Birgitta Haukdal er óneitanlega í uppáhaldi hjá Íslendingum á öllum aldri, enda erfitt að falla ekki fyrir útgeislun hennar og einlægni. Birgitta sló eftirminnilega í gegn í kringum aldamótin og gerði allt vitlaust með hljómsveitinni Írafári. Eftir mikla keyrslu og tímabil sem hún lýsir sem rússíbanareið tóku þau þá ákvörðun um að hætta á toppnum. Síðustu ár hefur Birgitta einbeitt sér að öðru en á þessum tíma hefur hún stofnað fjölskyldu, búið erlendis og flutt til baka, skrifað barnabækur og unnið að fjölbreyttum verkefnum. Fyrr á árinu kom Írafár saman aftur og óhætt að fullyrða að um endurkomu aldarinnar hafi verið að ræða.
Stórtónleikar Írafárs fóru fram 2. júní síðastliðinn þar sem gestum varð ljóst að meðlimir sveitarinnar hefðu engu gleymt. Birgitta segir það ólýsanlega tilfinningu að standa frammi fyrir fullum Eldborgarsal og fá að flytja tónlistina sína, ekki síst þar sem ættingjar og vinir voru á staðnum. Meðal gesta var níu ára sonur Birgittu, Víkingur Brynjar. „Hann var algjörlega stjarfur að sögn pabba síns allan tímann en þetta var í fyrsta sinn sem hann sá mig á heilum tónleikum en ekki bara að flytja eitt og eitt lag. Eftir tónleikana spurði ég hvernig honum hefði fundist og hann var í skýjunum með þetta. Hann viðurkenndi þó að hafa verið mjög stressaður fyrir mína hönd og þegar ég spurði hann nánar út í það var svarið, „ég var svo hræddur um að þú myndir ruglast, mamma“,“ segir Birgitta og hlær.
Meðlimir Írafárs ákváðu að koma einnig fram á Þjóðhátíð og kveðja svo á Menningarnótt. „Við komum þar fram, til þess að segja svo að við værum farin aftur. Við vitum ekki hvort við erum að kveðja í ár eða í 10 ár. En okkur fannst þetta flott, koma fram með eitthvað geggjað og bakka svo út aftur þar til næst.“
Birgitta segist finna mikinn mun á því að koma fram núna og á þeim árum sem þau voru á toppnum. „Þá var þetta atvinna mín númer eitt, tvö og þrjú og alltaf svo ótrúlega mikið að gera. Þetta var algjör rússíbanareið, enda varð svo mikil sprenging í kringum okkur. Ég var út um allt, dag eftir dag, og náði í raun ekki að njóta. Hausinn var stilltur á vinnustillingu og þetta var bara keyrsla. Inn á milli þegar ég fékk frí var ég bara í bómull að reyna halda viti og passa upp á röddina. En í dag er ég að gera þetta frekar mér til skemmtunar en atvinnu. Það er svo mikill munur að geta staðið og andað augnablikinu að sér og notið þess. Það spilar að sjálfsögðu inn í að ég er orðin eldri og þroskaðri og farin að átta mig á þessum forréttindum.“
Rússíbanareið er orðið sem Birgitta notar yfir árin sem Írafár var upp á sitt besta og ekki af ástæðulausu. Hún tekur fram að árin 2002 og 2003 hafi verið sérstaklega þétt. „Þetta ár var ég bara í ruglinu. Ég var að spila út um allt með Írafári, var í öllum viðtölum, og í raun bara í alls staðar þar sem hægt var að vera. Ég lék í Grease á þessum tíma og fór oft beint eftir sýningar til að syngja á böllum. Á daginn var ég svo að æfa fyrir Eurovision og fór í þá ferð. Inn á milli reyndi ég semja tónlist. Þetta var algjör bilun og mjög erfiður tími í minningunni en rosalega skemmtilegur líka. Mjög dýrmæt reynsla sem ég myndi aldrei vilja skipta út fyrir eitthvað annað. Ég gekk hins vegar oft fram af mér og hélt að ég gæti tekið meira að mér en raun var og þá lenti ég á vegg. Þótt það sé gaman að hugsa til baka sæki ég ekki í svona læti aftur.“
Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Birgittu Haukdal, en hún prýðir forsíðu sérstakrar afmælisútgáfu Vikunnar sem væntanleg er í verslanir í dag.
/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir