Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Amman sem lét sig hverfa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni.
Yfirleitt heyrast bara sögur af karlmönnum sem stinga fjölskylduna af þegar „byrðin“ er að sliga þá og konan situr eftir í súpunni. Fyrir nokkrum árum upplifði nágranni minn það að konan hans flutti út frá honum og börnunum og hann sat eftir með sárt ennið.

 

Ég flutti með fjölskyldu minni í nýtt hverfi fyrir nokkrum árum og kynntist fljótlega nágrönnum mínum, hjónum sem áttu þrjár dætur. Samskiptin voru góð og með tímanum urðu Magnús og Ásdís vinafólk okkar.

Við Gummi, maðurinn minn, vorum með þeim fyrstu sem fréttum þegar elsta dóttirin, 15 ára, varð ófrísk. Allir héldu fyrst að hún hefði fitnað svona og mamma hennar keypti m.a. á hana strigaskó þegar hún kvartaði undan því að vera orðin svo þung á sér. Daginn eftir fóru mæðgurnar til læknis vegna slappleika dótturinnar. Hann skoðaði stúlkuna og sagði síðan að hún væri ófrísk og komin tæpa sjö mánuði á leið. Þetta kom öllum í opna skjöldu, stúlkan átti erfitt með að trúa þessu og tók fréttunum mjög illa fyrst í stað.

Barnið kom í heiminn og reyndist vera heilbrigður og fallegur drengur. Pabbinn var kornungur líka og þau stúlkan ekki í sambandi lengur. Hann studdi barnsmóður sína eftir bestu getu og einnig reyndust foreldrar hans henni og barninu einstaklega vel.

Áfall

Eitt kvöldið sátum við Gummi í stofusófanum, horfðum á sjónvarpið og spjölluðum saman. Þá var dyrabjöllunni hringt og úti á tröppum stóð Magnús og spurði hvort hann mætti sníkja einn kaffibolla. Ég bauð honum inn í eldhús og Gummi settist hjá okkur. Við ræddum um hitt og þetta eins og venjulega en Magnús var óvenjuþögull og það var eins og honum lægi eitthvað á hjarta sem hann gæti ekki komið orðum að. Á endanum spurði ég hvort eitthvað hefði komið fyrir, hann væri svo ólíkur sjálfum sér. Það reyndist aldeilis vera þannig og Magnús sagði okkur frá því nýjasta sem hafði gengið á í lífi fjölskyldunnar. Hann var dapur í bragði og svolítið eins og hann væri ekki búinn að átta sig á hlutunum.

„Magnús vann kannski mikið en hann virtist vera mjög góður fjölskyldufaðir, eiginlega fannst mér hann dekra við Ásdísi og dæturnar, það var alla vega greinilegt að hann elskaði þær mikið.“

- Auglýsing -

Á meðan dóttir þeirra var á fæðingardeildinni tilkynnti Ásdís honum að hún væri farin, hún nennti þessu ekki lengur. Hún væri búin að pakka niður í tösku og ætlaði að flytja út. Hún kvaddi dæturnar og fór. Hún flutti í herbergi úti í bæ og engu tauti var við hana komið. Það var bókstaflega ekkert sem gaf til kynna að Ásdísi liði illa á nokkurn hátt, sagði Magnús. Hún hafði verið alveg eins og hún átti að sér að vera dagana og vikurnar áður en þetta gerðist.

Við Gummi störðum á Magnús og trúðum varla okkar eigin eyrum. Aldrei hafði Ásdís minnst á eitt eða neitt í þessa veru og aldrei hafði hún kvartað yfir hlutskipti sínu eða minnst á að hún væri óhamingjusöm. Magnús vann kannski mikið en hann virtist vera mjög góður fjölskyldufaðir, eiginlega fannst mér hann dekra við Ásdísi og dæturnar, það var alla vega greinilegt að hann elskaði þær mikið. Sem nágranni og vinur þekkti ég þau vel og vissi heilmargt um þau. Það var því ekkert sem bjó mig undir þessar fréttir.

Aldrei heim aftur

- Auglýsing -

Skömmu eftir heimsókn Magnúsar ákvað ég að kíkja til Ásdísar. Það var ósköp nöturlegt að heimsækja hana í leiguherbergi. Ég viðurkenni að ég var að drepast úr forvitni og langaði að vita ástæðuna fyrir þessu öllu saman.

Risastór og fallegur blómvöndur var í vasa á borði í einu horninu. Ég spurði Ásdísi hvort hún væri komin með nýjan mann en hún hristi höfuðið og sagði kuldalega: „Þetta eru blóm frá Magnúsi, ég skil bara ekki hvernig honum dettur í hug að ég falli fyrir þessu!“ Hún rétti mér miðann sem fylgdi blómunum og þar mátti lesa innilega ástarjátningu frá Magnúsi. Mér fannst svo sorglegt að lesa þetta fallega bréf þar sem hann sagði að Ásdís væri eina ástin hans, spurði hvort hún gæti ekki komið aftur, hvað hann hefði gert og hvort hann gæti bætt á einhvern hátt fyrir það. Ásdísi fannst ekki mikið til um þetta og sagðist aldrei ætla að fara heim aftur, hún væri búin að fá nóg. Ég spurði hana hvort hana langaði ekkert að kynnast nýfædda barnabarninu en hún gaf ekkert út á það. Hún sagði ekkert neikvætt um Magnús sem hefði útskýrt hvers vegna hún fór að heiman, heldur endurtók bara að ætlaði aldrei aftur heim.

Það var svo mikil biturð og hatur í henni og ég þekkti hana ekki fyrir sömu manneskju. Ekkert sem hún sagði réttlætti í mínum huga það að yfirgefa fjölskyldu sína á þennan hátt. Ég gat alveg ímyndað mér höfnunina og sársaukann sem dætur hennar upplifðu og einnig sorg Magnúsar.

„Ég viðurkenni að ég var að drepast úr forvitni og langaði að vita ástæðuna fyrir þessu öllu saman.“

Ég sat hjá henni í smástund í viðbót og fann fyrir miklum létti þegar ég var komin út. Hvernig Ásdís gat breyst svona fannst mér ótrúlegt. Ég hef ekki hitt hana eftir þessa heimsókn mína og hef engan áhuga á því að þekkja svona manneskju.
Þetta gerðist allt snemma sumars og um haustið fóru sögurnar af stað og þær reyndust heldur betur vera sannar.

Ásdís hafði fengið nýtt starf í janúar á þessu sama ári og kynnst manni á vinnustaðnum sem hún fór að vera með. Hann var 15-20 árum yngri en hún og þau fóru svo leynt með sambandið að engan grunaði neitt. Magnús hafði þó spurt hana nokkrum sinnum hvort annar maður væri í spilinu því að Ásdís hafði aldrei gefið upp neina ástæðu fyrir brottför sinni. Ásdís hafði þráfaldlega neitað því. Hún flutti í annað sveitarfélag nokkrum mánuðum seinna, eða um áramótin næstu og fór að búa með unga manninum sínum. Nú eiga þau heima í útlöndum og eru víst mjög hamingjusöm.

Frábær pabbi

Þetta reyndist dætrunum mikið áfall en Magnús tók á honum stóra sínum þegar hann áttaði sig á því að Ásdís kæmi ekki aftur heim og reyndi eftir bestu getu að fylla skarð hennar. Smám saman tókst fjölskyldunni að púsla sér saman og lífið hélt áfram. Ég dáðist að Magnúsi, hann reyndist stelpunum alveg einstaklega góður faðir. Það hefur ræst vel úr þeim öllum og litla barnabarnið var afa sínum mikill gleðigjafi.

„Ég tek það fram að ég áfellist Ásdísi ekki vegna þess að hún er kona og ætti eitthvað frekar að vera hjá maka og börnum en karlmaður.“

Ásdís á nokkur barnabörn núna, enda eru dæturnar uppkomnar. Þegar Ásdís var loks tilbúin að taka upp samband við dætur sínar voru þær ekkert sérlega upprifnar. Það hefur ekki enn gróið um heilt en mér skilst þó að ástandið hafi farið skánandi með árunum.

Ég tek það fram að ég áfellist Ásdísi ekki vegna þess að hún er kona og ætti eitthvað frekar að vera hjá maka og börnum en karlmaður. Ef Magnús hefði farið að heiman á þennan hátt hefði ég orðið alveg jafnhissa og hneyksluð. Það að yfirgefa fjölskyldu sína svona skyndilega og án sýnilegrar ástæðu fannst mér illa gert, hvort sem karl eða kona á í hlut. Þetta er hámark eigingirninnar, að mínu mati. Ég get rétt ímyndað mér sársaukann og höfnunina sem Magnús og dæturnar upplifðu. Það hefði verið skárra ef hún hefði sagt sannleikann, að annar maður væri í spilinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -