Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Augabrúnatattú njóta sífellt meiri vinsælda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun.

Það er ekki ofsögum sagt að augabrúnirnar eru besti „fylgihlutur“ hverrar konu, enda ramma þær inn andlitið. Síðustu misserin hefur tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun notið mikilla vinsælda enda útlitið náttúrulegra en það sem áður þekktist.

Margar þekktar konur eru aðdáendur microblading-aðferðarinnar en meðal þeirra er leikkonan Lena Dunham sem segir að aðferðin hafi bjargað augabrúnum hennar eftir margra ára ofplokkun.

Microblading-aðferðin hefur notið mikilla vinsælda um heim allan en hér á landi eru nokkrar snyrtistofur sem sérhæfa sig í þessari nýlegu tækni. Aðferðin felur í sér að búa til örmjó „hár“ með stykki sem hefur örfínan hnífsodd sem sker í ysta lag húðarinnar sem síðan er fyllt upp í með lit. Með þessum hætti er auðvelt að búa til aukahár, þykkja brúnir og breyta lagi þeirra eða jafnvel hanna þær frá grunni ef engin hár eru fyrir.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú hefur áhuga á því að fá þér microblading-augabrúnatattú:

Leggstu í rannsóknarvinnu
Vertu viss um að vera búin að kynna þér þann sérfræðing sem þú velur til þess að gera tattúið vel áður en hafist er handa. Fáðu að sjá fyrir og eftir-myndir eftir viðkomandi til að vera viss um að vinna hans/hennar sé þér að skapi og menntun og reynsla standist kröfur þínar. Sérfræðingurinn ætti einnig að geta svarað öllum spurningum sem vakna hjá kúnnanum og aðgerðin framkvæmd í sterílu og fagmannlegu umhverfi.

Undirbúðu þig
Áður en þú færð þér microblading-tattú skaltu forðast það að vaxa eða plokka augabrúnirnar. Einnig er gott að sleppa því að nota kornamaska sem inniheldur allskyns sýrur sem eiga það til að skapa roða í húðinni og varastu að nota blóðþynnandi lyf. Þær sem eru óléttar, með barn á brjósti eða sykursjúkar ættu að forðast microblading.

Fyrir og eftir myndir.

Tjáðu þig
Sérfræðingurinn sem þú leitar til mun mæla andlit þitt og augabrúnir og vinna út frá andlitsfalli þínu og mælingum til að fá sem náttúrulegasta yfirbragðið. En vertu dugleg við að tjá óskir þínar við sérfræðinginn og áður en hafist er handa er mikilvægt að þú sjáir teikningarnar á andlitinu, ef vera skyldi að þú vildir gera einhverjar breytingar.

- Auglýsing -

Passaðu upp á þær
Þegar þú ert búin að fá fullkomnar augabrúnir er eðlilegt að þú viljir sýna þær. Passaðu samt upp á að nota ekki krem og aðrar húðvörur nálægt svæðinu í að minnsta kostu tíu daga eftir aðgerðina og ekki snerta svæðið. Vertu dugleg að bera græðandi krem á svæðið með eyrnapinna.
Þar sem hrúður myndast á meðferðarsvæðinu mun liturinn vera dekkri og skarpari fyrstu vikuna. Eftir 6-10 daga dofnar liturinn um u.þ.b. helming. Eftir 4-6 vikur ættirðu að fara aftur og láta laga það sem hefur dofnað og láta vita ef þú vilt láta lagfæra eitthvað varðandi útlit brúnanna.

Passaðu upp á að fara ekki í sólbað, synda eða svitna mikið fyrstu tíu dagana eftir microblading. Þegar svæðið hefur náð að gróa er gott að nota sólarvörn á brúnirnar til að koma í veg fyrir að þær dofni.

Misjafnt er eftir húðtýpu og lit á brúnum hversu lengi microblading-aðferðin endist á húðinni en eftir hálft ár getur útlit háranna farið að dofna. Mælt er með endurkomu á 8 mánaða til tveggja ára fresti.

- Auglýsing -

Texti / Helga Kristjáns

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -