Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Að finna frið í hamstola heimi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nútímalíf einkennist af streitu og margir eiga erfitt með að takast á við hana og finna frið í heimi sem virðist hamstola. Hagnýt núvitund getur hjálpað okkur að beisla hugann og læra að njóta lífsins betur. Bryndís Jóna Jónsdóttir, ráðgjafi og núvitundarkennari, segir okkur frá því hvernig hægt sé að finna frið og ró, gæta að heilsunni og geðrækt í nútímalífi.

Bryndís Jóna er náms- og starfsráðgjafi og hefur unnið í menntakerfinu í yfir tuttugu ár. „Ég vann lengst af í Flensborgarskólanum í sextán ár þar sem ég sinnti ýmsum störfum, svo sem mannauðsstjórnun og verkefnastjórnun Heilsueflandi framhaldsskóla. Sá skóli hefur verið í forystu um þróun og innleiðingu þeirrar hugmyndafræði í samstarfi við Embætti landlæknis. Þegar við vorum að leggja grunn að geðræktarþema árið 2012 þá kom upp sú hugmynd að kynna núvitund fyrir starfsfólki, en á þeim tíma var ekki mikil umræða búin að vera um núvitund hér á landi. Ég fann strax að það lífsviðhorf sem við erum að rækta með okkur í gegnum núvitundarþjálfunina væri eitthvað sem ég vildi tileinka mér. Þannig að í upphafi árs 2013 fór ég á kennsluþjálfunarnámskeið í Bretlandi og síðan þá hef ég sótt mína þjálfun þangað sem núvitundarkennari fyrir alla aldurshópa, allt frá leikskólaaldri til fullorðinsára.“

Erum mikið andlega fjarverandi

Hvað er núvitund? Á hvaða fræðum eða kenningum byggir hún? „Núvitund snýst um að auka meðvitund um það sem er að gerast innra með okkur og í kringum okkur ásamt því að taka eftir viðbrögðum okkar. Í rauninni að vera til staðar í lífinu okkar á meðan það er að gerast. Besta leiðin til að gera það er að taka sjálfsstýringuna af og stilla oftar inn á skynfærin okkar. Vera meðvituð um það sem við sjáum, heyrum, snertum og svo framvegis. Í hraða daglegs lífs hættir okkur til að vera mikið andlega fjarverandi og þá missum við af svo miklu í lífinu. Sjálfsstýringin er reyndar frábært fyrirbæri, mikill orkusparnaður í því að geta verið að gera eitt og hugsa um eitthvað annað en það er ekki gott ef hún tekur yfir líf okkar, hugsanir, tilfinningar og ákvarðanir. Með því að vakna upp af sjálfsstýringunni þá verðum við betur fær um að sjá alla litlu hlutina í daglegu lífi sem geta verið mjög nærandi ef við bara veitum þeim eftirtekt. Ég segi því oft að núvitund bæti svo mörgum blómum inn í líf mitt, blómum sem ég annars tæki ekki eftir.“

Hjálplegar leiðir til að til að takast á við lífið af yfirvegun

Hvernig getur nútímamaðurinn notað núvitund í tengslum við annasamt daglegt líf sitt? Er þetta hagnýt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi? Hvernig væri lífið ef okkur tækist það? Hvað græðum við? „Svo sannarlega má segja að núvitund geti veitt okkur hagnýta leiðsögn í hamstola heimi, enda er það heiti á einu námskeiðinu sem við kennum en það er eitt vinsælasta núvitundarnámskeiðið í Bretlandi. Þetta námskeið byggir á núvitund og hugrænni atferlismeðferð og styður okkur við að átta okkur á hvað við erum að upplifa og koma okkur upp hjálplegum aðferðum til að takast á við lífið. Það er bara svo að lífið færir okkur alls konar krefjandi verkefni og áskoranir og með núvitund erum við líklegri til að vera í stakk búin til að takast á við það af yfirvegun.

„Ef við náum að venja okkur á það og erum meðvituð um að við eigum alltaf val um viðbrögð, þá aukast líkurnar til muna að við náum að vanda okkur við að velja hjálplegustu leiðina hverju sinni.“

- Auglýsing -

Ef við einfaldlega gefum okkur tíma til að staldra við og eiga smávegis andrými öðru hvoru yfir daginn. Eitthvað sem þarf alls ekki að taka langa stund, jafnvel bara nokkrir meðvitaðir andardrættir. Ef við náum að venja okkur á það og erum meðvituð um að við eigum alltaf val um viðbrögð, þá aukast líkurnar til muna að við náum að vanda okkur við að velja hjálplegustu leiðina hverju sinni. Málið er að þegar við upplifum streituástand höfum við tilhneigingu til að fá rörsýn á hlutina og við sjáum ekki hvaða valkostir eru í boði en um leið og við náum að staldra aðeins við þá getum við dregið úr streitunni og áttað okkur á að við eigum alltaf val. Það eitt og sér er ótrúlega valdeflandi.

Núvitund er reynslunám og því er það ekki fyrr en maður prófar æfingarnar, formlegar og óformlegar, sem maður veit hvort þetta virkar fyrir mann. Við höfum mjög öflugan og sívaxandi grunn rannsókna sem sýna að núvitundarþjálfun er líkleg til að stuðlað að aukinni vellíðan og velgengni á ýmsum sviðum, draga úr streitu, kvíða, þunglyndi, bæta samskipti, umburðarlyndi og ákvarðanatöku svo eitthvað sé nefnt. Hins vegar er þetta engin töfralausn og ekki hægt að fullyrða að hún henti öllum. Þess vegna segi ég að mikilvægasta rannsóknin sé sú sem hvert og eitt okkar gerir á eigin skinni þar sem við skoðum hvort og þá hvernig núvitund virkar fyrir okkur. Það er mikilvægt að aðlaga núvitundarþjálfunina að þér og þannig að hún falli sem best að þínu lífi, ekki gott ef hún fer að verða enn eitt atriðið á verkefnalistanum þínum. Það er ekki markmiðið að allir verði maraþonhugleiðendur heldur ekki síður að við opnum augun fyrir öllu því sem lífið er að færa okkur og gefum okkur tíma til að eiga stefnumót við okkur sjálf og tengja inn á við. Ég hef verið svo lánsöm að fá að fylgja fjölmörgum í gegnum markvissa núvitundarþjálfun og langflestir lýsa jákvæðum áhrifum á líf þeirra.“

Eitthvað að lokum? ,,Kannski bara að hvetja fólk til þess að byrja að æfa sig og ekki gefast upp þó að það gangi ekki fullkomlega. Hver dagur og hver stund er nýtt tækifæri til að æfa sig í núvitund, tækifæri til að mæta öllu því sem lífið færir af mildi og forvitni, bæði þessu notalega og nærandi í bland við allt hitt.“

- Auglýsing -

Myndir / Hallur Karlsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -