Jónína Leósdóttir rithöfundur vonast til að sjá fleira fólk og aðra staði á nýju ári.
Hvernig leggst 2021 í þig?
„Ég er örlítið tortryggin gagnvart næsta ári. Þetta er svipað og að treysta ís á vatni eftir að hafa fallið ofan í vök. Árið 2020 byrjaði svo vel – þetta fallega ártal, daginn var tekið að lengja og ég var með ýmislegt spennandi á prjónunum – en síðan brotnaði ísinn og allt fór á bólakaf.
Núna langar mig að trúa því að bóluefnin reynist vel og að allir fái bólusetningu sem fyrst … og þá á ég að sjálfsögðu ekki bara við Íslendinga heldur á heimsvísu. En ég er dauðhrædd um að veirukvikindið stökkbreytist eða eitthvað annað gerist sem klúðrar öllu. Ég stíg því varlega til jarðar og stilli vonum og væntingum í hóf.“
Áramótaheit fyrir 2021?
„Ég man ekki eftir að hafa strengt heit um áramót. Það hentar mér betur að taka bara einn dag í einu.“
Hvað hefur 2020 kennt þér?
„Þrátt fyrir allt, finnst mér árið 2020 hafa kennt heimsbyggðinni dýrmæta lexíu. Það sýndi okkur hvers fólk er megnugt ef það stendur saman, þvert á landamæri. Þá á ég við bóluefnið sem vísindamönnum tókst að þróa og byrja að framleiða á algjörum mettíma, af því að veröldin stóð frammi fyrir sameiginlegum óvini og allir lögðust á eitt.
Svona persónulega kenndi árið mér kannski ekki margt nýtt en það staðfesti ýmislegt sem ég þóttist vita fyrir – m.a. að lífið er leiðinlegra án þrívíddar-samskipta við fjölskyldu og vini og sársaukafyllra án vikulegra tíma hjá sjúkraþjálfara. Já, og svo rifjaðist upp fyrir mér hvað það getur verið gaman að leggja kapal.“
Hvernig ætlarðu að nýta þá reynslu á nýju ári?
„Mér finnst mikilvægast að mannkynið nýti reynsluna af baráttunni við faraldurinn og að þjóðir heims taki næst höndum saman við að leysa önnur brýn vandamál sem snerta alla jarðarbúa. Því miður er ég þó ekkert sérlega bjartsýn á að mér verði að þeirri ósk.“
Hvað ætlarðu að gera á nýju ári?
„Ég var að kaupa mér liti, teikniblokk og stórt strokleður – og ætla að athuga hvort ég kann enn þá að teikna. Svo mun ég halda áfram að skrifa eins lengi og ég hef heilsu til.“
Hvers hlakkar þú mest til?
„Mesta tilhlökkunarefnið er að lífið verði aftur bland í poka. Þar sem ég fór í sjálfskipaða verndarsóttkví 5. mars og slakaði allt of stutt á henni í sumar hefur lífið verið mjög einhæft megnið af árinu. Þótt ég eigi yndislega konu og hlýtt og gott heimili verður gaman að sjá fleira fólk og aðra staði.“