Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

„Dagarnir mínir verða sífellt lengri og innihaldslausari“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarin ár hef ég fylgst með sigrum vinkvenna minna og gamalla skólasystra á vinnumarkaðnum og satt að segja dauðöfunda ég þær. Hitt er annað mál að sumar þeirra myndu eflaust vilja vera í mínum sporum, heimavinnandi húsmóðurinnar með börnin tvö og vel menntaða eiginmanninn í góðu stöðunni.

Sannleikurinn er sá að ég vildi gera hvað sem er til þess að vera í þeirra sporum, vera innan um fólk á daginn, vinna utan heimilis og nýta menntun mína. Það eru sjö ár síðan ég kynntist manninum mínum og sex ár síðan dóttir okkar fæddist. Fyrir þremur árum bættist svo lítill herramaður í hópinn. Auðvitað veit ég að það eru forréttindi að fá að njóta þess að vera með börnunum sínum öllum stundum en slíkt líf getur verið einmanalegt.

Mamma, vinkonur mínar og kunningjakonur eru undantekningarlaust útivinnandi og þegar ég fylgist með þeim og spjalla við þær finnst mér ég lifa í allt öðrum veruleika en þær. Með hverju árinu sem líður finnst mér sjóndeildarhringur minn þrengjast og mér líður sífellt verr innan um konur sem lifa lífinu sem mig langar að lifa.

Erfið fyrirmynd

Nú hugsið þið sem lesið þetta eflaust sem svo: Af hverju í ósköpunum finnur konan sér ekki vinnu? En málið er ekki svo einfalt. Maðurinn minn, sem er vel menntaður og í góðu starfi, er alinn upp samkvæmt ævafornum sið. Mamma hans, kona á besta aldri, hefur aldrei unnið úti og hefur helgað líf sitt manni og börnum. Í fjölskyldu mannsins míns er það talið til fyrirmyndar. Hún og maðurinn hennar, bæði rétt rúmlega fimmtug, lifa lífinu á sama hátt og amma og afi gerðu; hann kemur heim í hádeginu, borðar heitan mat sem bíður hans á dúkuðu borði, ropar, leggst upp í sófa og fær sér blund.

Á meðan má enginn svo mikið sem hvíslast á. Að vinnudegi loknum bíður hans kvöldmaturinn og á kvöldin sitja þau hjónin saman og horfa á sjónvarpið. Mér til mikillar skelfingar komst ég fljótlega að því að maðurinn minn vill hafa sama háttinn á. Um leið og ég varð ófrísk krafðist hann þess að ég hætti að vinna.

- Auglýsing -

Gæsahúð og óbragð í munni

Ég er satt að segja orðin dauðhrædd um það að ég eigi eftir að verða eins og hún tengdamóðir mín. Hún kemur gjarnan í heimsókn upp úr þurru, hringir og segist vera á leiðinni og spyr aldrei hvernig standi á hjá mér. Hún þiggur kaffi og meðlæti og á meðan talar hún endalaust um það að hún skilji ekkert í því hvernig aukakílóin hlaðist á hana. Hún sem borði bara hollan mat og fari í sund á hverjum degi.

„Ég er farin að fá gæsahúð og óbragð í munninn þegar hún kemur í heimsókn.“

Alltaf þegar eitthvað gerist í fjölskyldunni þarf hún að segja sögur af sjálfri sér. Að eigin sögn séu hæfileikarnir óteljandi, hún hafi alltaf verið best í öllu, að hennar sögn hafi alltaf verið til þess tekið hvað hún hafi fallega söngrödd, hún hafi alltaf verið í aðalhlutverkinu í skólaleikritunum og staðið fremst í öllu sem viðkom íþróttum.

- Auglýsing -

Ég er farin að fá gæsahúð og óbragð í munninn þegar hún kemur í heimsókn og segir: „Gjugg í borg, er einhver heima?“ og svo kemur þessi dillandi litlustelpuhlátur sem smýgur í gegnum merg og bein.

Hrokafullur tengdapabbi

Tengdapabbi er alveg sér á parti. Hann er með eigin atvinnurekstur og mokar inn peningum. En samt er ekki hægt að segja að þau hjónin lifi skemmtilegu lífi. Þau eiga reyndar húseignir hérlendis og erlendis og aka um á flottum og dýrum bílum en þau fara sjaldan og nær aldrei út fyrir landsteinana. Það er vegna þess að tengdamamma getur ekki hugsað sér að vera fjarri drengjunum sínum þremur” sem allir eru giftir eða komnir í sambúð.

Einhverra hluta vegna gengu þeir allir menntaveginn, jafnvel þótt tengdapabbi haldi því fram að menntun sé ekkert annað hroki og lestur bóka ekki til neins annars fallinn en að rugla fólk í ríminu. Listamenn eru að hans mati ónytjungar sem nenna ekki að vinna og lifa á styrkjum. Sjálf er ég mikill lestrarhestur og menntuð á listabrautinni en ég er fyrir löngu farin að hafa vit á því að minnast ekki á bókmenntir og listir í nærveru tengdapabba.

Erfitt að bæla skoðanir sínar

Það versta af öllu er sú staðreynd að maðurinn minn trúir hverju orði sem foreldrar hans segja og skoðanir þeirra eru skoðanir hans. Hann tekur aldrei ákvörðun án þess að bera málið fyrst undir þau. Mamma hans hefur meira að segja aðgang að bankareikningnum hans og fylgist náið með því í hvað peningarnir okkar fara. Ég hins vegar reyni að berjast á móti og hafa mínar eigin skoðanir.

„Mig dreymdi um að fara í eins árs framhaldsnám en hann var fljótur að kæfa þann draum í fæðingu.“

Mér er það eftirminnilegt þegar tengdamamma hélt því fram að það væri stórhættulegt að hafa börn í bílstólum og það tók mig langan tíma að fá manninn minn til þess að skilja að því væri alveg öfugt farið. Annað gott dæmi um visku tengdamömmu er fullvissa hennar um að breiðari endinn á stautum sem settir eru í endaþarm veikra barna ætti að fara fyrstur inn. Það kostaði nærri því handalögmál þegar ég, í viðurvist tengdamömmu og drengsins hans, hafði minn háttinn á.

Þú mátt!

Undanfarið hef ég staðið í samningaviðræðum við manninn minn. Ég er að reyna að fá hann til að samþykkja að ég megi fara að nota hæfileika mína og menntun til einhvers annars en að elda mat, halda heimilinu hreinu og hugsa um börnin. Dóttirin er komin í skóla og litli maðurinn hefði gott að því að fara í leikskóla og umgangast önnur börn. Dagarnir mínir verða sífellt lengri og innihaldslausari.

Ég játaði líka fyrir mínum heittelskaða að mig dreymdi um að fara í eins árs framhaldsnám en hann var fljótur að kæfa þann draum í fæðingu. Hann sagði að ég hefði sjálf kosið að eignast mann og börn og ég yrði að haga lífi mínu eftir því. Að vel íhuguðu máli hefur hann nú komist að þeirri niðurstöðu og ég ,,megi” vinna hálfan daginn. Guð veit hvað tengdaforeldrar mínir segja um þá ákvörðun. En kannski hann hafi gefið mér leyfið með þeirra samþykki. Það kæmi mér ekki á óvart.

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Ég er í rauninni steinhissa á sjálfri mér að vera ekki löngu búin að skilja við manninn minn og losna í leiðinni við tengdaforeldra mína. En sannleikurinn er sá að ég get ekki hugsað mér að lifa án hans, þrátt fyrir það hvernig hann sér lífið í gegnum gleraugu foreldranna.

Ég vil trúa því að með því að beita þolinmæðinni geti ég fleytt manninum mínum inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Sýnt honum fram á að hjón verða mun hamingjusamari ef þau gefa hvort öðru lausan tauminn og fá bæði að njóta sín. Ég get ekki hugsað mér að láta börnin mín alast upp í þeirri trú að konur hafi ekkert að segja um eigið líf. Það er einfaldlega gömul og löngu úrelt saga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -