Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Ég hef alltaf samþykkt Bjarka nákvæmlega eins og hann er“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þótt þau Saga Ýr Nazari og Bjarki Steinn Pétursson séu ung að árum hafa þau upplifað meira en margir sem eldri eru. Þegar þau kynntust fyrir einu og hálfu ári voru þau bæði nýlega orðin edrú eftir margra ára neyslu áfengis og fíkniefna og stuttu eftir að þau kynntust kom Bjarki út sem trans maður. Í dag eru þau hamingjusamari en nokkru sinni fyrr og undirbúa nú útkomu fyrsta heftis tímaritsins Góðar fréttir þar sem þau ætla einungis að flytja jákvæðar fréttir, enda segja þau að það skipti miklu máli fyrir vellíðan og andlega heilsu að leggja áherslu á það jákvæða í lífinu.

„Það voru aldrei neinir erfiðleikar frá minni hlið,“ segir Saga ákveðin. „Ég hef alltaf samþykkt Bjarka nákvæmlega eins og hann er og var ekkert hneyksluð á því að hann væri að koma út sem trans maður. Mér fannst aldrei neitt mál að kalla hann Bjarka, þótt hann hafi heitið annað þegar við kynntumst. Þetta var mun erfiðara fyrir hann, skiljanlega.“

„Já, það hafa poppað upp ýmis verkefni hjá okkur alveg síðan við kynntumst,“ bætir Bjarki við. „Það tengist líka því að við erum bæði edrú og þegar við kynntumst var ég nýorðinn edrú og hún búin að vera edrú í eitt ár, þannig að hún þurfti að fylgja mér í gegnum upphafið á mínu edrúferðalagi. Það koma upp alls konar verkefni í edrúmennskunni sem eru krefjandi, sérstaklega í byrjun þegar maður er að læra að vera edrú. Við kynntumst rosamikið í gegnum það að hjálpa hvort öðru í gegnum erfiðleika sem tengdust ekki okkar sambandi heldur voru mín persónulegu áföll sem hún hjálpaði mér að takast á við, og ég gerði það sama fyrir hana.“

„Það koma upp alls konar verkefni í edrúmennskunni sem eru krefjandi.“

„Já, við höfum lært það mjög vel í gegnum sambandið okkar að við þurfum að taka ábyrgð á okkur sjálf,“ skýtur Saga inn í.

„Ég get ekki bjargað honum og hann getur ekki bjargað mér. Við spegluðum mikið hvort annað í því hvað það væri sem hvort okkar um sig þyrfti að taka ábyrgð á. Ég komst að mörgu um sjálfa mig í gegnum þessa speglun og uppgötvaði að það var ýmislegt sem ég þurfti að leita mér hjálpar við og hann sömuleiðis, auðvitað. Þannig að þetta hefur verið mjög þroskað og heilbrigt samband og erfiðleikar þýða bara að við þurfum að vera tilbúin að horfast í augu við okkur sjálf. Þegar við kynntumst vorum við nýbyrjuð að lifa lífinu á lífsins forsendum; verða fullorðin og vera edrú, vinna úr fortíðinni og reyna að láta draumana okkar rætast.“

Talandi um að læra að vera fullorðin, hvað eruð þið gömul? „Ég er tuttugu og eins,“ segir Saga. „Og ég varð tuttugu og sex ára í júní,“ segir Bjarki, sem kom, eins og áður sagði, út sem trans maður fyrir einu og hálfu ári.

- Auglýsing -

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir, förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -