Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

„Ég fyrirgaf mömmu stjórnsemina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mamma var alltaf stóri og sterki aðilinn í minni fjölskyldu. Það var sama hvað gekk á það datt aldrei af henni né draup. Þessi styrkur mömmu fór oft í taugarnar á mér, enda fylgdi honum stjórnsemi sem gat gengið út í öfgar. Rétt áður en mamma dó í fyrra skildi ég loks hvað henni hafði gengið til og ég fyrirgaf henni stjórnsemina.

 

Þegar bróðir minn slasaðist lífshættulega var það hún sem huggaði okkur hin og stappaði í okkur stálinu. Allan þann tíma sem hann lá á sjúkrahúsinu sáum við hana aldrei brotna saman eða gráta. Hún virtist ekki eitt andartak missa vonina um að hann kæmist til meðvitundar. Pabbi var beygður og utan við sig, nánast ekki með sjálfum sér, af sorg og við hin höfðum miklar áhyggjur af honum. Mamma aftur á móti skipulagði vaktir við sjúkrabeð bróður míns, sá um að allir fengju að borða og sinnti öllum nauðsynlegum samskiptum.

Ég dáðist að henni þá en ég skildi ekki hvernig hún gat þetta. Mér fannst hún svo köld að ég sagði við systur mína: „Þykir henni virkilega ekki vænna um börnin sín en þetta? Þarna liggur eitt þeirra milli heims og helju og hún fellir ekki einu sinni tár.“ Systir mín var sammála og við rifjuðum upp sögur af kulda og tilfinningaleysi mömmu. Bróðir minn náði sér mjög vel eftir þessi veikindi og mamma var við hliðina á honum allan tímann. Ég var hins vegar þá, og hef nánast alltaf verið hálfreið henni fyrir að geta aldrei sýnt tilfinningar.

Gerði allt sjálf

Þegar ég var þriggja ára datt ég niður tröppurnar heima og fékk gat á hausinn. Systir mín hljóp inn háskælandi og sagði mömmu hvað hefði gerst. Mamma hljóp út og þar lá ég í blóðpolli á stéttinni. Hún sagði ekkert heldur tók mig í fangið og bar mig inn. Hún þvoði það mesta úr andlitinu á mér, vafði handklæði um höfðuðið á mér og setti utan um mig teppi. Síðan fór hún með okkur systur báðar upp á slysadeild. Þar kom í ljós að ég hafði fengið vægan heilahristing og sauma þurfti sjö spor við gagnaugað.

Systir mín grét og barmaði sér meðan ég var saumuð en mamma sat með hana í fanginu og talaði rólega við hana. Hún hélt líka í höndina á mér og taldi í mig kjarkinn. Talaði um að bráðum yrði þetta búið og ég væri sterk stelpa sem þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Sjálf man ég bara óljóst eftir þessu en sagan er svo velþekkt í fjölskyldunni að mér finnst ég muna þetta allt. Læknarnir unnu sitt verk og við fórum aftur heim. Pabbi átti ekki orð þegar hann kom heim um kvöldið og spurði mömmu aftur og aftur: „Af hverju hringdirðu ekki í mig?“ Hún sagðist ekki hafa talið neina þörf á því að trufla hann. Þá sagði hann óskaplega sár: „Ég hefði komið strax.“

„Það er enginn óheppinn fjórum sinnum. Það er eitthvað að þessum manni.“

- Auglýsing -

En svona var mamma. Hún leysti allt sjálf og gerði allt sem þurfti að gera. Þegar ég var unglingur komst ég aldrei upp með neitt múður. Mamma hringdi til mæðra vinkvenna minna til að athuga hvort ég væri örugglega hjá þeim og hún sá til þess að ég kæmi heim á réttum tíma því ef það brást kom hún einfaldlega og sótti mig. Ég lét það ekki henda nema tvisvar, enda stríddu krakkarnir mér upp frá því og sögðu að mamma mín kæmi og sækti mig ef ég væri ekki stillt.

Enginn er óheppinn fjórum sinnum

Ég kynntist fyrri manninum mínum aðeins átján ára og fór að búa með honum eftir aðeins þriggja mánaða kynni. Kannski hefur það haft sitt að segja að ég vildi sleppa frá mömmu. Þessi kærasti hlaut ekki náð fyrir augum mömmu sem varaði mig hvað eftir annað við honum. Hann var tíu árum eldri en ég og átti þrjár fyrrverandi eiginkonur og eina fyrrverandi sambýliskonu.

- Auglýsing -

Mamma sagði þegar hún heyrði það: „Það er enginn óheppinn fjórum sinnum. Það er eitthvað að þessum manni.“ Mikið ofboðslega varð ég reið. Ég hélt að ég myndi aldrei fyrirgefa mömmu þessi en nokkrum mánuðum seinna komst ég að því að svo sannarlega hafði hún haft rétt fyrir sér. Sambýlismaður minn var óáreiðanlegur á öllum sviðum. Hann laug, sveik og blekkti, ekki bara að mig heldur líka vinnuveitanda sinn, foreldrum sína og aðrar konur sem hann var í sambandi við fram hjá mér.

Það tók mig tæp tvö ár að viðurkenna ósigur minn og skríða heim til mömmu. Þangað kom ég klukkan sex að morgni með bólgna vör og blá og marin um allan skrokkinn. Sambýlismaður minn taldi það ósvífni að ég skyldi gera athugasemd við það að hann kom heim með hóp af blindfullum félögum sem lögðu undir sig heimili okkar. Til að sýna þeim að hann léti kerlingar nú ekki komast upp með að stjórna sér kýldi hann mig í andlitið og henti mér síðan niður stiga og út úr íbúðinni. Þá gafst ég endanlega upp.

Ég náði í leigubíl skammt frá húsinu og grét alla leiðina heim til mömmu og pabba. Mamma kom til dyra þegar ég hringdi dyrabjöllunni. Hún sagði ekki orð, sótti bara veskið sitt borgaði bílinn og fylgdi mér svo inn í stofu. Ég grét með ekkasogum og hún hélt utan um axlirnar á mér. Þegar ég loksins var búin að gráta nóg, lét hún mig leggjast út af í sófann og breiddi yfir mig teppi. Um leið og hún gekk út úr stofunni sagði hún: „Guði sé lof að þú átt ekki barn með honum.“ Þar með var málið útrætt af hennar hálfu og aldrei framar var minnst á sambýlismann minn eða neitt honum viðkomandi.

Komin í örugga höfn

Pabbi og bróðir minn fóru skömmu síðar og sóttu dótið mitt og þá sat sambýlismaður minn grátandi í stofunni. Ég svaraði ekki símtölum frá honum og neitaði að taka á móti honum þegar hann kom. Hann reyndi þess vegna að telja pabba og bróður minn á að styðja sig og fá mig til að taka við sér aftur. Pabbi svaraði honum kurteislega en ákveðið að enginn úr fjölskyldunni vildi sjá hann framar og ef hann myndi nálgast mig yrði hringt á lögreglu. Upp frá því lét hann mig í friði, enda voru nógar aðrar tilbúnar til að gangast upp við smjaðrið í honum því ekki vantaði að hann var tungulipur og aðlaðandi þegar hann var að byrja ástarsamband við konur.

„Umhyggja mömmu fyrir okkur var svo mikil að hún setti sjálfa sig og sínar þarfir ævinlega í annað sætið.“

Ég bjó ekki lengi heima hjá mömmu og pabba. Ég vildi standa á eigin fótum og leigði mér því litla íbúð og seinna keypti ég mitt eigið húsnæði. Ég kynntist manninum sem ég er gift í dag þannig að hann bjó á móti mér í húsinu þar sem ég keypti. Hann var mjög elskulegur og almennilegur. Þess vegna leitaði ég til hans þegar þvottavélin bilaði hjá mér og vatn flæddi um allt. Hann brást vel við og reddaði málunum ótrúlega fljótt og vel. Upp frá því fórum við að tala saman á göngunum og hann kom í kaffi til mín. Eitt leiddi af öðru og fyrr en varði var hann fluttur inn til mín.

Hann var sannarlega ekki líkur mínum fyrrverandi og varla hægt að hugsa sér betri eða traustari mann. Að þessu sinni var mamma sammála og hún virtist telja að ég væri komin í örugga höfn. Oft fór í taugarnar á mér hversu hrifin hún var af tengdasyninum því ef einhverjar skærur voru okkar á milli stóð hún alltaf með honum. Pabbi hló bara þegar ég kvartaði undan þessu og benti á að mamma væri bara að reyna að fá mig til að sjá fleiri hliðar á málunum. Ég þoldi það hins vegar illa því ég taldi mig ekki í vandræðum með að sjá fleiri hliðar á málunum. Mikilvægara væri að einhver stæði með mér.

Í fyrra fékk mamma að vita að hún væri dauðveik. Hún tók á veikindunum, eins og öllu öðru, með miklu jafnaðargeði. Oftast var það hún sem huggaði okkur en ekki öfugt. Einhverju sinni var hún mjög veik og lá á sjúkrahúsi. Ég vildi sitja hjá henni en hún bað mig að fara heim og sagðist þurfa að vera ein. Ég varð mjög sár og keyrði heim til pabba. Þar hágrét ég við eldhúsborðið og sagði honum að ég þyldi ekki hvernig hún héldi manni alltaf í ákveðinni fjarlægð.

„Það tók mig tæp tvö ár að viðurkenna ósigur minn og skríða heim til mömmu.“

Þá sagði pabbi: „Mamma þín varð snemma að taka ábyrgð á öllu í eigin lífi. Amma þín var einfaldlega þannig að ef erfiðleika bar að höndum gafst hún upp. Hún veiktist og dó þegar mamma þín var mjög ung, eins og þú veist, en það var mamma þín sem varð að sjá um að halda öllu gangandi meðan á veikindunum stóð og eftir að hún féll frá. Mamma þín var alltaf ákveðin í að þið börnin hennar mynduð aldrei þurfa að ganga í gegnum það sama og hún.“ Og þá loksins skildi ég allt. Umhyggja mömmu fyrir okkur var svo mikil að hún setti sjálfa sig og sínar þarfir ævinlega í annað sætið. Ég fyrirgaf henni umsvifalaust stjórnsemina og þegar ég kvaddi hana nokkrum vikum seinna kvaddi ég af einlægri ást og virðingu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -