Frábær fjölskyldumynd.
Íslenska fjölskyldumyndin Lói þú flýgur aldrei einn var forsýnd síðasta fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn í Smárabíói en framleiðendur myndarinnar buðu áhorfendur velkomna í bíó með poppkorni og köldum svaladrykk sem var vel við hæfi enda höfðar myndin til yngstu áhorfendanna.
Myndin segir frá litlum lóu-unga sem verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að komast af veturlangt á Íslandi við harðan kost.
Á vegi hans verða ýmsir fjörlegir fuglar og önnur dýr sem öll hafa þjóðernislega skírskotun enda ber sviðsmyndin þess glögglegt merki að myndin sé ætluð á alþjóðlegan markað þar sem sér-íslensk náttúrueinkenni fá notið sín með túnfífla og aðalbláber í forgrunni.
Engu er til sparað við gerð myndarinnar en sjö ár eru nú síðan handritshöfundurinn, Friðrik Erlingsson kom að máli við þá Gunnar Karlsson og Hilmar Sigurðsson sem framleiddu myndina á fimm árum undir leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar. Alls komu 400 listamenn að gerð myndarinnar sem teiknuð er í þrívídd en unnin að hluta til í Belgíu. Myndin er önnur íslenska teiknimyndin í fullri lengd og hentar börnum á öllum aldri. Handritið er fantaflott og munu margar setningar myndarinnar lifa lengi í hjörtum áhorfenda.
„Það var ekki það sem ég sagði, heldur það sem hann heyrði mig segja.”
Tónlist leikur jafnframt veigamikið hlutverk í myndinni en Sinfoníuhljómsveit Norðurlands spilar undir í áhrifaríkum atriðum ásamt þeim Högna Egilssyni og Gretu Salóme sem syngur lokalag myndarinnar.
Talsetningin er líka fyrsta flokks og ber þar helst að nefna hinn unga Mattíhas Mattíhasarson sem ljær útilegufuglinum Lóa rödd sína, en mítan um munaðarleysingjann er sannarlega lífseig meðal barnasagna.
Eina aðfinnslan við myndina var hve lítið fuglsungarnir höfðu stækkað á heilu ári og hvernig hvíti felulitur rjúpunnar hélst óbreyttur yfir sumartímann. Að öðri leiti er Lói litli frábær afþreying og á vonandi eftir að skína skært sem fögur landkynning víða um heim.
Texti / Íris Hauksdóttir