Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Að eiga vaxjakka er eins og að eiga gæludýr“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margir þekkja Margréti Erlu Maack úr fjölmiðlaheiminum en undanfarin þrjú ár hefur hún starfað sjálfstætt sem skemmtikraftur og sem danskennari í Kramhúsinu. Margrét gaf sér tíma til að leyfa okkur að gægjast inn í fataskápinn sinn. Óhætt er að fullyrða að þar leynist ýmsar gersemar.

Tíu ár eru liðin síðan Margrét hætti að ganga í gallabuxum og segir hún það vera bestu ákvörðun sem hún hafi tekið. „Ég var alltaf lítil í mér að finna ekki góð snið utan um rassinn á mér og fékk alltaf illt í bakið af því að vera í gallabuxum. Ég er meira fyrir það að klæða mig frekar of fínt en kasjúal. Ég elska svart og ég nota mikið af fylgihlutum til að djassa upp það sem ég á fyrir. Efst á óskalistanum eru alltaf nærföt frá Lonely sem fást í Kvenfataverslun Kormáks og Skjaldar.“

Ég elska svart og ég nota mikið af fylgihlutum til að djassa upp það sem ég á fyrir.

Þessa dagana er Margrét í átaki, mjög erfiðu átaki, að eigin sögn. „Ég setti mér áramótaheit um að kaupa ekki föt á árinu 2019. Ég held að þetta muni breyta fatakaupum hjá mér að eilífu. Ég má þó kaupa mér sokka, nærföt, sokkabuxur og búninga. Á meðan ég er í þessu átaki fæ ég mikinn innblástur úr kvikmyndum og eldri ljósmyndum og myndum.

Ég setti mér áramótaheit um að kaupa ekki föt á árinu 2019.

Núna skoða ég mest klassísk föt sem detta ekki úr tísku í næsta mánuði og undirstrika hvað mér finnst fallegt við sjálfa mig. Sú sem kenndi mér allra mest varðandi ýmis konar stælingar er Ragna Fossberg, frá þeim tíma þegar ég vann hjá RÚV og ég kann henni bestu þakkir fyrir.“

Aðspurð í hvaða búðum hún versli helst nefnir Margrét netverslunina pinupgirlclothing.com. „Verið þolinmóð, það þarf að fara vel í gegnum alls konar grínföt en svo eru þarna algjörar gersemar inn á milli,“ segir hún.

„Mér finnst ótrúlega leiðinlegt hversu margar búðir sem mig langar að kaupa mér föt í virðast ekki eiga neitt í minni stærð og versla við merki sem framleiða einfaldlega ekki föt í minni stærð. Eins og þær vilji ekki peningana mína.“

Nýjustu kaupin í fataskápnum

- Auglýsing -
„Three piece-kvenjakkaföt frá Walker Slater frá Kvenfataverslun Kormáks og Skjaldar. Hlý, klæðileg og hægt að stæla í allar áttir. Mjög ánægð með þessi síðustu kaup fyrir átak.“

Uppáhaldsflíkin

„Á síðasta ári lét ég Svanhvíti vinkonu mína gera fyrir mig ótrúlegan perlukjól fyrir burlesque-ið. Það er ákveðið skref þegar kona hættir að búa til búninga með límbyssu og leitar til fagfólks. Svanhvít Thea er ótrúleg listakona sem skilur hvernig burlesque-búningar þurfa að virka. Kjóllinn er ótrúleg völundarsmíð inspríeraður af art deco og hreyfist ótrúlega fallega. Ég kom fram í honum á gamlárskvöld á Slipper Room í New York og fólk trylltist yfir honum. Trylltist.“

Uppáhaldsfylgihluturinn

- Auglýsing -
„Refa-keip sem ég keypti í Mauerpark í Berlín fyrir fimm árum. Passar við allt og svo er hann svona krúttilega rangeygður, þessi elska. Svo er ég með hring á hverjum degi sem mamma mín fékk í fermingargjöf frá Auði bestu vinkonu sinni og það er risasilfurklumpur frá Jens.“

Flíkin með mesta tilfinningalega gildið

„Barbour-vaxjakkinn. Að eiga vaxjakka er eins og að eiga gæludýr. Það verður að vaxa hann tvisvar á ári og þá eigum við jakkinn fallega dúllustund saman. Hann verður fallegri með hverju árinu og mér þykir ótrúlega vænt um hann.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -