Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Áfall við heimkomu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Við hjónin bjuggum erlendis í nokkur ár og þegar við fluttum heim aftur hóf sonur okkar nám í átta ára bekk. Ekki átti ég von á öðru en drengurinn fengi góða hjálp í skólanum en sú varð sannarlega ekki raunin og það varð okkur óvænt áfall.

 

Grétar, sonur okkar, var á öðru árinu er við fluttum út. Hann var byrjaður að tala heilmikið en sneri sér alfarið að nýja tungumálinu og neitaði að tala íslensku. Það var eins og hann gæti bara einbeitt sér að einu tungumáli í einu og ef við reyndum að þröngva honum til að tala móðurmálið þagði hann bara. Við vissum að þetta myndi breytast þegar við flyttum heim aftur en það var alltaf ætlunin. Við hjónin stunduðum bæði nám ytra og ég vann um tíma eftir að námi mínu lauk sem var styttra en nám mannsins míns. Við kunnum mjög vel við okkur og gældum við þá hugsun að búa þarna áfram í einhver ár eða lengur en okkur langaði bæði heim og hlökkuðum mikið til að flytja. Bæði vorum við komin með fína vinnu og búin að innrita Grétar í grunnskóla.

Við fluttum heim í ágúst, eða um leið og við fengum húsnæðið okkar. Það var bara til bráðabirgða og í úthverfi í Reykjavík. Grétar var nánast algjörlega mállaus á íslensku en var jákvæður að byrja að tala hana eftir flutningana. Ekki grunaði okkur að hann þyrfti á sértækri aðstoð að halda, ekkert slíkt kom í ljós ytra og hann var mjög ánægður í skólanum. Mér fannst þó alltaf svolítið skrítið að hann skyldi ekki geta talað tvö tungumál, þetta var eitthvað meira en þrjóska hjá honum. Ég var þó vongóð um að hann fengi aðstoð í skólanum eins og um erlendan nemanda væri að ræða.

Vonir mínar rættust ekki, Grétari gekk illa í skólanum og fékk mun minni hjálp en ég átti von á. Hann virtist tapa á því að vera íslenskur og komið var fram við hann eins og hann hlyti að kunna íslensku upp á hár, báðir foreldrar íslenskir og hvaðeina. Ekkert var gert til að hjálpa honum að aðlagast og eignast vini. Krakkarnir í skólanum fóru að stríða honum en eina aðferðin sem Grétar kunni til að bíta frá sér var að slást. Hann lenti nánast daglega í slagsmálum og var vissulega erfiður en viðmótið sem hann fékk í skólanum gerði ekkert annað en að auka á erfiðleikana. Ekki var hlustað á mig þegar ég bað um að honum yrði hjálpað. Hann féll illa inn í kerfið í skólanum og fyrst hann gat ekki aðlagað sig vildi skólinn ekkert gera fyrir hann. Það var að minnsta kosti mín upplifun. Kennarinn hans leit á hann sem vandamál, ekki lítinn dreng sem þyrfti á miklum stuðningi að halda.

Einelti kennarans

- Auglýsing -

Vandræðin hófust þó fyrir alvöru nokkrum mánuðum seinna þegar við fluttum og Grétar þurfti að skipta um skóla. Ég batt miklar vonir við að nýi skólinn yrði betri, ég vissi að skólayfirvöld þar hreyktu sér af því að taka vel á móti nýbúum. En eins og í hinum skólanum virtist sonur minn tapa á því að vera íslenskur og  eiga í erfiðleikum með að tala móðurmál sitt.

Fyrstu tvær annirnar í þessum skóla voru algjör hryllingur, Grétar lenti sífellt í einhverjum vandræðum og ég var endalaust kölluð í viðtöl í skólann vegna  hans. Eitt skiptið þegar ég mætti í viðtal sá ég uppi á vegg í stofunni lista yfir börnin í bekknum og mismargar stjörnur fyrir aftan hvert nafn. Mér til undrunar sá ég hvergi nafn sonar míns á þessum lista og spurði kennarann hans af hverju hann hefði ekki fengið neinar stjörnur. Hann svaraði því til að það tæki því ekki, Grétar hefði ekki einu sinni unnið til þess að komast á listann. Þetta fannst mér illa gert og ekkert annað en einelti í garð drengsins.

„… og spurði kennarann hans af hverju hann hefði ekki fengið neinar stjörnur. Hann svaraði því til að það tæki því ekki.“

Þessi kennari, ung kona, skildi ekki þótt ég reyndi eftir fremsta megni að útskýra að svona gerði maður ekki við nemendur sem ættu í erfiðleikum, það myndi áreiðanlega virka mjög hvetjandi fyrir þá að vera ofarlega á lista og fá margar stjörnur fyrir viðleitnina þótt vinnubrögðin væru kannski ekki upp á sitt besta. „Nei, ekki hjá mér,“ sagði kennarinn og sneri upp á sig. Ekki skrítið þótt sonur minn hafi misst áhugann á náminu hjá þessari konu.

- Auglýsing -

Strok úr viðveru

Við hjónin unnum mikið á þessum tíma, það var dýrt að lifa, leigan há, við stefndum á að kaupa okkur íbúð og byrjuðum að safna peningum inn á reikning. Eftir á að hyggja er ég mjög ánægð með að 100% lánin hafi ekki verið í boði þá því það hefði verið eitthvað sem við hefðum stokkið á.

Við létum fátt eftir okkur en borguðum með gleði fyrir viðveru eftir skóla fyrir Grétar. Þar gæti hann mögulega eignast vini og þyrfti ekki að vera einn heima þar til við foreldrar hans kæmum heim úr vinnunni.

Grétar var hrifinn af viðverunni í fyrstu og við hjónin vorum alsæl en sú sæla stóð ekki lengi. Honum fór að líða illa þar eins og í skólanum.

Grétar hafði náð að vingast við dreng í viðverunni en það var engu líkara en að konan sem var yfir þar reyndi að stía þeim í sundur, miðað við það sem Grétar sagði okkur. Enn skil ég ekki ástæðu þess.

Grétar stakk nokkrum sinnum af úr viðverunni og þá fékk ég símtöl frá mæddri konunni sem sagðist vera að gefast upp á drengnum. Ég spurði hana hvort hann væri óþægari en hinir krakkarnir. Nei, kannski ekki endilega, þetta væri skrautlegur hópur en Grétar væri samt erfiður, sagði hún.

Ég fór einu sinni í viðtal til hennar þar sem átti að ræða þessi vandræði en því miður komst maðurinn minn ekki með. Konan talaði mikið um hegðunarerfiðleika Grétars og að hann virtist oft vera óhamingjusamur. Hvort það gæti verið að hann fengi ekki næga athygli á heimilinu? Kannski þyrfti bara að sinna honum betur. Ég leyfði henni að mala, enda varð ég orðlaus af undrun en svo lét ég heyra í mér. Ég sagði henni að Grétar fengi nóg af ást og umhyggju heima, vandamálið lægi ekki á heimilinu, heldur í skólanum. Og ég varð að bæta því við, í viðverunni þar sem honum liði greinilega illa. Ekki löngu seinna létum við hann hætta í viðverunni, ég var ófrísk að yngra barninu og hafði þurft að hætta að vinna fyrr en ella vegna veikinda á meðgöngu. Grétar var mjög sáttur við þessa breytingu.

Greining

Þegar Grétar var tíu ára fórum við með hann til geðlæknis. Við vorum orðin ráðalaus og ástandið versnaði bara. Því miður var þetta læknir sem hafði tröllatrú á því að lyf læknuðu allt. Hann virtist lítinn áhuga hafa á því að vita hvað raunverulega amaði að og greindi hann samstundis með ADHD. Lítill frændi minn hafði fengið slíka greiningu og ég þekkti fleiri börn með ADHD og fannst sonur minn ekki líkjast þeim á nokkurn hátt þótt hann væri með hegðunarvandamál. Læknirinn hlustaði ekki þótt ég segði að vandamálin hefðu fyrst hafist þegar hann byrjaði í skóla á Íslandi og hefði orðið fyrir einelti. Drengurinn sýndi líka allt aðra hegðun inni á heimilinu og var ljúfur og meðfærilegur en allt kom fyrir ekki. Það endaði með því að ég sagði lækninum að því miður hefði ég enga trú á þessari greiningu og við það sat, barnið fór ekki á lyf við ADHD.

Við gáfumst þó ekki upp við að leita frekari hjálpar og töluðum við fleiri sérfræðinga. Grétar var greindur með vott af athyglisbresti af völdum streitu í skólaumhverfi hans. Einnig kom í ljós að hann var lesblindur.

„Við gáfumst þó ekki upp við að leita frekari hjálpar og töluðum við fleiri sérfræðinga. Grétar var greindur með vott af athyglisbresti af völdum streitu í skólaumhverfi hans.“

Okkur var ráðlagt af fagmanni að láta hann skipta um skóla og það gerðum við. Það passaði vel því stutt var í að við fengjum afhenta íbúðina okkar, reyndar leiguíbúð en hún var til langframa og í draumahverfinu okkar.

Grétar var settur í sérdeild í nýja skólanum. Hann fékk góða kennslu þar en þurfti að auki sérstaka lestrarkennslu hjá sérfræðingi sem við þurftum að greiða fyrir. Hann sýndi gífurlega miklar framfarir á stuttum tíma. Við höfðum því miður ekki efni á því að greiða fyrir nema fimmtán skipti því fjárhagslegar aðstæður okkar voru slæmar á þessum tíma og hver tími dýr. Ég var tekjulaus heima með lítið barn og lengi óvinnufær vegna veikinda sem hófust á meðgöngu.

Þótt Grétari gengi betur og yrði læs á skömmum tíma hafði svo margt slæmt gerst í skólagöngu hans að það virtist vera óbætanlegt. Enn gekk honum illa að eignast vini og alltaf var eitthvert einelti í gangi sem virtist erfitt að uppræta.

Gjörbreyting

Við tókum þá ákvörðun, aðeins nokkrum árum eftir að við fluttum heim, að flytja aftur út á sama stað og við bjuggum áður. Ég vissi að ég ætti eftir að sakna vina og ættingja mikið og ekki yrði víst að við hefðum það svo miklu betra ytra. En við vissum að Grétar fengi betri þjónustu í skólanum og það réð úrslitum.

Grétar varð ofsaglaður þegar við sögðum honum frá því að við ætluðum að flytja og til að gera langa sögu stutta hefur honum gengið allt í haginn síðan hann komst „heim“. Í skólanum ytra var unnið mikið með hann og allir voru svo góðir við hann, jafnvel þótt hann hegðaði sér ekki alltaf vel. Smám saman breyttist það, hann hætti að vera í sífelldri vörn og fór að treysta fólki. Hann eignaðist tvo góða vini sem eru enn í dag bestu vinir hans.

Skólaganga Grétars varð ekki löng, mögulega vegna erfiðleikanna á Íslandi, en hann kláraði sitt með sóma og fór svo út á vinnumarkaðinn. Hann er góður og samviskusamur starfskraftur og nýlega var hann gerður að verkstjóra, sem hann átti fyllilega skilið. Hann er fluttur að heiman og farinn að búa með kærustunni. Hann talar íslenskuna ágætlega þótt hitt málið sé honum tamara en ég átti alveg eins von á því að hann týndi móðurmálinu niður aftur eftir að við fluttum.

Við hjónin erum virkilega ánægð með lífið þó að við finnum alltaf fyrir heimþrá annað slagið. Ég fékk bót meina minna með tímanum og góðri hjálp sjúkraþjálfara og hef getað unnið úti og við höfum það ljómandi gott. Mér finnst ólíklegt að við flytjum heim úr þessu, nema þá kannski í ellinni. Þótt ég sé sátt og hamingjusöm fyllist ég stundum reiði þegar ég hugsa út í það hvernig Grétar var svikinn af íslenska skólakerfinu um þau tækifæri sem hann átti fullan rétt á, bara vegna þess að hann passaði ekki í eitthvert mót.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -