Sunnudagur 19. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Barnið hrekur Grinchið úr hjartanu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þótt Inga Auðbjörg Straumland, athafnastjóri hjá Siðmennt, segist fyrst og fremst vera að fagna sólstöðum og því að eiga góða að um jólin, þá heldur hún jól á hefðbundinn íslenskan hátt með tilheyrandi stressi og mistökum. Hún segir að það sé nefnilega þannig að fegurðin við jólahaldið liggi ekki síst í mistökunum.

„Ég held upp á jólin eins og flestir aðrir Íslendingar,“ segir Inga. „Með blóðhlaupin augu eftir að hafa varið of mörgum stundum í verslunarmiðstöðvarþvögunni með Mariuh Carey beltandi jólasöngva í hátalarakerfum frá síðustu öld. En svona í fullri alvöru, þá held ég að jólin hjá mér séu nú nokkuð hefðbundin. Hamborgarhryggurinn er á sínum stað og allt dósameðlætið líka, þó ég snerti það yfirleitt ekki. Ég reyni þess í stað að kokka upp eitthvað fjölbreyttara meðlæti en á svolítið erfitt með að para það við þessa skandinavísku reyktu skinkuhefð, sem er ansi fjarri mínum matarsmekk hina 364 daga ársins. Svo bara ver ég aðfangadagskvöldi með fjölskyldunni öðru hvoru megin, opna pakka og borða desert. Þrátt fyrir að ég sé nú fyrst og fremst að fagna sólstöðum og því að eiga góða að, þá er nú yfirleitt stillt á útvarpið svo klukkurnar hringi klukkan sex, þegar sósan er að sjóða yfir og karlinn er ennþá í sturtu. Svo stilli ég hins vegar yfir á X-ið, þar sem við í Siðmennt erum með litla jólahugvekju fyrir þau sem vilja annan valkost en hinn kristilega.“

Verður jólahaldið með öðru sniði í ár en vanalega?

„COVID hefur náttúrulega áhrif á hátíðarhald alls heimsins í ár og auðvitað okkur líka,“ segir Inga. „Ég er til dæmis ekki byrjuð að kaupa jólagjafir af því að ég nenni ómögulega inn í Kringlu með grímu og þar af leiðandi móðu á gleraugum eða þau rennandi út og suður á sleipu pólíesterinu. En á hinn bóginn er ég nú líka bara örlítið fegin að stóru fjölskylduboðin falli niður í ár og held það verði ágætt að slappa bara af. Annars held ég að stærstu umskipti þessara jóla hjá mér séu eiginlega mín eigin endurheimt á innra jólabarni. Fyrir áratug húkti ég alein í þrjá mánuði í köldu sölurými þeirra sálarlausu gerviblóma sem sumir vilja kalla sígræn jólatré og ég bara tapaði algjörlega jólaandanum. Þrátt fyrir að hafa aldrei tekið slíka sölumennsku að mér aftur hefur mér reynst erfitt að vinna upp gleðina. En nú er einkasonurinn tveggja og hálfs og er að upplifa jólin fyrir alvöru í fyrsta skipti. Ég finn hvernig það er að hrekja Grinchið úr hjartanu á mér, eina skógjöf í einu og ég held að það séu hreinlega ágætislíkur á því að ég verði komin í ágætis jólaskap á aðfangadagskvöld. Hvernig er hægt að vera í nöp við jólin þegar barnið sofnar í jólasokkum, með skógjöfina sína faðmaða að sér þéttingsfast, eins og jólasveinninn hafi fært því ekkert minna en mótefni handa allri heimsbyggðinni?“

Hvaða jól eru þér eftirminnilegust?

„Það er mikil pressa í samfélaginu um að allt eigi að vera tilbúið, makinn búinn að fá bjórdagatal síðustu 24 daga, allar gjafir löngu komnar á pósthúsið til skyldmenna úti á landi, sniðug kveðja komin á samfélagsmiðla og sou vide-potturinn búinn að vera að malla matinn í milljón ár,“ segir Inga og glottir. „En samt er það einhvernveginn svoleiðis að eftirminnilegustu jólin eru alltaf þau þegar það gekk engan veginn upp, sem það gerir reyndar sjaldnast á mínu heimili. Árið sem pabbi var á hnjánum á baðherbergisgólfinu að fúga flísar þegar kirkjuklukkurnar gjölluðu. Árið þar sem ósætti var á heimilinu og enginn keypti almennilega í matinn, þannig að til voru tveir hamborgarhryggir en ekkert meðlæti. Árið sem ég svaf yfir mig, bæði á aðfangadagskvöld og á miðnætti á gamlárskvöldi af því að leikfélagið í MH, sem ég var í forsvari fyrir, var að sýna jólaleikrit það árið og allur desember var tekinn undir stífar æfingar. Þannig að ætli að fegurðin sé ekki í mistökunum?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -