Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ævintýri á Jónsmessunótt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrátt fyrir viðvarandi sólskinsskort er sumarið víst komið og gott betur en það. Miðsumarshátíðir njóta mikilla vinsælda á Norðurlöndum en hér á landi eru ýmsar yfirnáttúrulegar verur tengdar sólstöðum. Á aðfaranótt Jónsmessu, þann 24. júní, er mælt með því að velta sér upp úr dögginni og jafnvel talið að dýr geti talað.

Hugmyndin um Jónsmessunótt er í augum margra sveipuð rómantískum bjarma sem eflaust á rætur sínar að rekja til skáldsögu Williams Shakespeare um Draum á Jónsmessu (e. A Midsummer Night´s Dream). Þar má sjá flóru fjölbreyttra persóna skipta um ham þessa dularfullu nótt og vægast sagt undarlega atburðarás eiga sér stað þar sem ólíklegustu fyrirbæri fella hugi saman.

Ástin er blind á augum, skyggn í hjarta, svo Amor sjónlaus þenur vænginn bjarta; á vizku og táli veit hann aldrei skil, og vængjuð blinda þýtur háskans til.

Bókmenntaunnendur, ólæknandi rómantíkusar og aðdáendur sögunnar þurfa þó ekki að bíða lengi því til stendur að setja verkið upp í Þjóðleikhúsinu á komandi leikári.

Hefðirnar ekki séríslenskar
Margir halda að mýtur tengdar Jónsmessunótt séu séríslenskar en svo er ekki. Hugmyndin um að dýr tali mannamál þessa nótt, eða að selir kasti ham sínum þekkist víða annars staðar. Ein algengasta kenning tengd þessari goðsagnakenndu nóttu er tengd lækningarmætti daggarinnar og hafa eflaust margir látið á hana reyna. Talið er að döggin á Jónsmessunótt sé svo heilnæm að hún geti læknað kláða ásamt öðrum húðmeinum en lækning á að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á nöktum líkamanum. Eins er sú trú að þessa nótt sé hægt að finna náttúrusteina með töframátt, svokallaða lausnarsteina til að hjálpa bæði konum og kúm. Sagan segir jafnframt að á Baulutindi sé tjörn og í henni sé að finna óskastein. Sá sem nær í steininn á að fá óskir sínar uppfylltar, en aðeins þessa einu nótt.
Hún er jafnframt langlíf sú trú að skil milli heima séu minni á Jónsmessunótt en aðrar nætur og því séu auknar líkur á að hitta fyrir hverskyns handanheimsverur. Púkar, nornir og draugar njóta því mikillar hylli ásamt öðrum yfirnáttúrulegum verum sem óhjákvæmilega tengjast nóttinni, en bæði nú og þá tíðkast víða að halda veislur, brennur og dansleiki á þessum degi.

Svíar skemmta sér fram undir morgun
Ísland hefur þó ekki tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana í þessum efnum því þrátt fyrir að þjóðhátíðardagur Svía sé aðeins tæpum tveimur vikum áður er miðsumarshátíðin (e. midsomer) þekktasta hefð landsins. Hátíðin er ekki bundin við aðfaranótt 24. júní eins og hér heima heldur er hún alltaf haldin um helgi og flakkar á milli daganna 19. til 25. júní. Börn eru þá komin í sumarfrí og flest fjölskyldufólk farið í sitt staðlaða fimm vikna sumarfrí.
Vinir og ættingjar safnast saman og fagna sumrinu en margir sækja í sveitasæluna enda er hvergi betra að koma saman en í grænni náttúrunni. Hátíðin fer að sjálfsögðu fram undir berum himni þar sem sumarkvöldin eru aldrei lengri eða fegurri en á þessum árstíma.

Ströng hefð ríkir um hátíðina og óhætt að segja hana sveipaða nostalgískum ljóma. Um hana ríkja ákveðnar reglur sem nær óhjákvæmilegt er að brjóta en matseðillinn er til að mynda ein þeirra órjúfanlegu hefða sem margir tengja við þennan tíma árs.

Miðsumarshátíðarmatseðillinn inniheldur nær undantekningalaust lax í ýmsum útfærslum ásamt soðnum kartöflum með fersku dilli og sýrðum rjóma. Eftirrétturinn er jafnframt ófrávíkjanlega fyrsta uppskera sumarsins af jarðarberjum, bornum fram með þeyttum rjóma. Með veisluhöldunum drekka hátíðargestir bjór en í hvert sinn sem glasið er fyllt á ný bresta veislugestir í tilheyrandi þjóðhátíðarsöngva. Eftir mat er slegið upp dansgólfi upp á gamla mátann þar sem ungir sem aldnir skemmta sér saman.
Blóm leika mikilvægt hlutverk í borðskreytingum en kvenkynsgestir bera jafnframt blómakransa á höfði.

Samkvæmt aldafornum hefðum tína ógiftar konur svo sjö mismunandi blómategundir með sér í krans á leiðinni heim og leggja undir koddann sinn. Um nóttina á þeim svo að birtast í draumi sá maður sem síðar verður þeirra eiginmaður.

Nóttin fyrir Jónsmessu er því töfrandi tími, einkum og sér í lagi í rómantískum skilningi því samkvæmt Svíum kemur sannleikurinn sífellt betur í ljós eftir því sem bjórglösum miðsumarshátíðarinnar fjölgar. Sannleikurinn getur svo ýmist leitt til hjónabands eða skilnaðar. Hvað sem því líður er þessi árstími einkar vinsæll fyrir brúðkaup og önnur hátíðarhöld.

- Auglýsing -

 

Greinin birtist í 24. tbl Vikunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -