Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Bílferðir með börnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvort sem þú ætlar að keyra hringinn eða bara í bústað þá getur bílferð með litlum börnum reynst bæði erfið og yndisleg. Lykilatriði er að undirbúa sig og börnin vel.

Verið leiðsögumenn barnanna ykkar. Fyrir ferðina er gott að afla sér upplýsinga um merkilega eða sögulega staði á leiðinni svo þið getið sagt börnunum frá þeim. Setjið markið ekki of hátt hvað varðar dagleiðir og látið börnin ráða för, þau gætu þurft að teygja oftar úr sér en í upphafi var gert ráð fyrir. Nýtið stoppin í smáhreyfingu. Enginn hefur gott af því að sitja of lengi kyrr. Þegar þið farið út úr bílnum hlaupið aðeins um, farið í boltaleik, sippkeppni eða stoppið á leikvelli.

Gott nesti
Það getur verið fremur takmarkað úrval af hollustu í vegasjoppum landsins og því er sniðugt að útbúa nesti. Niðurskorið grænmeti og ávextir, rúsínur og hnetur, samlokur, vefjur og jógúrt eru mjög þægilegar nestislausnir.

Sniðugt er að taka með vatnsbrúsa sem þið getið fyllt í stoppum. Það er miklu betra en að reiða sig á safa eða gosdrykki. Reynið að komast hjá því að borða í bílnum, takið frekar stutt hlé á keyrslunni. Það er mun meiri hætta á því að það subbist niður og ekki er skemmtilegt þegar börn og sæti eru útötuð í banana, kexmylsnu eða súkkulaði. Fyrir utan hvað það er skemmtilegra að sitja við borð undir berum himni með fallegt íslenskt landslag í bakrunni.

Undirbúningur
• Mikilvægt er að leyfa börnunum að taka þátt í undirbúningnum. Látið þau til dæmis pakka niður í litla tösku fyrir sig og ekki skipta ykkur af því sem þau taka, jafnvel þótt þau taki einhverja skrýtna hluti með sér.
• Fyrir lengri bílferðir er gott að útbúa sérstaka hirslu fyrir barnadótið í bílnum eða vagninum, til dæmis er hægt að fá slíkar sem hengdar eru aftan á framsæti. Þannig er auðvelt að finna dótið og ganga frá því að bílferð lokinni.
• Merkið bangsa og tuskudýr vel með farsímanúmeri. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að keyra til baka og leita að týndum bangsa.
• Ræðið við börnin þannig að þau viti hvað sé vændum, að nú þurfi þau að sitja í bíl í lengri tíma, og spyrjið þau hvernig þau vilji helst hafa ofan af fyrir sér.

Styttum okkur stundir
• Til er fjöldinn allur af skemmtilegum leikjum sem koma sér vel í bílferðum: Hver er maðurinn? ekki þarf að taka neitt spil með heldur hugsar hver sér fræga manneskju og aðrir farþegar giska á hvern hann hugsar um.
Frúin í Hamborg, klassískur leikur sem allir kunna. Einn er spurður hvað hann gerði við peninginn sem frúin í Hamborg gaf honum en ekki má segja já, nei, svart og hvítt.
Telja bílategundir eða liti, þá velur ver og einn sér bílategund eða lit og telur alla bíla af þeirri tegund sem keyra fram hjá. Þið veljið tíma og þann sem finnur flesta bílana af sinni tegund vinnur.
Númeraplötuleikurinn, þá giska allir á fyrsta bókstafinn á númeraplötu á næsta bíl sem keyrir fram hjá. Sá sem giskar á rétt vinnur.
• Syngið með börnunum.
• Leikja- eða spjaldtölvur geta komið að mjög góðu gagni þegar þolinmæðin er á þrotum hjá öllum í bílnum en reynið að halda þeim til haga þangað til.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -