Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Breytir tárum í orð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sara Mansour er á forsíðu Vikunnar að þessu sinni, en hún hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í raðir okkar helstu aðgerðasinna. Sara er drifin áfram af sterkri réttlætiskennd og segir samvisku sína stjórna öllu sem hún geri. Þrátt fyrir háværar og oft óvægnar gagnrýnisraddir ætlar hún alls ekki að leggja árar í bát og segir jákvæðu viðbrögðin sem hún fær gera allt þess virði. Sara er ótrúleg fyrirmynd og þegar litið er yfir afrek hennar er erfitt að trúa því að hún sé aðeins 21 árs.

Sara ólst upp í Vesturbænum og var að eigin sögn mjög hamingjusamt barn. „Ég var alltaf brosandi og er enn. Hins vegar fæddist ég með tilfinningalega viðkvæmni. Það þýðir einfaldlega að allt sem ég finn fyrir er mjög sterkt. Þegar ég er glöð er ég himinlifandi en þegar ég er leið er ég miður mín. Þetta birtist í miklum kvíða hjá mér sem barni, til dæmis aðskilnaðarkvíða. Ég reyni þó alltaf að aðskilja þetta tvennt, þ.e. manneskjuna sem ég er, mild og jákvæð, og sjúkdómseinkenni sem ná stundum tökum á mér.“ segir hún.

Samviskan stjórnar öllu

Aðspurð segist Sara alltaf hafa verið þannig að Guði gerð að hún eigi erfitt með að bíta sig í tunguna þegar hún verður vitni af óréttlæti. „Það hefur oft komið mér í vandræði. Einu sinni þegar ég var lítil var ég t.d. á fimleikaæfingu og þjálfarinn minn skammaði nokkrar stelpur fyrir að vera að tala. Ég gat ekki horft upp á þær sæta ávítum þegar ég hafði líka tekið þátt í samræðunum svo ég gaf mig fram og þurfti að gera aukalega þrekæfingar fyrir vikið. Þetta er kannski ekki besta dæmið en mér hefur alltaf fundist þetta svolítið fyndið því það sýnir að ég get aldrei setið á mér og segi alltaf sannleikann, meira að segja þegar ég ætti kannski ekki að gera það. Ég held ekki að það geri mig að betri manneskju en aðra, en samviskan mín er svo sterkt afl innra með mér að hún stjórnar eiginlega öllu sem ég geri.“

Sara hefur mikið notað Netið og samfélagsmiðla til að koma skoðunum sínum á framfæri. Hún segir það ekki hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að verða þessi baráttukona, aktivisti, heldur hafi það þróast óvænt í þá átt. Tilviljun hafi ráðið því að hún byrjaði að nota Facebook til að tjá sig um það sem olli henni hugarangri. „Venjulega er ferlið eitthvað á þá leið að ég verð meðvituð um eitthvað óréttlátt, sest niður og græt af vonleysi í klukkustund en stend síðan upp og breyti tárunum frekar í orð,“ segir hún.

Samviskan mín er svo sterkt afl innra með mér að hún stjórnar eiginlega öllu sem ég geri.

Sara hefur velt upp ýmsum áleitnum spurningum og hikar ekki við láta í sér heyra ef hún verður vitni af óréttlæti. Skrif hennar hafa oft vakið mikið umtal og ekki eru alltaf allir sammála þeim. Hún segir gagnrýnina oft ná til sín en jákvæðu viðbrögðin séu mun algengari.  „Ég var bara barn þegar ég byrjaði að skrifa og tjá skoðanir mínar og viðbrögðin sem ég mætti, bæði góð og slæm, hafa mótað mig meira en margir gera sér grein fyrir. Það væri helber lygi að halda því fram að fáfræðin sem ég mæti stundum hafi ekki áhrif á mig. Sumir segja að það venjist með aldrinum en ég held og vona að það eigi ekki við um mig. Ég held það af því ég er mjög viðkvæm manneskja og ég vona það því mótlætið styrkir mig og gerir mér kleift að takast á við aðstæður sem aðrir hafa kannski ekki sömu getu til. Ég veit að það hljómar eins og klisja, en jákvæðu viðbrögðin sem ég fæ eru margfalt meiri og þau gera allt hitt lítilvægt í samanburði. Ég hef reynt að safna saman öllum jákvæðum skilaboðum sem ég fæ og þau eru að nálgast fimm hundruð og þegar mér líður illa leita ég þangað. Ef mig vantar styrk til að takast á við ómálefnalega gagnrýni skoða ég uppáhaldsskilaboðin, t.d. frá stelpu sem sagði að ég hefði gefið henni styrk til að segja mömmu sinni frá að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi og skilaboð sem segja að manneskjan sem sendi þau hafi ekki raunverulega skilið hvað rasismi var fyrr en hún byrjaði að fylgjast með mér. Svona skilaboð um að ég hafi breytt viðhorfi fólks eru ómetanleg því þau eru beinhörð sönnun þess að ein manneskja geti knúið fram breytingar og það er einmitt það sem ég reyni að skila til annarra í sömu stöðu og ég. Verstu viðbrögð sem ég hef fengið á hlutlægan skala eru hótanir sem beinast að fjölskyldunni minni en ef ég á að vera hreinskilin þá er langverst að mæta skilningsleysi, háði eða jafnvel andúð frá fólki sem maður hélt að vissi betur.“

- Auglýsing -

Áfallastreituröskun eftir röð áfalla

Sara er greind með áfallastreituröskun sem hefur haft mikil áhrif á líf hennar. Hún hefur ekki rætt það mikið opinberlega og segir að einkennunum fylgi stundum ákveðin skömm. Í æsku varð hún fyrir röð áfalla sem hún bældi lengi niðri. Þeim sem hún mundi eftir sagði hún aldrei frá. Hún segist hafa átt erfitt með að sætta sig við að hafa verið greind með áfallastreituröskun. „Mér fannst ég ekki eiga nógu bágt til að þjást af sjúkdómi sem hefur í dægurmenningu helst einkennt fyrrverandi hermenn. En raunveruleikinn er að upplifun af styrjöld er ekki forsenda þess að vera með áfallastreituröskun og hún getur hrjáð fólk með alls konar reynslu. Í dag kemur hún helst fram í aktívismanum og verður til þess að ég fæ köst þegar eitthvað minnir mig á sársaukafullar upplifanir. Ég reyni að vera opin með það, eins og aðra geðsjúkdóma, en einkennunum fylgir viss skömm, t.d. er ég gjörn á að fá martraðir og svitna mikið í svefni. Ég fer reglulega til dásamlegs sálfræðings, sem hefur hjálpað mér meira en orð fá lýst, en ég hef lítið rætt þennan hluta af lífinu mínu því, eins og ég segi, þá fylgir því smáskömm og sársauki sem ég á enn eftir að vinna úr. En ég efast ekki um að það gerist með tímanum. Þetta er bara einn af þessum hlutum sem maður þarf að lifa með og ég mun ekki leyfa því að halda aftur af mér.“

- Auglýsing -

Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Söru. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -