Guy Conan Steward, kemur frá Kanada og er menntaður leikari, grafískur hönnuður, kennari og hefur kennt við Brúarskóla í Reykjavík í meira en áratug ásamt því að stunda list í hjáverkum. Nú kennir hann leiklist við Landakotsskóla og er í framboði fyrir Vinstri Græna.
Guy segir í samtali við Mannlíf að það hafi reynst honum erfitt að upplifa hrunið en engu að síður var það einmitt þá sem hann sótti um íslenskan ríkisborgararétt. Ástæðan var helst sú að hann taldi að eftir hrun, myndi Ísland leggja sig fram við að færa sig í átt að norræna velferðarkerfinu, en núna í stjórnartíð VG hefur sú vinna hafist.
„Íslenska fjölskyldan mín tók einstaklega vel á móti mér þegar ég flutti til landsins, en það er ekki auðvelt fyrir alla aðflutta að komast inn í samfélagið hér. Í Kanada er hefð fyrir því að taka vel á móti aðfluttu fólki, en á Íslandi eru fjölskyldu- og vinatengsl allsráðandi og það tekur tíma að rækta þannig tengsl.“
Fararbroddi á heimsvísu
Það sem kom helst á óvart hér á landi er hversu „úrræðagóðir Íslendingar eru þegar á reynir. Svo er auðvitað mjög merkilegt að ekki stærra samfélag en Íslandi, geti staðið undir svo mörgu og verið jafnvel í fararbroddi á heimsvísu á mörgum sviðum.“
Guy er lánsamur að fjölskyldan hans hér á Íslandi er náin og samhent og segist hann vera í miklu sambandi við fjölskylduna sína í Kanada og þeirra hjóna og hans fjölskyldu sem búa á Samsö í Danmörku. Konan hans heitir Hulda Karen Daníelsdóttir og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn.
Guy segir að það sem hafi mótað hann mest og sé þakklátastur fyrir séu viðhorf foreldra sinna. „Foreldrar mínir hafa alltaf verið vinstrisinnaðir aðgerðasinnar. Þau tóku til að mynda þátt í stuðningi við flóttamenn frá Chile þegar Salvador Allende var steypt þar af stóli og tóku á móti gestum frá mörgum heimshornum í sameiginlegri baráttu þeirra gegn Apartheid. Þau voru líka virk í verkalýðshreyfingunni og málefnum frumbyggja (e. indigenous people) svo fátt eitt sé nefnt. Pabbi var prestur í Biskupakirkjunni, en mamma hefur unnið merkilegt starf á meðal Cree fólksins í norður Manitóbafylki og einnig í Úganda þar sem hún kom að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu.“
Varð yfir sig ástfanginn
Guy er fæddur í Ontariófylki í Kanada, en þar sem pabbi hans var prestur fluttu þau á milli staða og bjuggum til að mynda í Edmonton um tíma, þar sem pabbi hans var háskólaprestur. Þegar hann var unglingur fluttust þau í frekar afskekktan bæ í norður Manitóba til að vera nálægt fjölskyldu mömmu hans, en stór hluti hennar býr í Winnipeg. Á unglingsárunum las hann norræna goðafræði og Íslendingasögur í enskri þýðingu, en vissi lítið sem ekkert um nútíma Ísland. Þegar hann byrjaði í listnámi við Manitóbaháskóla uppgötvaði hann íslenskudeild háskólans sem Vestur-Íslendingar stofnuðu á sínum tíma. Hann skráði sig í byrjendanámskeið í íslensku og fannst námið skemmtilegt. Þegar hann svo ætlaði að snúa sér alfarið að listnáminu og hætta að stunda nám við íslenskudeildina, komst hann að því að Hulda Karen myndi kenna við deildina og hætti snarlega við að hætta, enda var hann þá orðinn yfir sig ástfanginn af henni, þótt hún vissi ekkert um það þá. Þau Hulda Karen fögnuðu 25 ára brúðkaupsafmæli nýlega, en þau hafa verið saman í 32 ár.
„Svona er nú lífið skemmtilegt.“
Í gegnum íslenskudeildina og Huldu Karen kynntist Guy íslenska samfélaginu í Manitóba og öflugum tengslum þess við Ísland. Afkomendur Íslendinga í Kanada eru virkir þátttakendur í kanadísku samfélagi og margir hafa gert garðinn frægan í listum, fræðimennsku og stjórnmálum.
Þau hjónin ákváðu að flytja til Íslands og dvelja á landinu í eitt til tvö ár, „en hér erum við enn, 27 árum seinna. Fyrstu tvö árin kenndum við bæði við Grunnskólann á Hellissandi og ég vann líka í Sjávariðjunni á Rifi. Það var mjög vel tekið á móti okkur á Hellissandi og fólkið þar var yndislegt. Daginn áður en við fluttum þaðan til Reykjavíkur, þar sem ég ætlaði að stunda nám við Myndlista- og handíðaskólann og Hulda Karen að kenna ensku og leiklist í Borgarholtsskóla, giftum við okkur uppi á Snæfellsjökli. Dóttir okkar var skírð upp úr jöklinum af presti í fullum skrúða og allt í kringum okkur voru vinir og fjölskylda. Við fórum með alla okkar erlendu gesti á Snæfellsnesið. Margt hefur breyst frá því við bjuggum þar. Nú er þar Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Frystiklefinn á Rifi og frábær kaffi- og veitingahús og enn eigum við þar vini sem alltaf er jafngott að hitta.“
Guy vinnur nú að MA lokaverkefni í Hagnýtri menningarmiðlun í HÍ. Verkefnið heitir Scriptorium sem er staður og stund fyrir ungt fólk til að læra kalligrafíu, teikna og stunda djúplestur. Markmiðið með Scriptorium er annars vegar að vega upp á móti hvatvísinni sem skjámiðlar verðlauna og hins vegar að efla læsi og listræna sköpun ungs fólks.
Þátttaka í kosningarbaráttunni er efst á baugi og þegar tími vinnst til vinnur hann að eigin listsköpun og að breiða út Scriptorium módelið. „Svo er ég alltaf jafn spenntur fyrir því að kenna leiklist og eyða tíma með fjölskyldunni, ekki síst barnabörnunum.“
„Nú er komið að skuldadögum í umhverfismálum. Ef fram heldur sem horfir þá eru það afkomendur okkar sem þurfa að standa skil á greiðslu þeirrar skuldar. Áður en ég er allur, vil ég vinna að því að létta þá skuldabyrgði eftir fremsta megni. Í mínum huga er áhrifamesta leiðin að því markmiði pólitísk forysta Katrínar Jakobsdóttur. Við getum náð umhverfismarkmiðum okkar og jafnframt notið lífsgæða, en við erum komin út á ystu nöf í þeim efnum. Auk umhverfismála er ég sérstakur talsmaður vetnishagkerfis sem ég tel stystu leiðina til að hægja á hlýnun jarðar og menningarmála í víðum skilningi mér hugleikin.“