Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Allt öðruvísi ferð en allar aðrar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Harðardóttir hefur staðið fyrir gönguferðum víða í Evrópu síðan 1996, gengið með hópa um fjöll og firnindi á Majorku, Ítalíu í Píreneafjöllunum og víðar undir nafninu Göngu-Hrólfur. Ein gönguleið stendur þó upp úr í hennar huga; pílagrímsganga til Rómar þar sem gengið er í fótspor Nikulásar ábóta á Munkaþverá.

 

„Ég hef verið með þessar pílagrímagöngur á heilanum síðan um aldamótin,“ segir Steinunn. „Þá fékk ég þær upplýsingar frá ítölskum leiðsögumanni að þetta væri þekkt leið meðal þeirra sem þekktu til pílagrímaleiða í Evrópu. Ég er með kort þar sem sýndar eru leiðir, til dæmis Via Francigena, sem er leiðin sem liggur frá Kantaraborg og svo er það Munaþverárleiðin sem er leiðin sem Nikulás ábóti gekk frá Íslandi til Rómar og síðan til Jerúsalem um 1150. Nikulás lýsti leiðinni svo vel í ritinu „Leiðarlýsing og borgarskipulag“ að hægt er að fylgja henni enn í dag og hún er mikið gengin. Ég skammaðist mín fyrir að láta ítalskan leiðsögumann kenna mér íslenska sögu, kynnti mér málin og komst að því að auk Nikulásar og Guðríðar Þorbjarnardóttur sem margir vita að gekk til Rómar, voru íslensku Rómarfararnir svo margir að Páll Jónsson biskup sem dó 1211 á að hafa sagt að það þyrfti að draga úr suðurgöngum presta þar sem það væri að verða kennimannalaust í landinu.“

„Ég skammaðist mín fyrir að láta ítalskan leiðsögumann kenna mér íslenska sögu…“

Spurð hvort slíkar pílagrímagöngur séu ekki trúarlegs eðlis neitar Steinunn því. „Þetta hefur ekkert með trú að gera,“ segir hún.

Mynd / Aðsend

„Ég er hins vegar orðin dálítið trúuð á þessar leiðir. Tilfinningin að vera að ganga í fótspor þessa fólks sem gekk þarna í gegnum árhundruðin er orðin dálítið ávanabindandi. Ég gekk til dæmis frá Þingvöllum í Skálholt í nokkur ár en það var á sama hátt alveg óháð kristinni trú. Það er bara svo heillandi að ganga svona og hafa söguna sem bakgrunn.“

Ferðalag í tíma og rúmi

Steinunn hefur skipulagt pílagrímsgöngu frá Montefiascone til Rómar, sem er um hundrað kílómetra leið, en auk þess hefur hún gengið pílagrímaleiðina frá Lucca til Siena, sem er hluti af leiðinni til Rómar og þá leið var fyrsta nútímapílagrímaferðin gengin árið 1913. Hvað er það sem gerir þessar göngur svona heillandi og sérstakar að hennar mati?

- Auglýsing -

„Pílagrímagöngurnar voru náttúrlega ferðaþjónusta síns tíma, það þurfti auðvitað að veita öllum þessum pílagrímum sem röltu þarna niður eftir þjónustu. Ég tek það fram að þessar ferðir eru ekki fjallgöngur, þetta er frekar slétt landslag, en hitt allt saman vegur upp á móti því.

Það er bæði þetta sem ég lýsti áðan, að ganga í fótspor forfeðranna og svo að ganga í gegnum þetta söguríka landslag á Ítalíu,“ útskýrir hún. „Ég er búin að ganga út um allt síðan 1996 og hef upplifað margt stórkostlegt en þessar ferðir eru allt öðruvísi en allar aðrar. Í fyrstu ferðinni sem ég fór árið 2017 var líka annarri vídd bætt við upplifunina af leiðsögumanninum, Magnúsi Jónssyni sagnfræðingi sem og því hvernig hann matreiddi söguna ofan í okkur. Ég hef þekkt Magnús lengi og farið í fjölmargar göngur með honum um íslenskar söguslóðir en þarna toppaði hann sig.

Mynd / Aðsend

Á hverjum degi fengum við fróðleik um einn eða fleiri Íslendinga sem fóru til Rómar á miðöldum. Við veltum fyrir okkur hvenær kirkjur sem við heimsóttum voru byggðar og hvort til dæmis Nikulás, Guðríður Þorbjarnardóttir eða Sturla Sighvatsson hafi séð þær. Litlu miðaldabæirnir sem við gistum í og fórum um voru lítið breyttir frá því þeir höfðu gegnt mikilvægu hlutverki fyrir pílagríma miðalda og götur voru jafnvel nefndar eftir þeim. Það var líka sérstakt að halda alltaf áfram, ganga frá einum bænum í annan gegnum fjölbreytt menningarlandslagið. Við fórum eftir Via Cassia sem er frá því fyrir Krist, skoðuðum rómverskan leikvang  og grafhýsi sem voru grafin inn í mjúka móbergskletta og heimsóttum safn með einstökum munum frá tímum Etrúska. Þannig var þetta ferðalag bæði í tíma og rúmi og allur hópurinn lifir sig inn í stemninguna.“

- Auglýsing -

Steinunn á heldur ekki nógu sterk lýsingarorð til að lýsa þeirri upplifun að ganga inn í ýmis þorp á leiðinni sem hún segir lítið hafa þróast og það sé eins og ganga inn í miðaldir að koma þar.

„Sum þorpin eru flott, eins og San Gimignano sem er náttúrlega orðinn túristabær,“ segir hún. „En önnur þorp sem standa uppi á hæðum hafa mjög lítið breyst, þar eru pílagrímagatan og gömlu gistihúsin enn við lýði. Pílagrímagöngurnar voru náttúrlega ferðaþjónusta síns tíma, það þurfti auðvitað að veita öllum þessum pílagrímum sem röltu þarna niðureftir þjónustu. Ég tek það fram að þessar ferðir eru ekki fjallgöngur, þetta er frekar slétt landslag, en hitt allt saman vegur upp á móti því. Maður er bara að ganga og njóta þess að ganga nánast í gegnum alla menningarsögu Vesturlanda, alveg frá Etrúskum og Rómverjum þannig að þetta er mjög djúp reynsla. Þegar ég fer til dæmis í Pyreneafjöllin og labba þar um þá er engin saga í kringum mig, bara fjallastígar og fegurð, sem er auðvitað yndislegt og æðislegt, en það hafa söguna á hverju strái bætir við nýrri vídd.“

 Ekki komin með Sturlukomplexinn

Spurð hvort það hafi ekki verið hluti af yfirbót pílagrímanna á sínum tíma að ganga þessa leið berfættir segir Steinunn þá skoðun á dálitlum misskilningi byggða.

„Nei, fólk þurfti ekki að vera berfætt,“ segir hún. „Þegar það kom til Rómar átti það að ganga milli höfuðkirknanna, sem eru fimm tilteknar kirkjur, en í okkar ferðum höfum við beygt það ritúal svolítið og valið þrjár kirkjur til að ganga á milli og ímynda okkur að við séum að loka pílagrímagöngu með því að ganga milli höfuðkirkna.“

Spurð hvort þau taki þetta kannski alla leið í fótspor forfeðranna og láti húðstrýkja einhvern þátttakendanna fyrir utan eina kirkjuna svarar Steinunn hlæjandi að þau gangi reyndar ekki svo langt.

Aðsend mynd

„En, jú, jú, það var gert við Sturlu Sighvatsson þegar hann var að gera yfirbótina,“ segir hún. „Og fólk gat ekki hamið sig fyrir sorg yfir því að svona fallegur maður væri svona illa leikinn. En hann ofmetnaðist náttúrlega og kom heim og hélt hann gæti stjórnað Íslandi eftir að hafa fengið aflátsbréf frá páfa. Ég er ekki enn komin með þann komplex en það er aldrei að vita hvað gerist, ég er náttúrulega komin með þennan komplex að finna nýjar leiðir. Mér finnst svo leiðinlegt að allir skuli vita af Santiago de Compostela, þótt auðvitað sé ekkert að því að fólk þekki, en nánast enginn viti um þessa íslensku pílagrímaleið sem allir íslenskir pílagrímar fóru, meira að segja þeir tveir Íslendingar sem fóru til Santiago á þessum tíma fóru líka til Rómar, þannig að þetta er svo djúpur þáttur í okkar sögu og ég er mjög mikið fyrir það að skoða ræturnar.“

Ferðinni lýkur svo með því að skundað er á skrifstofu páfa og gegn framvísun á stimplum því til sönnunar að fólk hafi gengið leiðina fær það viðurkenningarskjal eða aflátsbréf páfa. En getur hver sem er farið í þessar ferðir, er ekki skilyrði að fólk sé sæmilega vel á sig komið til að taka þátt í svona langri gönguferð?

„Nei, ég hef einmitt lagt áherslu á að allir geti gert þetta,“ segir Steinunn ákveðin. „Þetta er ekki eins og pílagrímagangan til Santiago de Compostela, þar sem gengnir eru kannski þrjátíu kílómetrar á dag, heldur er áherslan á að ganga í gegnum þetta sögulega landslag á Ítalíu þannig að við erum alltaf með bíl með okkur sem getur tekið fólk upp í ef það er orðið þreytt eða eitthvað kemur upp á. Þannig að fólk sem er kannski ekki tilbúið að ganga tuttugu til tuttugu og fimm kílómetra getur samt komið með vitandi að bíllinn mun bjarga því.“

Næsta pílagrímaganga til Rómar verður í október en í hana er löngu uppselt og verið er að hefja sölu á ferð næsta ár. Fjöldi þátttakenda er mjög takmarkaður í hverja ferð og það helgast ekki síst af framboði á gistirými á leiðinni.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni 

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -