Sunnudagur 27. október, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Borg með stórt hjarta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Ósk Sigurðardóttir flutti á sínum tíma til Torino á Ítalíu til að vera au pair en ílengdist í nokkur ár en ákvað að koma aftur heim eftir að hún eignaðist elstu dóttur sína.

Matarmenningin og góð veðrátta eru helstu kostir þess að búa á Ítalíu, að sögn Guðrúnar.

Guðrún segir að helstu kostir Ítalíu séu matarmenningin og sólin ásamt því sem lífsgæðakapphlaup Ítala sé af öðrum toga en Íslendinga.

„Ég vann meðal annars á kaffi- og veitingahúsum, fór í ferðamálaskóla, vann á ferðaskrifstofu og prófaði að vera leiðsögumaður,“ segir Guðrún sem starfar nú við bókhald hér á Íslandi og á þrjár dætur. „Einnig vann ég við hina árlegu bókasýningu sem haldin er í Torino þar sem saman koma bókaútgefendur og rithöfundar. Endaði samt í veitingahúsarekstri áður en ég kom aftur heim ásamt elstu stelpunni minni. Eftir að hún kom í heiminn togaði Ísland í mig aftur og vildi ég að hún myndi kynnast fjölskyldunni hérna heima og upplifa það „frelsi“ sem íslensk börn alast upp við. Kostir við Ítalíu eru að mínu mati matarmenningin og sólin. Lífsgæðakapphlaup Ítala er öðruvísi en Íslendinga og maður lærir mikla þolinmæði.“

Bogagöng Torino var fyrsta höfuðborg sameiginlegrar Ítalíu árið 1861. Þar eru mjög margar fallegar sögufrægar byggingar sem fáir vita af, heilu hallirnar sem vert er að skoða. Eitt einkenni borgarinnar eru yfir 18 kílómetra löng bogagöng sem liggja um bæinn og gera göngutúrana þægilegri, ekki síst sem skjól fyrir sólinni. Annað sem einkennir borgina eru breiðgöturnar prýddar háum og tignarlegum trjám. Hönnunin er eldri en á samskonar götum í Parísarborg. Torino er einna frægust fyrir FIAT-verksmiðjurnar.

„Lífsgæðakapphlaup Ítala er öðruvísi en Íslendinga og maður lærir mikla þolinmæði.“

Einstakt útsýni Ég mæli fyrst af öllu með því að fara og skoða hina fallegu kirkju Basilica di Superga sem stendur hátt yfir Torino. Þaðan er einstakt útsýni yfir alla borgina. Páfinn Pio XII sagði þetta fallegasta útsýni Evrópu. Kirkjan er byggð í barokkstíl af Filippo Juvarra og var lokið við hana 1731. Innan í henni er marmari frá Carrara og er hún bara ólýsanlega falleg að innan sem utan.

Konungshöll Í hjarta borgarinnar, Piazza Palazzo, má sjá hina fögru konungshöll Palazzo Reale þar sem Carlo Emanuele I bjó. Þar er einnig Palazzo Madama, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar bjó Maria Cristina af Savoya-ætt Frakklands og lét hún fegra hana að utan og innan. Nú í dag er þar Civic Museum of Ancient Art sem er alveg þess virði að skoða.

Líkklæði Jesú Stutt frá konungshöllinni er sérstök kapella frá árinu 1694 sem var byggð til að geyma líkklæði Jesú. Það er lakið sem Jesús var settur á þegar hann var tekinn niður af krossinum og lagður í hellinn. Eru þessi klæði auðvitað mjög umdeild og miklar rannsóknir hafa verið gerðir á klæðinu sem ber merki manns sem hefur verið krossfestur. Lakið barst til Torino 1562. Myndin er eins og negatíva af ljósmynd og þykir auðvitað kraftaverk, hvort sem þetta hafi verið Kristur sjálfur eða ekki. Myndin sem birtist af andliti mannsins er það „andlit“ sem við þekkjum af Jesú, skeggjaður maður með sítt hár. Það er mjög sjaldan til sýnis fyrir almenning en ég var svo heppin að fá að berja það augum árið 2000 í sérstakri aldamótasýningu. Mæli hiklaust með að hafa það í huga ef farið er til Torino.

- Auglýsing -
Basilica di Superga stendur hátt yfir Torino. Þaðan er einstakt útsýni yfir alla borgina. Páfinn Pio XII sagði þetta fallegasta útsýni Evrópu.

Söfn og samtímalist Annað mjög frægt safn í Torino er Egypska safnið sem er stærsta egypska safn í heimi, fyrir utan það sem er í sjálfri Kaíró. Þeir sem elska söfn mega ekki missa af þessu sem geymir yfir 8.000 hluti: styttur, papírus, múmíur, leirmuni, mat, áhöld, spegla, skart og snyrtivörur Egypta svo eitthvað sé nefnt.
Torino geymir líka nútímalegri list, eins og húsið með lásnum. Það listaverk er kallað Baci Rubati og er eftir arkitektinn Corrado Levi. Það hangir risalás utan á húsinu sem var settur upp 1996 og átti aðeins að vera tímabundið. Mjög sérstakt er að ganga eina af elstu götum borgarinnar, ekki í alfaraleið, og reka augun í lásinn.

Markaðir Eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði í Torino var að þræða markaðina sem eru þar út um allt. Sá frægasti er við Porta Palazzo og er stærsti útimarkaður Evrópu. Hægt er að finna nánast allt á útimörkuðunum en nauðsynlegt að vita hvar þeir eru því þeir flakka á milli borgarhluta. Sumir eru aðeins með mat, aðrir með antík og enn aðrir með tískuvörur og skó, húsgögn, bækur, nýtt og notað. Þar gerði ég alltaf hagstæð kaup. Uppáhaldsmarkaðurinn minn er í Crocetta á sunnudögum frá 8.30-18.45. Þar er allt sem maður gæti girnst: matvara, tískufatnaður, skór, skart, listmunir, metravara, antík og margt fleira. Fyrir þá sem finnast gaman af marköðum mæli ég sérstaklega með þessum.

Eitt sinn hæst í Evrópu Síðast en ekki síst er tákn borgarinnar, la Mole Antonelliana, sem er 167, 5 metra bygging með turni. Þessi bygging var á sínum tíma hæst í Evrópu og þótti mjög mikið afrek. Byrjað var á henni 1863 og árið 1889 varð hún 167,35 metra há. Ásamt stjörnunni sem nú trónir á toppnum er hún 167,5 metrar. Úr turninum er flott útsýni yfir einn af elstu hlutum borgarinnar. Í dag hýsir byggingin safnið Museo Nazionale del Cinema sem geymir sögu kvikmyndarinnar og ýmsa hluti tengda henni.

- Auglýsing -
Kirkjan er byggð í barokkstíl af Filippo Juvarra og var lokið við hana 1731. Innan í henni er marmari frá Carrara og er hún bara ólýsanlega falleg að innan sem utan.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -