árið 2000 í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi. Almannavarnir ríkisins voru lagðar niður þremur árum síðar og starfsmenn fluttir til ríkislögreglustjóra og segist Víðir hafa verið einn af fjórum starfsmönnum sem fóru þangað. Hann ákvað síðan að fara í Lögregluskólann árið 2006. „Ég hef mjög lítið unnið sem almennur lögreglumaður. Ætli þeir sem vinna á götunni kalli mig ekki „pappírslöggu“; ég hugsa það.“

Það eru ekki margir áberandi eins og ég, Alma og Þórólfur en það fólk sem stendur okkur næst í vinnunni vinnur ekkert styttri vinnudag heldur en við þótt við séum einhver andlit á þessu.

Víðir Reynisson hefur upplifað margt í starfi sínu en fyrir utan heimsfaraldur má nefna snjóflóð, jarðskjálfta og eldgos. Og álagið er oft mikið eins og þegar hefur komið fram. „Það hafa verið nokkrar nætur sem maður hefur ekki sofið. Hugurinn hefur verið á flugi og maður hefur verið að velta því fyrir sér hvað næstu dagar beri í skauti sér í þessum málum. Það eru ekki margir áberandi eins og ég, Alma og Þórólfur en það fólk sem stendur okkur næst í vinnunni vinnur ekkert styttri vinnudag heldur en við þótt við séum einhver andlit á þessu. Það er teymi sóttvarnalæknis og almannavarna sem stendur á bak við þetta allt saman og það er náttúrlega fullt af ótrúlegum karakterum í því. Maður reynir að horfa á jákvæðu hliðarnar á svona hamförum og eitt af því sem þessi atburður hefur gert er að ég hef kynnst ótrúlega mikið af fólki sem er svo flott í því sem það er að gera og er algjörlega laust við það að vera með einhver vandræði og vesen heldur er lausnamiðað. Og það er alveg sama hvað kemur upp á borðið á okkar daglegu fundum; það er alltaf einhver sem segist ætla að taka eitthvað verkefni að sér.“

Þríeykið er landsþekkt og segir Víðir að það sé í sjálfu sér skrýtið. „Ætli það séu ekki mestu áhrifin sem það hefur á mann er að maður finnur þá ábyrgð sem maður hefur og leggur sig ennþá meira fram við að sinna verkefnunum af trú og kærleika sem maður hefur fyrir þessu starfi og fólkinu í samfélaginu. Þegar manni er treyst fyrir svona verkefni þá er maður stoltur af því að fá þetta traust og leggur sig ennþá meira fram við að sinna verkefnunum vel.“

 

Indíánatjald og bangsi

Víðir á líf fyrir utan vinnuna. Auðvitað. Hann er kvæntur og eiga hjónin tvö börn og eitt barnabarn sem er eins og hálfs árs. Það er lítil stelpa.

„Ég kalla hana stundum leynivopnið mitt en það er einhver vítamínsprengja að sitja með henni og púsla, fara í indíánatjaldið, leika með bangsann, syngja eða lesa einhverjar sögur. Hjartað í mér stækkað mikið við að verða afi og við erum svo heppin að litla fjölskyldan býr rétt hjá okkur þannig að samgangurinn er mikill. Það er bara ótrúlega skemmtilegt og gaman að fá að taka þátt í uppeldi á nýjum einstaklingi.“

Ég fékk mér heitan pott og var að smíða í kringum hann og gera það skemmtilegt. Svona vinna hreinsar hugann.

Svo eru það áhugamálin. „Mér finnst vera gaman að vera úti og hreyfa mig. Ég spila golf. Það er hjónasportið en við hjónin erum saman í golfinu og það er það sem við gerum í frítímanum á sumrin en þá reynum við að spila golf eins oft og hægt er. Síðan fórum við til Spánar í fyrrahaust og spiluðum þar golf í nokkra daga en það var rosalega afslappandi og gefandi að vera bara úti í góðu veðri og leika sér. Það var alveg frábært. Síðan finnst mér vera mjög gaman að vinna í garðinum; mér finnst vera gaman að smíða og ég gerði eins og margir í „covidinu“: Ég fékk mér heitan pott og var að smíða í kringum hann og gera það skemmtilegt. Svona vinna hreinsar hugann.“

Víðir segir að það hvað börnin sín séu góðar manneskjur séu hans mesti sigur. „Ég held að það sem maður er stoltastur af sé að ég á tvö börn og við hjónin erum held ég bæði jafnstolt af því hvað þau eru góðir einstaklingar og hvað þeim er annt um vini sína og samborgara. Þau vinna bæði svolítið í þeim geira að hlúa að samborgurum sínum þannig að maður er mjög stoltur af því.“

Víðir Reynisson

Sumarlandið

Lífið getur verið eins og hafið á lygnum degi eða þegar stormar geisa. Víðir er spurður um það erfiðasta sem hann hefur gengið í gegnum. „Það er svo margt í lífinu sem getur reynt á mann. Ég var nú bara innan við þrítugt þegar góður vinur minn dó úr krabbameini og síðan annar nokkrum árum seinna. Þetta reynir auðvitað á í þéttum vinahópi og það er alltaf erfitt að missa. Maður vinnur sig í gegnum það þótt maður veikist eitthvað og hefur trú á því að maður nái heilsu aftur. Hitt er erfiðara og slíkt reynir á mann. Það er líka ýmislegt sem ég hef upplifað í starfinu sem hefur verið erfitt en ég hef í tæp 30 ár unnið í kringum slys og hamfarir svo sem bílslys og snjóflóð og það er ekki auðvelt. Ég held að slíkt markeri alla jafnvel þótt menn séu vel þjálfaðir og með mikla reynslu. Sem betur fer hefur orðið mikil breyting á því í seinni tíð að menn vinna úr því annaðhvort með félögum sínum, fagfólki eða fjölskyldu sinni. Við sem höfum verið að vinna í tengslum við Covid erum til dæmis öll með okkar leiðir til þess að vinna úr erfiðum dögum; við setjumst reglulega niður og ræðum málin og förum yfir það sem hefur verið erfitt og svo höfum við líka aðgang að fagfólki sem hjálpar okkur í gegnum þetta. Það er sem betur fer liðin tíð í þessum heimi að normið sé að harka af sér, bíta á jaxlinn og halda bara áfram. Við erum komin lengra heldur en það í þessu. Það er fagfólk sem hjálpar okkur á erfiðum stundum í þessu bara eins og fólk fer til læknis þegar það er lasið.“

Víður hefur kynnst dauðanum í gegnum starf sitt og einkalíf. Hvað er dauðinn í huga hans?

„Ég ólst upp í kristinni trú og þar er dauðinn auðvitað ekkert endalok. Ég hef svo sem ekkert velt því mikið fyrir mér nákvæmlega hvað hann er en dauðinn er nú fyrir flesta einhvers konar endalok; það er að segja fyrir þá sem eftir lifa og eru þetta þá oft erfiðar kveðjustundir. Það er stundum sagt að gamalt fólk og veikt sé satt lífdaga og það sé þá ákveðinn léttir þegar það deyr en sorgin er samt sem áður sterk þegar kemur að kveðjustundinni. Ég held að það sé enginn sem undirbúi sig alveg undir það að þurfa að kveðja ástvini sína, hvað þá þegar það gerist snögglega eins og í slysum. Dauðinn fyrir okkur flest er sorg og það er bara spurning hversu lengi hún varir og hvernig maður lærir að lifa með henni.“

Víðir er spurður hvort hann telji að eitthvað taki við að þessu lífi loknu.

„Já, mér finnst gott að trúa því að það sé eitthvað sumarland eins og sumir kalla það.“

 

2022

Árið 2021 er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Víðir segir að ákveðnar hefðir ríki á heimilinu á gamlárskvöld. Nánasta fjölskyldan borðaði saman á heimili hjónanna og yfirleitt er nautakjöt í matinn síðasta kvölds ársins. „Svo er horft á skaupið og síðan er farið út að sprengja. Það er mismikið á milli ára. Ég var lengi virkur í björgunarsveitarstarfi og þegar ég var í Hjálparsveit skáta í Reykjavík sá ég um flugeldasýningar í langan tíma þannig að ég er vanur að skjóta upp stórum flugeldum eins og á Menningarnótt og á stórum sýningum. Við fjölskyldan erum alltaf með flugelda á gamlárskvöld og höfum gaman af að skjóta þeim upp.“

Ég held að skilaboðin séu náttúrlega bara að við getum að mörgu leyti horft til baka til síðustu tveggja ára og klappað hvert öðru á öxlina fyrir þrautseigjuna fyrir að hafa staðið saman í gegnum þetta.

Hver eru skilaboð yfirlögregluþjóns almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra til þjóðarinnar um áramót?

„Ég held að skilaboðin séu náttúrlega bara að við getum að mörgu leyti horft til baka til síðustu tveggja ára og klappað hvert öðru á öxlina fyrir þrautseigjuna fyrir að hafa staðið saman í gegnum þetta. Þetta er ekkert búið að vera auðvelt; það er mjög mikið af fólki búið að eiga mjög erfitt. Mjög margir hafa misst vinnuna og margir hafa veikst og svo hafa 37 manns látist. Fjölskyldur þeirra sitja eftir með þá sorg. Þannig að það hafa margir átt erfitt. Við verðum líka að horfa á það að við höfum sem þjóð og sem samfélag gert gott og staðið okkur vel og ég held að áramótaheitið okkar ætti að vera að lifa í vel upplýstu og gagnrýnu þjóðfélagi, vera ófeimin við að ræða málin og taka umræðuna um ekki bara Covid heldur samfélagið okkar og í hvernig samfélagi við viljum lifa. Það hefur að undanförnu verið mikil umræða um ofbeldismenninguna sem svo hefur verið kölluð og ég held að það skipti líka miklu máli fyrir okkur að halda þeirri umræðu áfram. Við eigum það langt í land með að við séum með ásættanlegt ástand í þeim málum og við megum ekki gleyma því en þó sú umræða hafi flogið hátt í haust þá finnst mér hún heldur vera að minnka. Ég held við eigum að taka þá umræðu mjög gagnrýnið og kurteislega en ákveðið á nýju ári. Það sama gildir um sóttvarnaraðgerðir: Við eigum að halda áfram að ræða málin, draga fram nýjustu þekkinguna og vísindin og taka upplýstar ákvarðanir um hvernig við vinnum þetta áfram.“

Víðir segir að árið 2022 leggist annars bara vel í sig. „Þetta verður erfitt til að byrja með en svo fer að vora. Við skulum hins vegar vera undir það búin að fyrstu vikur ársins verði þungar og erfiðar og það væri kannski gott að hafa jólaljósin okkar uppi extra lengi þetta árið.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -