Lífsreynslusaga úr Vikunni
Við fluttum í nýju íbúðina okkar á sólríkum sumardegi. Veðrið endurspeglaði gleði okkar og tilhlökkun því þetta var fyrsta heimilið sem við hjónin áttum sjálf. Dóttir okkar var yfir sig spennt að eignast sérherbergi eftir að hafa þurft að kúldrast með bróður sínum í pínulítilli kompu. Þarna var stór draumur að rætast en hann átti eftir að breytast í martröð.
Ég og Viðar kynntumst í menntaskóla og byrjuðum að vera saman á lokaárinu okkar. Þaðan lá leiðin í Háskólann og Rósa fæddist þegar ég var á öðru ári í námi. Við lukum okkar prófum hér heima og fluttum út í framhaldsnám í tvö ár. Þar fæddist Benni rétt eftir að námstímanum lauk. Viðar fékk strax góða vinnu eftir að heim kom en mér gekk verr að komast að í mínu fagi enda er það sérhæfðara. Það tókst þó að lokum en í þrjú ár vorum við á hrakningi á leigumarkaði. Íbúðirnar sem við leigðum áttu það sameiginlegt að vera litlar og fremur sjúskaðar. Rósa var orðin sex ára og henni fannst ömurlegt að vera með þriggja ára bróður sínum í herbergi. En það gekk hægt og illa að spara og það var ekki fyrr en foreldrar mínir lögðu okkur til útborgun í íbúð, fyrirframgreiddan arf, að við gátum keypt.
Íbúðin okkar var í nýju hverfi, í glæsilegri blokk, rúmgóð og fín. Síðustu dagana áður en við fluttum inn svaf Rósa ekki fyrir spenningi. Hún var búin að skipuleggja herbergið frá a-ö og raða öllu upp í huganum. Ég var ofboðslega ánægð með að geta loksins veitt dóttur minni þann munað að eiga pláss út af fyrir sig. Svo rann upp þessi gleðidagur og búslóðin borin inn á nýja staðinn. Rósa hófst þegar handa við að draga kassa merkta henni inn í herbergi og taka upp úr þeim. Pabbi hennar hjálpaði henni að koma rúminu fyrir og setja upp hillur og strax þetta kvöld voru bækurnar hennar komnar á sinn stað, styttur í gluggakistuna og nokkur uppáhaldsleikföng. Hún braut einnig vandlega saman fötin sín og raðaði ofan í kommóðuna. Við vorum öll þreytt og en ánægð þegar við fórum að sofa.
Leið illa í herberginu sínu
Um miðja nótt hrökk ég upp við það að Rósa stóð við rúmstokkinn hjá mér. Hún skalf og nötraði og bað um að fá að koma upp í. Ég spurði hvort hana hefði dreymt illa og hún svaraði því játandi. Ég rýmdi til fyrir henni og það sem eftir lifði nætur svaf hún hjá okkur. Morguninn eftir var Rósa alveg búin að jafna sig og við nutum þess að borða saman í eldhúsinu fyrsta sinn. Næstu nótt endurtók sagan sig og svo nóttina þar á eftir. Ég fór líka fljótlega að taka eftir því að Rósa var lítið inni í sínu herbergi. Hún var frammi hjá okkur öllum stundum sem kom á óvart miðað við hve heitt hún þráði að eignast sérherbergi. Ég velti þessu samt ekkert mikið fyrir mér þangað til Benni fór að tala um mann sem hann sæi reglulega í eldhúsinu.
Til að byrja með hélt ég að Benni hefði komið sér upp ímynduðum vini, eins og barna með frjótt ímyndunarafl er siður, en svo fór að koma í ljós að honum var ekki sérlega vel við þennan mann. Hann talaði oft um að maðurinn væri reiður og eitt sinn bað hann mig að reka manninn burtu. Þetta var mjög óhugnanlegt og í kjölfarið gekk ég á Rósu og spurði hana hvers vegna hún vildi ekki vera inni í sínu herbergi. Hún sagði mér að sér liði ekki vel þar. Hvers vegna gat hún ekki skýrt, sagði bara að sér fyndist ekki gott að vera þar. Nokkrum sinnum fór ég með henni inn í herbergið og reyndi að púsla eða teikna með henni en mjög fljótlega varð hún eirðarlaus og vildi komast fram. Hún talaði um að sér væri kalt og það væri vont að vera þarna og bað mig um að flytja dótið fram í stofu.
Ég verð að viðurkenna að þetta fór mjög fljótt að hafa áhrif á mig. Ég var farin að finna fyrir kvíða þegar ég stakk lyklinum í skránna og opnaði fyrir mér og börnunum í eftirmiðdaginn. Ég gerði mitt besta til að leyna þessu og vera glöð og ánægð í kringum þau en ónotatilfinningin jókst með degi hverjum. Viðar fann ekki fyrir neinu og hló að mér þegar ég sagði honum þetta. „Hvað ætti að vera í íbúðinni og hvers vegna vondur andi?“ sagði hann og hló. „Þetta er alveg nýtt hús.“ Jú, ég vissi það og barði þess vegna á sjálfri mér fyrir ímyndunina og vitleysuna. Maður tengir jú draugagang fyrst og fremst við gömul hús.
Maðurinn enn á ferð
Tíminn leið og ekkert breyttist. Rósa hélt áfram að koma inn til okkar á næturnar og forðast herbergið sitt á daginn. Benni talaði af og til um manninn og einn morguninn þegar Viðar var að gefa þeim að borða sneri hann sér við í stólnum og benti aftur fyrir sig. „Pabbi, þarna er maðurinn,“ sagði hann. Viðar hló bara að þessu og hélt áfram að gera grín að mér fyrir vanlíðanina. Ég sagði Dóru, vinkonu minni, frá þessu en hún er ein þeirra er trúir á að ekki sé allt sýnilegt öllum í þessari veröld og hún vildi endilega koma í heimsókn með konu sem hún þekkti, miðil. Ég samþykkti það, enda á þessum tíma eiginlega tilbúin til að gera hvað sem er til að okkur liði betur. Ég sló þó þann varnagla að skipa Dóru að steinþegja um það sem gengið hafði á og hún mætti alls ekki tala um manninn eða að það væri herbergi Rósu sem virtist versti andinn í.
Miðillinn kom og gekk herbergi úr herbergi en staðnæmdist strax í herbergi Rósu. Þar tók hún um hjartað um stund og andaði djúpt nokkrum sinnum með lokuð augu. Svo sagði hún: „Hér er einhver sem fær ekki frið.“ Mér dauðbrá. Þótt ég hefði barist við þessa óljósu og erfiðu óþægindatilfinningu fannst mér beinlínis ógnvekjandi að fá staðfestingu á að eitthvað væri þarna. Við settumst svo saman frammi í stofu og miðillinn tók um hendur okkar beggja og við báðum saman fyrir ráðvilltri sál, eins og hún orðaði það. Eftir komu hennar var friður um stund og Rósa svaf í fyrsta sinn heila nótt í sínu herbergi.
Nokkrum dögum seinna fórum við í ferðalag með krakkana og komum við hjá gamalli frænku Viðars. Hún hafði verið gift breskum manni og eldri bróðir hans var hermaður í seinni heimstyrjöldinni. Uppi á vegg var mynd af honum í herbúningi. Allt í einu benti Benni á myndina og sagði: „Mamma, maðurinn.“ Ég kipptist við og leið ömurlega en Viðar yppti öxlum og útskýrði fyrir frænku sinni að drengurinn hefði komið sér upp ímynduðum vini og greinilega minnti þessi maður eitthvað á hann. Ég á hinn bóginn varð strax sannfærð um að það væri herbúningurinn sem hefði vakið athygli Benna.
Leitað til prests
Róin eftir heimsókn miðilsins varði ekki lengi. Rósa var aftur farin að koma inn til okkar á næturnar og Benni talaði áfram um manninn. Hann var farinn að biðja mig að reka hann burtu þegar hann vildi komast inn á svefnherbergisganginn og alltaf var augljósara að drengnum var alls ekki vel við þennan mann. Hann vældi stundum og bað mig að segja honum að fara og það kom einnig fyrir að hann eins og reyndi að ýta einhverjum frá sér. Rósa á hinn bóginn sá aldrei neitt en vanlíðan hennar magnaðist líka. Henni var illa við þetta tal bróður síns þótt ég reyndi eftir bestu getu að fullvissa hana um að þetta væri bara ímyndun og eitthvað sem væri algengt meðal barna. Ég var orðin örvæntingarfull og fannst hræðilegt að sjá börnin mín í þessum aðstæðum. Að lokum krafðist ég þess við Vidda að við töluðum við prest.
Hann hló að mér til að byrja með en varð svo öskureiður, fannst þetta gersamlega út í hött en ég stóð föst á mínu. Ég fór og talaði við sóknarprestinn og hann tók mér vel, hlustaði en var augljóslega á sama máli og Viðar að ég léti streitu og hugmyndaflugið ná tökum á mér. Hann stakk samt upp á því að hann kæmi heim til okkar og blessaði heimilið ef mér liði betur við það. Ég var tilbúin að reyna hvað sem er og úr varð að hann gerði þetta. Ég fann fyrir ákveðnum létti þegar hann fór en blessun hans breytti engu.
„Við settum íbúðina á sölu skömmu síðar og keyptum aðra langt frá þeirri sem við vorum í.“
Þremur dögum eftir þetta hrökk Viðar upp með andfælum um miðja nótt. Hann stökk fram úr rúminu og ég vaknaði við að hann stóð frammi við dyrnar og skalf. Honum hafði fundist einhver beygja sig yfir sig í rúminu og þrengja að brjóstinu. Honum leið mjög illa og við sátum góða stund frammi í eldhúsi á meðan hann jafnaði sig og hann ætlaði aldrei að þora að fara aftur inn í rúm. Við settum íbúðina á sölu skömmu síðar og keyptum aðra langt frá þeirri sem við vorum í. Eftir að við fluttum þangað hefur Benni ekki minnst á manninn og Rósa er alsæl með herbergið sitt. Mér líður mjög vel og finn ekki fyrir neinum óþægindum. Ég segi ekki að Viðar hafi viðurkennt að eitthvað hafi átt sér stað í hinni íbúðinni en hann er hættur að gera lítið úr orðum mínum þegar ég tala um þetta. Fyrir nokkrum dögum sá ég gamla heimilið mitt á skrá hjá fasteignasala í þriðja sinn á einu ári.