Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

8 skotheld ráð til að standa við áramótaheitin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú þegar við erum í þann mund að sprengja inn nýja árið eru margir farnir að leiða hugann að áramótaheitum. Sumir ætla að setja sér heilsutengd markmið; til dæmis að hætta að reykja, borða hollari mat eða hreyfa sig meira, á meðan aðrir ætla að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum, ferðast meira eða læra eitthvað nýtt. Þó flest okkar strengi áramótaheit á hverju ári eru það færri sem standa við þau. Einhverjir munu eflaust strengja sömu heit í ár og þeir strengdu í fyrra vegna þess að þau hafa ekki enn náðst. Lykillinn að því að standa við heitin er að ætla sér ekki um of og hér eru nokkur ráð í viðbót sem gott er að hafa í huga.

1. Ekki strengja áramótaheit bara til þess að gera það og ekki ákveða þau korter í miðnætti, slík heit eru yfirleitt lítils virði. Gefðu þér tíma til að hugsa þig vel um og settu þér markmið sem skipta þig raunverulega máli. Reyndu jafnframt að láta ekki skoðanir og gildi annarra hafa áhrif á val þitt því til þess að ná árangri verður þú að vilja það.

2. Takmarkaðu þig við þann fjölda sem þú ræður við, heppilegast er að halda sig við tvö eða þrjú heit. Þannig einbeitiru þér að þeim markmiðum sem þú vilt helst ná fram og ert ekki að sóa tíma þínum.

3. Hafðu markmiðin nákvæm því það gerir þér auðveldara að fylgja þeim eftir. Í stað þess að strengja loðið áramótaheit, eins og að hreyfa sig meira, á maður að vera ákveðinn og setja sér skýrar reglur, til dæmis að ganga í hálftíma á hverjum degi eða fara í ræktina kl. 17:00 á mánu-, miðviku- og föstudögum.

4. Góð skipulagning tryggir góðan árangur. Með nútímatækni er hægt að auðvelda sér hlutina til muna og gera hlutina næstum sjálfkrafa. Sem dæmi má nefna sparnað; ef þú vilt spara hálfa milljón á komandi ári geturu einfaldlega reiknað út hve mikið þú þarft þá að leggja fyrir á mánuði og setja þann sparnað í áskrift í heimabankanum þínum. Þannig þarftu ekki að muna eftir því að leggja fyrir í hverjum mánuði heldur leggst sjálfkrafa inn á sparnaðarreikninginn þinn.

5. Búðu þig undir það að þurfa að bregða út af vananum. Meginástæða þess að fólk nær ekki markmiðum sínum er sú að það er ekki tilbúið að breyta ýmsum venjum þrátt fyrir að þær spilli fyrir. Góð leið er að hugsa á hverjum degi um hvernig þú getir komist nær takmarkinu. Önnur leið er að helga alltaf einni klukkustund dagsins markmiðinu, flest okkar getum jú fórnað klukkutíma af sófahangsi.

- Auglýsing -

6. Skrifaðu áramótaheitin niður og hafðu listann hangandi uppi við á sýnilegum stað, til dæmis á ískápnum eða við skrifborðið, og lestu þau reglulega. Þannig festast þau í undirmeðvitundinni sem margir vilja meina að það sé lykillinn að því að ná árangri. Einnig er gott að sjá fyrir sér árangurinn og hvernig þér mun líða þegar markmiðinu er náð.

7. Venjan er að halda áramótaheitum leyndum. Það getur samt reynst hvetjandi að segja nokkrum vel völdum einstaklingum frá áramótaheitunum því þá er einhver annar sem veit hvort þú sért að standa þig eða ekki. Vanda þarf valið og velja jákvæða einstaklinga sem eru góðar klappstýrur eða pepparar, sleppa neikvæðu eða letjandi einstaklingunum.

8. Mikilvægasta reglan er að fyrirgefa þér þegar þér fer aftur. Það er óhjákvæmilegt að þú munt hrasa einhvern tímann á árinu því það geta ekki allir verið fullkomnir alltaf. Margir falla í þá gryfju að gefast upp um leið og þeim mistekst. Það að mistakast er hluti af ferlinu svo maður þarf að taka því og halda áfram ótrauður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -