Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

„Ég lærði að hafa áhuga á lífinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar ég var unglingur fannst mér tilveran flöt. Ég fann sjaldnast til nokkurra tilfinninga gagnvart neinu. Ég var aldrei glöð, ekki beint döpur en alltaf hálfergileg út af öllu. Þessi líðan varð viðvarandi eftir að ég varð fullorðin og ég beið alltaf eftir þessu eina fullkomna andartaki þegar allt breyttist til hins betra. Það kom ekki fyrr en ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að skapa það sjálf.

 

Ég var gott og hlýðið barn. Mamma segir að ég hafi mikið leikið mér ein og alltaf verið dugleg við að finna mér eitthvað að gera. Kannski átti ég þess vegna svo erfitt með að sætta mig við leiðindin sem ég fann fyrir eftir að ég varð unglingur. Mér leiddist í skólanum. Félagar mínir voru, að mínu mati, uppteknir af alls konar hlutum sem mér fannst engu skipta. Ég gat til dæmis aldrei fundið fyrir einhverjum óskaplegum áhuga á fötum eins og sumar aðrar stelpur.

„Ég varð ekki yfir mig skotin í einhverjum strákum eins og þær vinkonur mínar urðu.“

Ein besta vinkona mín var mikið fatafrík og hún gat talað dögum saman um einhverja skó sem hana langaði í eða flottu peysuna í búðinni niðri á Laugavegi. Mér fannst þetta leiðinlegt tal en verð að viðurkenna að mig langaði svo sem ekkert til að tala um eitthvað annað. Ég varð ekki yfir mig skotin í einhverjum strákum eins og þær vinkonur mínar urðu. Ég kunni vel við suma strákana og fannst nokkrir sætir en ég hafði engan sérstakan áhuga. Ég átti tvo kærasta í skóla en það var fremur vegna þess að ég vildi falla í hópinn en að ég væri yfir mig hrifin af þeim.

Þegar ég lít til baka finnst mér að á þessum árum hafi ég flotið með straumnum, skoðanalaus og tilfinningaköld. Ég gerði það sem hinir gerðu en ég fann ekki til neinnar ánægju eða gleði yfir neinu. Mér leið heldur ekkert illa. Ef ég hefði verið döpur og leið hefði ég sennilega talið mig vera þunglynda og leitað læknis. Þannig var þetta ekki heldur miklu frekar eins og ég væri gestur í eigin líkama, einhver geimvera sem væri tímabundið á þessum stað og biði bara eftir að komast aftur heim.

Var alls staðar utangarðs

Ég hafði engan áhuga á íþróttum og hreyfði mig lítið. Samt fitnaði ég ekki því ég hafði litla löngun til að borða og borðaði sannarlega ekki af nautn. Mér fannst ég alls staðar standa utangarðs. Í hvert sinn sem fjölskyldan kom saman um hátíðir eða við önnur tækifæri stóð ég einhvers staðar afsíðis og talaði helst ekki nema á mig væri yrt. Mér fannst erfitt að brydda upp á samræðum og vissi tæpast hvernig ég átti að fara að því. Það er líka erfitt þegar maður hefur svo sem ekki áhuga á neinu að finna eitthvað til að tala um. Oft leið mér svona líka innan um vini mína og ég var sú í vinkvennahópnum sem hlustaði á allar hinar segja frá vandamálum sínum en sagði sjaldnast nokkuð sjálf.

- Auglýsing -

Það undarlega var að enginn tók eftir að ég væri neitt öðruvísi en aðrir. Jú, mamma og sumar vinkonur mínar höfðu orð á því af og til að ég væri svo róleg. Ég held að fáir hafi velt fyrir sér af hverju rólegheit mín stöfuðu. Stundum er talað um að sumt fólk hafi mikinn lífsþorsta og ég ímynda mér að það sé eins og góð matarlyst eða græðgi. Viðkomandi er þá væntanlega gráðugur í að lifa lífinu til fulls. Ég var einmitt andstæða þessa fólks. Ég hafði litla lyst á að lifa og var sátt við að sjá dagana renna hjá.

Ég var ekki kvíðafull eða óttaslegin fyrir framtíðinni heldur þvert á móti. Ég var viss um að í framtíðinni biði eitthvað sem myndi vekja mig af þessum Þyrnirósarsvefni og dag nokkurn myndi ég uppgötva tilgang með lífinu. Ég ætlaði að bíða eftir því að á vegi mínum yrði sá sem ég vildi eyða lífinu með, vinnan sem ég vildi vinna og áhugamál sem myndi gagntaka mig.

Ýmist öfundsjúk eða reið

- Auglýsing -

Næstu ár liðu eins og í hálfgerðum draumi. Ég vann við hitt og þetta en fann til lítillar gleði. Ég kynntist strák sem ég var með um tíma en það var eins með samband okkar og allt annað, ég var hálfvolg en varla meira en það. Allt í kringum mig var fólk að gera áhugaverða og skemmtilega hluti. Vinkonur mínar luku námi, eignuðust eiginmenn og börn. Þær voru óskaplega uppteknar af því sem þær voru að gera og töluðu varla um annað en nýja starfið, íbúðina sína, karlinn og krakkana. Stundum öfundaði ég þær af þessari gleði og áhuga en þess á milli var ég hreinlega reið og pirruð yfir því hvað þær gátu gert mikið úr því sem í raun var nauðaómerkilegt.

„Ég veit ekki af hverju ég var eins og ég var. Kannski að sumu leyti vegna þess að heima hjá mér var lítið talað um tilfinningar og hver og einn fjölskyldumeðlimur var að mestu látinn í friði með sitt.“

Sjálfsagt hefði ég getað farið í gegnum lífið án þess að finna nokkurn tíma til heitra tilfinninga en þegar ég var um þrítugt ákvað ég að taka þátt í námskeiði sem ég sá auglýst í blöðunum. Fyrirlestrarnir á því námskeiði breyttu lífi mínu. Ég fór að gera mér grein fyrir að aðrir voru ekki alltaf stöðugt fullir af orku, gleði og áhuga. Það koma stundir í lífi allra þar sem þeir þurfa að gera sér upp gleði og ánægju. Áhugi á einhverju viðfangsefni er líka eitthvað sem kemur og fer aðalatriðið er að sýna þrautseigju og halda sig við efnið þar til áhuginn grípur fólk að nýju.

Ég veit ekki af hverju ég var eins og ég var. Kannski að sumu leyti vegna þess að heima hjá mér var lítið talað um tilfinningar og hver og einn fjölskyldumeðlimur var að mestu látinn í friði með sitt. Bróðir minn var í fótbolta og við fórum aldrei á leiki hjá honum og það var ekki talað um það neitt sérstaklega ef honum gekk vel. Jú, mamma sagði til hamingju þegar hann sagði henni frá einhverju slíku en við tókum lítinn þátt hvert í annars gleði.

Breytt um lífsviðhorf

Upp frá þessu ákvað ég hins vegar að breyta um lífsviðhorf og neyða sjálfa mig til að finna fyrir áhuga og gleði gagnvart því sem ég var að gera. Á hverjum degi talaði ég við sjálfa mig um það hversu gaman mér þætti að þessum og hinum verkefnum í vinnunni og hvað önnur væru mun óáhugaverðari. Ég fór líka að stunda líkamsrækt og ákvað að mér þætti gaman að því. Brátt fór að bera á ýmsum breytingum á lífi mínu og þeim sem voru í kringum mig.

Yfirmaður minn kom einn daginn og hrósaði mér fyrir vel unnin störf. Hann sagðist hafa tekið eftir auknum áhuga og meiri vandvirkni hjá mér. Nokkru seinna var mér boðin stöðuhækkun og nýja starfið reyndist enn skemmtilegra en það gamla. Mér gekk líka mjög vel í líkamsræktinni og ég náði góðum árangri. Það hvatti mig áfram og ég kynntist fólki sem stundaði ákveðna íþrótt í sömu líkamsræktarstöð og ég var í og slóst í hópinn. Þetta varð skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem ég tók lengur þátt í því og skyndilega var ég komin með áhugamál sem ég talaði nánast látlaust um.

„Dag nokkurn kom hann hins vegar til mín og bauð mér á kaffihús og þar með varð ekki aftur snúið.“

Ég kynntist manninum mínum í líkamsræktinni og við áttum margt sameiginlegt. Ég var búin að horfa á hann lengi áður en hann leit á mig. Þegar mér leiddist æfingarnar stytti ég mér stundir við að ímynda mér að við værum að kyssast og allt varð umsvifalaust bærilegra. Hann sýndi mér engan sérstakan áhuga og ég var alltof feimin til að þora að gefa eitthvað í skyn. Dag nokkurn kom hann hins vegar til mín og bauð mér á kaffihús og þar með varð ekki aftur snúið.

Í dag eigum við tvö börn og ég er sjálfsagt algerlega óþolandi því ég tala svo mikið um þau. Bæði eru í íþróttum og það skemmtilegasta sem ég geri er að fara og horfa á kappleiki hjá þeim og öskra mig hása. Við hjónin stundum enn sportið okkar og það eru frábærar stundir. Við höfum líka gaman af að ferðast með börnin en eitt af því sem okkur finnst mikilvægast af öllu er að hvetja hvort annað og að öll fjölskyldan taki þátt í því sem fjölskyldumeðlimir hafa áhuga á.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -