Ingibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs og ævintýraþrár.
Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að gestir landsins skoði.
Pelican Bar
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach, eða ferð í skipulagða útsýnisferð.
Á barnum er hvorki salernisaðstaða né rafmagn. Kælirinn fyrir bjór er gömul frystikista sem er full af klaka. Þarna er góð stemning, hægt að synda í sjónum í kring og oft sitja pelikanar á bátunum sem bíða eftir fólkinu.
Fljóta á fleka niður Martha Brae-ána
Martha Brae-áin er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Montego Bay. Ferðin niður ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka. Á leiðinni er fylgst með lífinu meðfram ánni og hægt að stoppa á leiðinni til að kaupa minjagripi eða Red Stripe-bjór. Best að fara á degi þegar engin skemmtiferðaskip eru í höfn því þá er maður nánast einn á ánni. Dásamlega slakandi.
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach …
Scotchies
Scotchies er veitingastaður í útjaðri Montego Bay. Þar er boðið upp á grillaðan kjúkling og svínakjöt, marinerað með svokallaðri Jerk Seasoning, innlendri kryddblöndu með sterkum chili-pipar sem heitir Scotch Bonnet. Þetta getur verið mjög sterkt. Meðlætið eru grillaðir grænir bananar, sætar kartöflur og hrísgrjón með nýrnabaunum, eða Rice & Peas eins og innfæddir kalla það. Grillið er frumstætt og yfir það breitt með bárujárni þannig að kjötið er hálfreykt um leið og það er grillað. Best að fá sér ískalda Red Stripe-heimabjórinn með. Máltíðin kostar innan við 2.000 kr. fyrir tvo.
YS-fossarnir
Þessir fossar í ánni YS í suðurhluta Jamaíku eru sjö talsins. Það er hægt að labba upp hluta fossanna með leiðsögumanni og eins er hægt að synda í hyljum fyrir neðan flesta þeirra. Mér finnst þessir fossar mun fallegri en Dunn’s-fossarnir sem eru frægastir og flestir sjá þegar þeir koma til Jamaíku. Það er ekki eins mikil mannmergð við YS og þar með betri upplifun.
Negril-ströndin
Negril er lengsta ströndin á Jamaíku, kölluð 7 Mile Beach, nærri 12 kílómetra löng. Gaman er að labba hana og sjá bæði innfædda og ferðamenn njóta sín. Sölumennirnir láta sér segjast ef maður er bara ákveðinn og kurteis.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir