Flest höfum við heyrt um svart og grænt te – en hvað er hvítt te?
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á hollustu tes og það kemur því ekki á óvart að te er vinsælasti drykkur heims á eftir vatni.
Allar tegundir tes koma af sömu plöntu, Camellia Sinensis, eða afbrigðis hennar sem kallast Camellia Assamica, en það er aðeins meðferð og vinnsla eftir tínslu ákvarðar hvort teið verður svart, hvítt eða grænt. Ávaxtate, jurtate og rauðrunnate eru í raun ekki te heldur seyði úr ávöxtum, blómum, jurtum eða nálum rauðrunnans og innihalda ekki koffín.
Hvítt te er sérstakt vegna þess að einungis eru notuð ung laufblöð. Þá eru klipptir af runnanum laufsprotar sem eru við það að opnast og tvö til þrjú ung laufblöð. Í vönduðustu hvítu tei eru einungis notaðir laufsprotar. Af þessari ástæðu er uppskerutíminn stuttur, stundum ekki nema tveir til þrír dagar nokkrum sinnum á ári. Stuttur uppskerutími og vandasöm tínsla gerir það að verkum að hvítt te er sjaldgæfara og dýrara en annað te og það er aðeins ræktað í mjög takmörkuðu magni í Kína og á Sri Lanka.
… hvítt te er mikið um sig, létt og oft má sjá stilka og heil blöð í teinu. Einföld framleiðsla þýðir líka að næringarefni laufanna varðveitast vel og teið er því sérstaklega gott fyrir heilsuna.
Þegar tínslan hefur farið fram er framleiðslan einföld. Teið er látið þorna í nokkra daga í sólinni eða í sérstökum þurrkhúsum. Þessi einfalda framleiðsluaðferð gerir það að verkum að hvítt te er mikið um sig, létt og oft má sjá stilka og heil blöð í teinu. Einföld framleiðsla þýðir líka að næringarefni laufanna varðveitast vel og teið er því sérstaklega gott fyrir heilsuna.
Drukkið í mörg þúsund ár
Te á sér mjög langa sögu og hefur verið til sem drykkur í tæplega 5000 ár. Ein vinsæl þjóðsaga um uppruna tesins fjallar um keisara í Kína sem kallaði sig Wan Tu. Þekkt bók skáldsins Lu Yus, Tai Ching, fjallar um Wan Tu og þau áhrif sem te hafði á líf hans. Wan Tu var illur og grimmur harðstjóri sem var steypt af stóli af einum ráðamanna sinna og hrakinn á brott til afskekkts staðar í Kína.
Dag einn sat hann í skugganum af stórum runna og hugleiddi hvernig hann gæti náð fram hefndum. Vegna fátæktar sinnar þurfti hann að sætta sig við að drekka einungis vatn. Þar sem Wan Tu sat í þungum þönkum að sjóða vatn, féll lauf af runnanum ofan við höfuð hans, ofan í pottinn. Wan Tu komst að því að útkoman var bragðgóður drykkur sem hafði róandi áhrif. Teið hreinsaði hugann á svo áhrifaríkan hátt að hann sat undir runnanum næstu sjö árin, drakk te, iðraðist gjörða sinna sem harðstjóri og hugsaði um hvernig hann gæti bætt þær upp.
Hann nefndi drykkinn Thai, sem merkir friður. Wan Tu sneri aftur til heimaborgar sinnar í dulargervi og varð vel metinn ráðgjafi fyrrum ráðamanns síns, sem hafði steypt honum af stóli. Hann varð svo vitur og ástsæll meðal fólksins, að þegar ráðamaðurinn lést, var Wan Tu kosinn arftaki hans og stjórnaði í mörg ár. Á þeim tíma kynnti hann einnig þjóð sína fyrir tei. Ekki fyrr en á dánarbeði, leysti Wan Tu frá skjóðunni.
Heilsuávinningur hvíts tes:
Inniheldur kraftmikil andoxunarefni sem vernda líkamann fyrir sindurefnum og stuðla að frumuendurnýjun.
- Hægir á öldrun húðarinnar.
- Hreinsar húðina og kemur í veg fyrir að bakteríur stífli svitaholur.
- Heldur húðinni bjartri og viðheldur raka.
- Styrkir bein og tennur.
- Er örverueyðandi og verndar því líkamann gegn sýkingum.
- Inniheldur efni sem talin eru hraða brennslu líkamans.
- Jafnar blóðsykur og heldur honum stöðugum.
- Minnkar streituáhrif í líkamanum og hefur góð áhrif á hjartað.
Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Heimild / teogkaffi.is