Föstudagur 22. nóvember, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Aðgát skal höfð í nærveru unglings

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Sonur minn fermdist í vor. Ekki hefði mig grunað að það yrði svona erfitt að finna föt á hann í réttri stærð. Það í sjálfu sér væri í lagi en ekki það dónalega viðmót starfsfólks tískuverslana sem mætti okkur. Ég var stundum gráti næst í búðunum og syni mínum leið örugglega enn verr.

 

Sonur minn, þrettán ára, er ekki sérlega hár í loftinu. Frá fæðingu hefur hann verið rétt undir meðallagi og er enn minnstur í vinahópnum sínum. Það á eftir að togna úr honum á næstu tveimur árum, veit ég, og hann er sannarlega ekki óeðlilega lágvaxinn. Bróðir minn var langminnstur fermingarbræðra sinna á sínum tíma og tók vaxtarkippinn sinn þegar hann var að verða sextán ára og er núna tæplega 1,80 á hæð. Hann var svipað hár á fermingardaginn sinn og sonur minn er núna en ég held að mamma hafi ekki lent í neinum vandræðum þegar hún keypti á hann fermingarfötin. Ég vildi að ég gæti sagt hið sama. Leitin að fermingarfötum á son minn hefur verið sannkölluð þrautaganga og ég hef varla tölu á þeim búðum þar sem við höfum mætt dónalegu viðmóti. Að finna föt í stærð sonar mín hefur verið hreint út sagt algjör martröð og ekki síst viðbrögð starfsfólks við hæð hans.

Niðurlægjandi fataleiðangur

Nokkrum mánuðum fyrir ferminguna fórum við mæðginin í fataleiðangur. Ég vildi vera á góðum tíma því ég er ekki týpan sem gerir allt á síðustu stundu. Það er líka mikilvægt að krakkar séu ánægðir með fermingarfötin sín og því mikilvægt að leita þar til þau réttu finnast. Fermingarmyndirnar okkar lifa lengi með okkur og því um að gera að vera ánægður með sig á allan hátt.

Við þræddum allar unglingabúðirnar í Kringlunni og Smáralind. Þar eru jú búðirnar þar sem vinir hans á sama aldri kaupa sér fötin. Okkur til mikillar furðu fundum við ekkert sem passaði á hann. Mikill meirihluti starfsmanna þessara verslana sýndu okkur einstaklega leiðinlega framkomu. Eins og sonur minn vissi ekki sjálfur að hann væri lágvaxinn var eins og starfsmönnum búðanna fyndist nauðsyn að benda honum á það um leið og þeir sögðu að ekkert væri til sem passaði á hann. Mér er sérstaklega minnisstæður einn starfsmaðurinn sem gekk með okkur um alla búð og sagði við mig með reglulegu millibili: „Neeei, við eigum ekkert svona lítið eins og á hann,“ eða: „Jaaaa, nei, ekkert svona lítið,“ eða: „Þetta er það minnsta sem við eigum og ég held að ekki einu sinni það passi á hann.“ Starfsfólkið talaði sjaldnast við son minn, heldur um hann við mig sem gerði niðurlæginguna meiri.

- Auglýsing -

Strákurinn minn var í algjöru uppnámi eftir þennan vægast sagt ömurlega verslunarleiðangur og sagðist hata hvernig hann liti út, hata að vera svona lágvaxinn. Þessi leið mín til að vera snemma á ferð með kaupin á fermingarfatnaði hans misheppnaðist algjörlega og gerði ekkert nema svekkja okkur mæðginin.

„Enginn svona grannur komið hingað …“

Þegar auglýst var að fermingarfötin væru komin í búðir fagnaði ég því og hugsaði með mér að það þýddi að eitthvað úrval af stærðum hlyti að vera til.

- Auglýsing -

Enn á ný fórum við mæðginin í bæinn til að finna fermingarföt á hann. Vegna fyrri reynslu okkar nokkrum mánuðum áður, var sonur minn ekki sérlega áfjáður í að koma með. Við pabbi hans báðum hann um að vera jákvæðan og með opinn huga og það var drengurinn í upphafi ferðarinnar.

Ég vildi vera betur viðbúin en síðast svo ég hringdi í ákveðna verslun í bænum til að athuga með stærðir og hvort til væru föt í númeri drengsins. Starfsmaðurinn sem svaraði í símann sagði mér að verslunin væri með lagersölu á öðrum stað, þar sem góðan afslátt væri að fá og það væru pottþétt til föt þar í þeirri stærð sem ég spurði um. Við fórum með drenginn beint í þessa lagersölu og vorum heldur betur bjartsýn. Að fá föt í réttri stærð og þar að auki á góðu verði, hljómaði vel.

Þegar við komum inn í búðina kom starfsmaður til okkar og bauð fram aðstoð sína. Við sögðumst vera að leita að fermingarfötum. Starfsmaðurinn leit á drenginn, mældi hann út með augunum og sagði svo: „Við eigum ekkert svona lítið, eins og á hann.“

Ég varð hissa, spurði hvort hann væri viss því ég hefði hringt á undan mér, talað við starfsmann og spurst fyrir um þetta áður en ég kom. Mér hefði verið sagt að til væru föt í þessu númeri.

Þá bar að annan starfsmann og þeir töluðu eitthvað saman. Seinni afgreiðslumaðurinn mældi drenginn út með augunum eins og sá fyrri og sagði: „Hann er mjög grannur, það hefur bara enginn svona grannur komið hingað inn …“ Áður en hann gat haldið áfram stoppaði ég hann af og sagði: „Fyrirgefið, en ég bara verð að segja að mér finnst þið báðir mjög dónalegir! Þetta sem þið eruð að segja er mjög særandi, svona segir maður ekki við neinn sama hvort hann sé lítill, stór, feitur eða hvað. Hvernig væri að segja: Ég skal sjá hvað við eigum til, og gefa honum séns á að komast sjálfur að því hvort eitthvað passi á hann eða ekki. Munum að aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Því næst létum við okkur hverfa út, ekki sátt við framkomuna við okkur. Við gáfumst samt ekki upp og leitin hélt áfram.

Úrbætur óskast

Ef þú ynnir í fataverslun myndir þú segja við manneskju í yfirþyngd sem væri að koma að máta föt og kaupa hjá þér: „Við eigum ekkert nógu stórt á þig,“ eða: „Það hefur enginn svona feitur komið inn í þessa búð?“ Ef þessi manneskja væri barnið þitt, hvernig myndir þú bregðast við?

Sem foreldri vill maður sjá að börnunum manns líði vel, hafi sjálfstraust og séu sátt í eigin líkama. Unglingur sem er að vera fullorðinn er á viðkvæmum aldri. Hann er að kynnast hver hann er, bæði í eigin augum og annarra. Umhverfið mótar unglinginn líka, því er ekki hægt að neita.

Þegar fermingarnar nálgast bíða spenntir krakkar með tilhlökkun eftir þessum stóra degi í lífi þeirra. Þó að þetta sé kannski ekki mikið tiltökumál í augum flestra foreldra er þetta stór dagur fyrir krakkana. Þau eru ekki lengur börn, heldur teljast í fullorðinna manna tölu og því ber að fagna.

Mig langaði að vekja athygli á þessu því að það er mjög mikilvægt hvernig við komum fram við aðra. Búðarferðirnar okkar í aðdraganda ferminganna hafa hreint út sagt valdið okkur báðum miklum kvíða og ég hef gengið með tárvotan son minn út úr verslun vegna framkomu starfsfólks við hann.

Mig langar til að miðla þessari sögu sérstaklega með verslunareigendum og biðja þá um að skoða þessi mál vel og vonandi bæta úr. Það á enginn að þurfa að fara með tárin í augunum út úr nokkurri verslun vegna dónalegrar framkomu afgreiðslufólks.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -