Laugardagur 28. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Ég þekki einmana fólk sem fáa grunar að sé einmana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Steingrím Sævarr Ólafsson

Maðurinn einn er ei nema hálfur,

með öðrum er hann meiri en hann sjálfur

-Einar Benediktsson

Það er líklega fátt verra en einmanaleiki. Að upplifa félagslega einangrun, að finnast maður yfirgefinn, einn, vinafár, jafnvel vinalaus, að maður sé ekki nógu góður eða skemmtilegur. Í eðlilegu árferði er það nógu erfitt, á Covid tímum talsvert meira og svo bætum við jólamánuðinum sjálfum við, þegar allir eiga nóg með sig og sína nánustu, stress nær hámarki og tilfinningin er sú að maður EIGI að vera glaður og sáttur. Slíkar tilfinningar fara illa í sálartetrið. Til að bæta gráu ofan á svart sýna rannsóknir að einmanaleiki er beinlínis líkamlega óhollur, hann hefur bein áhrif á heilsu og jafnvel lífslíkur. Svo einmanaleiki er vondur bæði fyrir sál og líkama.

Samkomubann, heimsóknarbann, lokanir staða…allt hefur þetta síðan ýtt undir enn meiri einmanaleika hjá fjölmörgum. Jú, við vitum örugglega öll af einmana fólki, eldra fólki, sjúklingum og svo mætti áfram telja. Sumir eru einmana af því að þeir eiga fáa vini, hafa lítið stuðningsnet, eiga litla fjölskyldu, vinna á fámennum vinnustöðum eða eiga í erfiðleikum með að tengjast öðrum félagslega. Aðrir verða einmana í kjölfar skilnaðar, andláts maka, uppsagnar á vinnustað. Ástæðurnar eru margar, greiningin margslungin, en einkennin eru ekki alltaf áberandi út á við. Einmanaleiki sést nefnilega ekki utan á fólki.

- Auglýsing -

Þá hefur verið sýnt fram á að samfélagsmiðlar hafa ýtt undir og ýkt einmanaleika hjá mörgum. Glanstjöldin sem blakta svo skært en enginn fær í raun risið undir. Það er auðveldara að þykjast vera allt annað en einn, að þykjast vera félagsvera við bjarma tölvuskjásins eða símans, þegar raunveruleikinn er allt annar. Því bjartara sem glanslífið á skjánum oft er, því dimmara er heima við.

Ég þekki einmana fólk sem fáa grunar að sé einmana. Fólk sem póstar svo oft skemmtilegum hlutum, myndum og uppákomum á Facebook og Instagram. Það er stundum að fela vanlíðan, vansæld og einmanaleika. Sumar færslur eru kall á hjálp. Og ég held að einmanaleiki sé algengari en við höldum. Ég held nefnilega að öll séum við stundum einmana. Bara mismikið.

Sjálfur á ég yndisleg börn, frábæra vini og góða fjölskyldu. En þegar kvölda tekur eða þegar helgarnar renna upp, þá hef ég stundum fundið fyrir einhverju sem ég hef hingað til kallað eirðarleysi. Mér fannst það alltaf svo fínt orð yfir það sem var að gerast. „Ég er eitthvað eirðarlaus, ég ætla í göngu“, hef ég sagt. Ég reyni að vera duglegur að vera með fjölskyldunni, hitta vinina, en það eru takmörk fyrir því hvað maður getur lagt á fólkið í kringum sig. Það á sína fjölskyldu sem það þarf að sinna, aðra vini og hugðarefni.

- Auglýsing -

Ég hef aldrei litið á sjálfan mig sem einmana. En það rann upp fyrir mér um daginn, þar sem ég sat heima, horfði í gaupnir mér og tók svo fram gönguskó, keyrði út í bláinn og gekk í þrjá tíma til þess eins að þreyta mig svo ég myndi sofna fyrr um kvöldið, að já, ég get verið einmana. Ég kallaði einmanaleikann bara öðru orði, ég kallaði hann eirðarleysi, til að mér liði betur. Ég þurfti ítarlega sjálfskoðun og fullkominn heiðarleika við sjálfan mig til að viðurkenna staðreyndir. Já, ég er stundum einmana. En vitiði…ég er bara mannlegur, mér má alveg stundum líða illa, sakna, vilja félagsskap. Það er eðlilegt. Og ég þarf að mæta mér, sýna mér mildi og skilning. Að viðurkenna og takast svo á við verkefnið. Og þau eru alltaf næg verkefnin. En ég vil líta út á við, horfa til annarra sem eru að glíma við þennan fjára og ég held að við þurfum að gera það öll.

Það eru svo margir sem eru einmana, sem þurfa á félagsskap að halda, þurfa á þér að halda. Heimsókn, símtal, tölvupóstur, spjall á Messenger. Allt getur hjálpað. Maðurinn er félagsvera, hann þarf annað fólk. Hann þarf tengingar. Nú í desember sérstaklega. Eins og Einar Ben orðaði það í hendingunni í upphafi færslunnar, þegar maður er einn, þá er maður bara hálfur. Maður þarf félagsskap til að verða heill.

Eigum við að gefa hvert öðru það í jólagjöf í ár að hafa samband við fólkið okkar, vinina okkar og gera eitthvað í þessu? Það er nefnilega sælla að gefa en þiggja…vinskap og tengingar.

Höfundur er fjölmiðlaráðgjafi og almannatengill undir Sævarr slf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -