Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Ef maður tengir við RIE tengir maður svo sterkt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda.

„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“

Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“

Virðingin, traustið og tengingin

Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.

„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“

Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur.  Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“

- Auglýsing -

Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum

Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra.

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“

- Auglýsing -

Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.

Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“

Að hjálpin komi frá hjartanu

RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“

Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“

„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín.

Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt

Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.

Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -