Lífsreynslusaga úr Vikunni
Ég var komin hátt á fimmtugsaldur þegar ég skildi. Í tíu ár var ég ein og fannst stöðugt ólíklegra að ástin bankaði aftur upp á í lífi mínu. Þegar ég kynntist Gunnari fannst mér lífið dásamlegt og eiginlega of gott til að vera satt. Það kom líka á daginn að hann var ekki sá sem ég hélt hann væri.
Gunnar var ekkjumaður. Hann hafði misst konu sína úr krabbameini um svipað leyti og ég skildi við manninn minn. Þau hjónin höfðu átt og rekið fyrirtæki saman og verið mjög vel stödd fjárhagslega. Gunnar sat í óskiptu búi en tvö barna hans unnu við fyrirtækið. Kona hans átti mikið af vönduðum fötum og skartgripum sem Gunnar hafði skipt milli dætra þeirra. Sonurinn fékk í staðinn bíl móður sinnar en allt annað á heimilinu var eins og hún skildi við það.
Gunnar bjó í stóru fallegu einbýlishúsi en ég átti litla íbúð. Við bjuggum hvort í sínu lagi en hittumst oft í viku og fljótlega var ég farin að vera meira heima hjá honum en mér. Ég var því farin að flytja með mér eitthvað af nauðsynlegum fötum og snyrtivörum. Gunnar tók því ágætlega bjó til rými fyrir mig í fataskápum og baðskáp en bað mig að láta ekki dótið mitt sjást. Hann sagði að þegar börnin hans kæmu við myndi það reynast þeim erfitt ef þeim fyndist að önnur kona væri að taka sess móður þeirra í lífi hans. Mér fannst það mjög eðlilegt til að byrja með og hugsaði með mér að þau hlytu að venjast við og smátt og smátt gæti ég eignast vináttu þeirra.
Börnin vildu ekki sjá hana
Ekki var því þó að heilsa. Þegar börnin hans litu við um helgar bað Gunnar mig að fara inn í herbergi og bíða þar áður en hann opnaði fyrir þeim. Ég sat þar og lét lítið fyrir mér fara þótt mér þætti þetta mjög óþægilegt. Stundum lét ég mig hverfa út um garðdyrnar og fór heim til barnanna minna til að bíða af mér heimsóknina. Nokkrum sinnum ræddi ég þetta við Gunnar og spurði hann hvort hann teldi ekki ómögulegt að við héldum sambandi okkar til streitu fyrst börnin hans væru því svo mótfallin. Hann svaraði því til að hann vildi alls ekki missa mig og við skyldum sjá til.
Samband okkar varð sífellt nánara og við komumst að því að við áttum mörg sameiginleg áhugamál. Gunnar var góður kokkur og var í matarklúbbi þar sem fólk kom saman og eldaði eftir hefðum mismunandi landa. Dregið var um í hverju boði hvaða land félli í hlut þess er átti að halda næsta. Við Gunnar fengum Ísrael í okkar hlut skömmu eftir að við vorum farin að kynna hvort annað fyrir vinahópunum. Þetta var mikil og skemmtileg áskorun, við elduðum saman og tókum á móti klúbbnum. Allt gekk vel en þegar þau voru að fara spurði ein konan mig hvernig fjölskyldur okkar Gunnars hefðu tekið samdrætti okkar.
Ég sagði henni að börnin mín væru mjög hrifin af Gunnari en ég hefði ekki enn hitt börnin hans. Þau ættu víst erfitt með að sætta sig við samband okkar og vildu ekki hitta mig. Hún varð mjög undrandi og sagði að þetta líktist alls ekki dætrum Gunnars sem hún þekkti mjög vel. Þær hefðu þvert á móti margoft talað um það við sig að þær myndu fagna því ef pabbi þeirra kynntist góðri konu. Eftir að kona hans dó hafði Gunnar sokkið ofan í djúpt þunglyndi og krakkarnir hans haft miklar áhyggjur af honum. Lengi hafði hann einangrað sig frá öllum og verið mjög einamana. Þessi kona hafði verið besta vinkona eiginkonu hans og þau hjónin ævinlega mjög náin þeim meðan hún lifði.
Símtal frá yngstu dótturinni
Hún sagðist þess vegna hafa tekið börn Gunnars upp á sína arma þegar móðir þeirra féll frá og faðir þeirra átti svo erfitt. Yngsta dóttirin var rétt rúmlega tvítug og það var henni mikið áfall að missa móður sína. Konan bætti við að þrátt fyrir það hefði hún aldei orðið þess vör að sú stúlka vildi að faðir hennar yrði einn það sem eftir væri.
Ég sagði henni að Gunnar væri mér einstaklega góður og ég væri ekki á förum. Ég hefði fulla trú á að börnin hans myndu koma til og fyrr eða síðar gætum við öll orðið vinir. Nokkrum dögum seinna fékk ég upphringingu. Í símanum var Kristín, yngri dóttir Gunnars. Hún hafði talað við konuna úr matarboðinu og vildi endilega hitta mig og stakk upp á að við færum saman í hádegismat. Ég varð auðvitað afskaplega glöð við og þar sem við vorum báðar lausar þennan dag ákváðum við að hittast strax þá.
Þegar ég kom inn á veitingastaðinn voru þar fyrir öll þrjú börnin hans Gunnars. Þau tóku mér fagnandi og sögðust glöð að ég vildi loksins hitta þau. Mér brá rosalega og sagði þeim eyðilögð að ég hefði alltaf haft mikinn áhuga á að kynnast þeim. Þau urðu undrandi og sögðu mér að pabbi þeirra hefði sagt þeim að ég væri feimin og kvíðin að hitta þau. Í hvert sinn sem þau létu í ljós löngun til að hitta mig hafði hann sagt að það yrði að bíða. Ég teldi enn ekki tímabært að allir kæmu saman og ég væri hrædd við að þau höfnuðu mér.
Móðguð yfir framkomunni
Þau höfðu verið óskaplega sár og svolítið móðguð yfir að ég léti mig alltaf hverfa inn í herbergi þegar þau kæmu eða laumaðist út bakdyramegin. Þau voru farin að velta fyrir sér hvort ég væri eitthvað skrýtin eða að mér væri ekki alvara með sambandi mínu við pabba þeirra. Þeim datt í hug að ég væri að reyna að fá sem mest út úr honum peningalega og ætlaði síðan að láta mig hverfa. Það fannst þeim líklegasta skýringin fyrst ég gæti ekki horfst í augu við þau eða tekið þátt í lífi pabba þeirra að fullu.
Ég varð að vonum slegin og eyðilögð. Sagði þeim að þetta væri alls ekki raunin. Gunnar hefði sagt mér að þeim þætti erfitt að horfa upp á mig inni á heimilinu sem mamma þeirra hefði skapað og hann hefði beðið mig að láta lítið fyrir mér fara og ekki dreifa mínum munum um húsið. Þau urðu mjög hissa og ég sá að þau voru í vafa um hvort þau ættu að trúa mér. Þessi fundur endaði með því að ég brotnaði niður og fór að gráta. Við kvöddumst þó án nokkurs kala og þau báðu mig að tala við pabba sinn og athuga hvort ekki væri hægt að skipuleggja matarboð eða einhverja samkomu svo hægt væri að byrja samskiptin á nýjum og betri nótum.
Ég hringdi í Gunnar um leið og ég kom út í bíl og sagði honum hvað hefði gerst. Ég bað hann að hitta mig heima hjá sér og tala út um þetta mál svo hringdi ég í vinnuna og lét vita að ég kæmi ekki eftir hádegið. Þegar heim til Gunnars kom mætti mér ekki iðrandi syndari sem sá eftir að hafa blekkt bæði mig og börnin sín. Þar sat kaldur og vondur maður sem jós úr skálum reiði sinnar yfir mig. Hann spurði meðal annars öskuillur hvernig ég dirfðist að tala við börnin sín án hans leyfis. Þá var mér nóg boðið. Ég stóð upp og tók saman það litla sem ég átti heima hjá honum, gekk út og lokaði á eftir mér. Gunnar hringdi í mig tvisvar eftir þetta en ég svaraði ekki.
Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna hann hegðaði sér eins og hann gerði. Hugsanlega fannst honum of mikil binding að opna alla leið inn í líf sitt eða kannski vildi hann bara hafa mig á einum stað í lífi sínu og börnin á öðru. Hvað sem það var þá var ég lengi brotin og særð eftir þessa reynslu. Mér fannst eins og ég hefði verið vegin og léttvæg fundin af þessum elskhuga mínum. Að minnsta kosti var ég ekki nægilega merkileg til að börnin hans mættu kynnast mér.