Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Bakaði þúsund bollakökur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Thelma Þorbergsdóttir starfar sem félagsráðgjafi en matur spilar samt stórt hlutverk í lífi hennar þar sem hún heldur úti matarbloggi og bloggar auk þess reglulega á vefsvæðinu gottimatinn.is sem er starfrækt af Mjólkursamsölunni.

Thelma Þorbergsdóttir félagsráðgjafi heldur úti vinsælu matarbloggi.

Að þessu sinni deildi hún með okkur nokkrum gómsætum en þægilegum uppskrifum að eftirréttum.

 Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir?
Ég er félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. Helstu verkefnin sem ég fæst við um þessar mundir er að undirbúa mig undir komu nýs barns sem á að fæðast í byrjun maí.

Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda?
Sósur, ég er algjör sósukona og konurnar í minni fjölskyldu gera bestu sósur í heimi.

Ertu jafnvíg á bakstur og matseld?
Já, mér finnst jafnskemmtilegt að baka og elda.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?
Ég er rosalega hrifin af asískum mat og get borðað hrísgrjón í öll mál! Svo elska ég íslenskan mat, eins og lambakjötið okkar góða og allt sem hægt er að gera úr því.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ég held að ég verði að segja að það hafi verið þegar ég bakaði svo svakalega háa brúðartertu fyrir sjálfa mig sem stóð svo í heitu eldhúsinu í salnum yfir nóttina. Hún hrundi og lá klesst við vegginn í eldhúsinu daginn eftir. Fyrir mér var þessi fullkomni dagur ónýtur en hann endaði svo á að vera besti dagur lífs míns og ég gat hlegið að þessu seinna. Fólk fékk þó köku en hún var ekki falleg og í nokkrum pörtum en góð var hún sögðu gestirnir, þeir hafa ekki þorað öðru!

Þegar ég var að byrja að baka og vinna sem matarbloggari hjá Gott í matinn fékk ég það verkefni fyrir Metro að gera 1000 bollakökur fyrir hrekkjavöku. Það var svona fyrsta og stærsta áskorun mín þegar ég byrjaði í þessu öllu saman.

- Auglýsing -

Hefur þú ræktað krydd- og/eða matjurtir?
Nei, ég er ekki alveg þar en mér var gefin chili-planta sem ég náði að drepa.

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?
Þegar ég var að byrja að baka og vinna sem matarbloggari hjá Gott í matinn fékk ég það verkefni fyrir Metro að gera 1000 bollakökur fyrir hrekkjavöku. Það var svona fyrsta og stærsta áskorun mín þegar ég byrjaði í þessu öllu saman.

Hvað færðu þér á pizzu? Pepperóní, rjómaost og rauðlauk.

- Auglýsing -

Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Mér finnst mjög gaman að horfa á Lorraine Pascale, það er allt svo fallegt hjá henni eitthvað.

Bloggsíða: freistingarthelmu.blogspot.com og heimasíða Gott í matinn, er matarbloggari þar.

______________________________________________________________

Marens-mess í skál

Marens-mess í skál slær alltaf í gegn.

Kostirnir við þennan rétt eru þeir að hann slær alltaf í gegn, þú getur sloppið algjörlega við bakstur og það skiptir ekki máli hvernig þú setur hann saman, hann er alltaf jafngóður.

1 marengsbotn

1 lítri rjómi

300 g jarðarber

300 g bláber

Æðibitakassi

Nóa kropp

súkkulaðisíróp

Þeytið rjómann þar til hann verður stífur og stendur, passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið. Fyrir þennan rétt skiptir í rauninni ekki máli í hvaða röð þið setjið hráefnið saman við rjómann og marensinn en gaman er að raða þeim í fallega skál og skreyta að vild. Gott er að setja rjóma í botninn á skál og setja svo marens ofan á. Brytjið jarðarberin niður í sneiðar eða litla bita og blandið saman við ásamt bláberjum. Skerið Æðibita gróflega niður og blandið þeim saman við. Gott er að setja marensinn í byrjun og svo í lokin. Skreytið með rjóma og súkkulaðisírópi ásamt Nóa kroppi. Geymið í kæli, einnig er gott að setja marensinn í frysti í 30 mínútur áður en rétturinn er borinn fram.

______________________________________________________________

Brownie með saltaðri karamellu

Uppskriftin er frekar stór og auðvelt er að helminga hana. Hún er þó ekki lengi á veisluborðinu því hún klárast yfirleitt.

Botn

200 g saltkringlur eða saltstangir

150 g smjör

2 msk. dökkur púðursykur

Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír í bökunarform sem er um 20×30 cm að stærð. Mjög mikilvægt er að hafa smjörpappír í botninum og aðeins upp fyrir brúnirnar svo hægt sé að ná kökunni upp úr forminu sem best.

Setjið saltkringlurnar í matvinnsluvél og grófhakkið þær. Bræðið smjör og hellið saman við ásamt púðursykrinum og látið matvinnsluvélina vinna vel þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið saltkringlublönduna ofan í formið og þrýstið vel niður í botninn. Bakið botninn í 7 mín., takið formið út og kælið á meðan þið undirbúið kökuna.

Brownie

320 g smjör

600 g sykur

Brownie með karamellu – ekki reikna með að hún  verði lengi á veisluborðinu.

170 g kakó

½ tsk. salt

4 egg

2 tsk. vanilludropar

120 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

Lækkið hitann á ofninum niður í 180°C fyrir kökuna. Setjið smjör í pott og bræðið yfir lágum hita. Þegar helmingurinn af smjörinu er bráðnaður bætið þá kakói, sykri og salti saman við. Hrærið allt vel saman og passið ykkur að láta blönduna alls ekki sjóða. Blandan má einnig ekki vera of heit þegar eggin eru sett saman við. Bætið eggjum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli. Setjið vanilludropa saman við og hrærið. Setjið því næst hveiti saman við og hrærið vel saman þar til blandan verður mjúk og slétt.

Hellið blöndunni yfir saltkringlubotninn og bakið í 30 mín. eða þar til tannstöngull kemur næstum því hreinn upp úr miðju kökunnar. Það er allt í góðu og bara betra ef kakan er aðeins blaut þegar hún er tekin út úr ofninum. Takið kökuna út og kælið á meðan þið undirbúið karamelluna.

Söltuð karamella

400 g sykur

170 g smjör

240 ml rjómi

1 tsk. vanilludropar

½-1 tsk. salt (sjávarsalt)

Setjið sykur í pott yfir meðalháum hita og hrærið stanslaust með viðarsleif. Sykurinn fer í harða köggla en það lagast þegar hann hitnar frekar og verður að vökva. Hrærið stanslaust og passið að sykurinn brenni ekki við. Þegar sykurinn hefur bráðnað alveg og er orðinn gullinbrúnn að lit, bætið þá smjöri saman við og hrærið vel. Blandið því næst rjómanum varlega saman við í smáum skömmtum og hrærið vel. Takið pottinn af hellunni og blandið vanilludropum og salti saman við. Leyfið karamellunni að kólna þar til hún hefur náð stofuhita áður en þið setjið hana yfir kökuna. Hellið karamellunni yfir kökuna, myljið sjávarsalt yfir karamelluna og setjið inn í ísskáp. Kælið kökuna í rúmlega 2 klst. áður en þið berið hana fram. Gott er að nota beittan hníf til þess að skera meðfram köntum formsins svo auðveldara verði að ná henni upp úr forminu, skerið í litla bita.

______________________________________________________________

Skyr með lakkrísbragði og piparmöndlum

Einstaklega ferskur og góður skyreftirréttur sem tekur engan stund að gera.

Einstaklega ferskur og góður skyreftirréttur sem tekur engan stund að gera.

fyrir 4-6

400 g KEA-skyr með lakkrísbragði

½ lítri rjómi

2 msk. flórsykur

súkkulaðisíróp

piparmöndlur

Þeytið rjóma þar til hann er orðinn stífur og stendur. Blandið helmingnum af rjómanum saman við skyrið og hrærið vel saman.

Sprautið súkkulaðisírópi meðfram köntunum á desertglasi eða -skál og látið leka niður. Sprautið skyrblönduni ofan í glösin.

Sprautið því næst rjómanum ofan á ásamt grófsöxuðum piparmöndlum. Geymið í kæli þar til borið er fram.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -