Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Áfallið sem breytti öllu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega þrítug hefur Arna Pálsdóttir upplifað meira en margir gera á heilli ævi. Hún ólst upp við mjög óhefðbundið fjölskyldumynstur og þurfti snemma að standa á eigin fótum. Á dögunum birti Arna pistil á Vísir.is sem ber heitið „Að vilja deyja eða geta ekki lifað“ en þar opnaði hún sig um sjálfsvíg föður síns og sína upplifun af því að vera aðstandandi. Pistillinn kveikti áhuga hjá okkur á að kynnast þessari heilsteyptu konu betur og heyra sögu hennar.

Arna var tveggja ára þegar foreldrar hennar skildu og á því engar minningar af þeim sem hjónum. Skilnaðurinn var þungur og erfiður og fór það svo að Arna flutti af heimilinu með pabba sínum en Lilja systir hennar sem er fimm árum eldri varð eftir hjá móður þeirra. Arna segir þessa ákvörðun hafa kostað móður hennar sálarstríð allar götur síðan. „Ég held að það hafi ekki legið nein sérstök hugsun að baki í upphafi en þegar mikið gengur á í tilfinningalífi fólks eru ákvarðanir sjaldan teknar af yfirvegun og skynsemi.“

Mamma veit að hún hefur minn skilning og ég veit að einn daginn mun hún sættast við þennan kafla í lífi okkar.

Áfallið sem breytti öllu

Arna segir þessar aðstæður og erfið samskipti milli foreldra sinna vissulega hafa mótað æsku sína. Heimili hennar hafi verið mjög ástríkt en á sama tíma meðvirkt. Faðir hennar stjórnaði samskiptum og umgengni Örnu við mömmu hennar og hafði einnig mikil völd í sambandi hennar við stjúpmóður sína. Var það meðal annars alveg skýrt af hans hálfu að ef leiðir myndu skilja, myndu leiðir þeirra mæðgna gera það líka. Vanmáttur þeirra gagnvart honum var mikill.

Mynd / Unnur Magna

„Pabbi minn var dásamlegur maður, örlátur, innilegur og hjartahlýr,“ segir Arna þegar hún lýsir föður sínum. „En hann átti sínar skuggahliðar og það var ekki auðveldlega farið gegn því sem hann hafði ákveðið. Þótt hann hafi verið góður maður tók hann ekki alltaf góðar ákvarðanir. Hann var ofboðslega stór persóna sem hafði mikla útgeislun og nærveru, var hrókur alls fagnaðar. Við bjuggum við fjárhagslegt öryggi og hann var alltaf að, hvort sem það var að smíða pall, stækka húsið eða gera upp gamlan Benz í bílskúrnum, enda einstaklega handlaginn. Hann elskaði að ferðast og við fjölskyldan ferðuðumst mikið.“

„Pabbi minn var dásamlegur maður, örlátur, innilegur og hjartahlýr.“

En sagt er að hver hafi sinn djöful að draga. Þunglyndi og alkóhólismi sóttu hart að heimilisföðurnum, og þótt Arna hafi verið náin pabba sínum og elskað hann mikið, viðurkennir hún að hafa líka verið hrædd við hann. „Við vorum það öll. Í fjölskyldum þar sem geðsjúkdómar eru til staðar litar það líf allra sem í þeim eru. Ég á óteljandi góðar minningar um pabba minn en líka aðrar ekki eins góðar,“ segir hún.

Arna prýðir forsíðu Vikunnar.

Eftir því sem árin liðu fóru djöflar föður Örnu að stækka og gekk á ýmsu á heimilinu. Það var svo árið 2001, þegar Arna var 16 ára, að hann framdi sjálfsvíg. Þrátt fyrir það sem á undan var gengið var þetta henni og fjölskyldunni allri gríðarlegt áfall. „Maður á aldrei von á svona fréttum,“ segir Arna. „Ég var ein heima þetta kvöld með nokkra vini í heimsókn þegar lögreglumaður og prestur bönkuðu upp á. Maður þarf ekki að vera mjög gamall til að vita að það boðar ekki gott þegar slíkt tvíeyki stendur fyrir framan þig. Þeir spurðu bara um mömmu og þá vissi ég að eitthvað hefði komið fyrir pabba. Þegar þeir sögðu mér að hann væri dáinn vissi ég strax hvað hefði gerst. Ég get ekki lýst því betur og ég get ekki útskýrt hvernig en ég vissi um leið að hann hefði framið sjálfsvíg.“

- Auglýsing -

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Örnu. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -