Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Best að finna jafnvægið í öllu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hafrún Lilja Elíasdóttir er sannkallaður baksturssnillingur sem hefur þann hæfileika að baka ekki aðeins gómsætar kökur, heldur líka dásamlega fallegar kökur. Fjölskyldumeðlimir og vinir Hafrúnar njóta oft góðs af hæfileikum hennar en þegar kemur að hinum ýmsu tilefnum er hún ávallt boðin og búin að leggja sitt á vogarskálarnar.

Hafrún Lilja er að eigin sögn ekki ein af þeim sem kemst í jólaskap um leið og IKEA-geitin rís upp.

„Ég dett yfirleitt ekki í jólagírinn fyrr en í kringum 20. desember. Aðdragandinn finnst mér ekkert sérstakur, öll jólalögin, skrautið og stressið er ekki beint minn tebolli. En ég er mikið fyrir hefðirnar og samveruna með fólkinu mínu í kringum hátíðirnar, en við fjölskyldan höldum í nokkrar hefðir sem mér þykja ómissandi. Fyrst og fremst ber að nefna uppsetningu jólaþorpsins hjá foreldrum mínum, það er alveg heilög stund. Foreldrar mínir eru svo alltaf með hádegisboð á aðfangadag fyrir okkur systurnar, maka og börn. Það er ein af mínum uppáhaldshefðum og hringir pínulítið inn jólin.“

Ég er sem sagt mikil sósukona.

Þegar kemur að ómissandi hefðum tengdum mat nefnir Hafrún fyrst ristað brauð með graflax og heimatilbúna sósu með. „Svo býr pabbi til heimsins bestu sósu með jólamatnum sem ég kýs að kalla „pabbasósu“ en ég fæ mér yfirleitt smávegis kjöt með sósunni. Ég er sem sagt mikil sósukona. Svo má ekki gleyma því að njóta líka yfir hátíðirnar og safna orku. Ég geri það bæði með því að liggja í uppi í sófa, undir teppi  með söruskálina og með því að fara aðeins út í ferska loftið og kyrrðina og hreyfa mig. Mér finnst best að finna jafnvægið í öllu.“

Hafrún hefur mikinn áhuga á matargerð og bakstri og er dugleg að prófa sig áfram með nýjar uppskriftir. „Ég þarf oft að vera svolítið flókin þegar kemur að eldamennsku, vil oft vera með margar tegundir af meðlæti og svona, en Hjalti, kærasti minn, kýs að hafa hlutina örlítið einfaldari sem er bara frábært. Þar komum við aftur að jafnvæginu góða,“ segir hún. „Fyrir jólin baka ég yfirleitt sörur, mömmukossa og serenakökur. Svo bý ég líka til sultu og jólaís. En endalegur listi fer í raun allt eftir því hvað ég gef mér tíma í og hvað mig langar að gera hverju sinni.“

Sultan sem er góð með öllu

„Fyrst ætla ég að gefa uppskrift að sultu sem hefur verið lengi í uppáhaldi hjá mér með jólamatnum. Æskuvinkona móður minnar, sem kvaddi þessa veröld allt of snemma, gerði alltaf þessa sultu fyrir jólin. Hún keyrði hana alltaf út á aðfangadag til okkar og annarra. Þó að uppskriftin sé einföld er það minningin um þessa yndislegu manneskju sem ég kýs að halda á lofti á þennan hátt og gefur mér og fjölskyldu minni mikið. Ég hef undanfarin tvenn jól gert þessa sultu og laumað með til ættingja og vina og hyggst gera það áfram.

- Auglýsing -

En það er svo frábært að hún er góð með öllu. Ég borða hana alltaf með hamborgarhryggnum á jólunum. En sultan er líka frábær með ostum, í jólagrautinn, ofan á brauð eða hvað sem er. Ég hvet ykkur til að prófa.“

Jarðaberjasulta með kanil

500 g jarðarber
250 g sykur
1-2 kanilstangir (ég set yfirleitt 2-3 stangir því ég vil meira kanilbragð)
½ poki sultuhleypir
20-30 ml vatn

- Auglýsing -

Allt er sett saman í pott og látið malla á meðalháum hita í svona 30-40 mín. Ég kýs að hafa jarðarberin vel maukuð og því læt ég sultuna malla jafnvel lengur og stappa þau niður með sleifinni á meðan ég hræri. En ef jarðarberin eiga að halda lögun sinni skal láta sultuna malla á lægri hita.

47. tbl. 2018, Hafrún Lilja, kaka, kökublaðið, kökur, Margrét Björk, VI1810191960, vikan

Riz à l‘amande

125 g grautargrjón
50 g sykur
1 vanillustöng
1,2 l nýmjólk
500 ml þeyttur rjómi
200 g möndlur, saxaðar gróft

Setjið hrísgrjón, sykur og nýmjólk í pott. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið innihaldið ofan í pottinn. Látið stöngina fylgja með. Sjóðið rólega saman í 40 mín. Hrærið reglulega og gætið þess að grauturinn brenni ekki við. Slökkvið undir og setjið lok yfir. Látið standa og kólna. Kælið grautinn yfir nótt.

Þeytið rjómann og hakkið möndlurnar. Blandið varlega saman við grautinn. Gott er að gera það í þremur skömmtum. Geymið heila möndlu fyrir möndlugjöf. Berið fram með kirsuberjasósu (karamellusósu og/eða jarðarberja-kanilsultunni).

Skotheldur jólaís

Gott er að gera ísinn nokkrum dögum fyrir jólin.

„Hér er uppskrift að jólaísnum sem ég hef alltaf gert undanfarin ár. Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að skella í. Gott er að gera hana nokkrum dögum fyrir jólin og hafa eftirréttinn tilbúinn. Hægt er að leika sér með blönduna með því að setja mismunandi bragðdropa og kurl í hana. Á myndinni má sjá ísinn í litlum tupperware-ísformum sem eru húðuð með hjúpsúkkulaði og skreytt með ferskum berjum.

En það sem mér þykir svo gott við ísinn er að það er hægt að leika sér með allskyns útfærslur. Setja í mismunandi form og skreyta eftir tilefnum. Hlutföllin af blöndunni henta vel í eitt stórt íshringform og svo þrjú lítil form eins og sést á myndinni. En þessi stærð er að mínu mati fullkominn skammtur í eftirrétt á aðfangadagskvöld og svo á ég hringinn alltaf til við annað tilefni yfir hátíðirnar.“

5 eggjarauður
5 msk. sykur
1 vanillustöng
½ l þeyttur rjómi
½ tsk. vanilludropar
½ poki af Nóa-karamellukurli

Setjið eggjarauðurnar í hrærivélarskál og þeytið í 1 mínútu. Hellið sykrinum smátt og smátt saman við eggin og hrærið þar til sykurinn og rauðurnar verða léttar og ljósar eða í u.þ.b 5 mínútur. Skerið vanillustöngina til helminga eftir endilöngu og skafið kornin innan úr henni með hníf.

Setjið vanillukornin út í eggjarauðurnar og látið vélina ganga í 10 sek. Blandið 1/3 af þeytta rjómanum saman við eggjablönduna með píski. Blandið afganginum af rjómanum smátt og smátt saman við blönduna með stórri skeið eða sleif. Smakkið til með vanilludropum og setjið kurlið varlega í blönduna og hrærið til. Setjið ísblönduna í ísform og frystið.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -