- Auglýsing -
Um helgina munu upprunalegir liðsmenn hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar Eikar rifja upp tímabilið frá 1975 til 1977, þegar hljómsveitin var upp á sitt besta, og leika lög af hljómplötunum Speglun frá 1976 og Hríslunni og strauminum frá 1977, ásamt eldra efni.
Báðar þessar plötur fengu mikið lof og var Eik meðal annars kosin hljómsveit ársins 1976 af íslenskum blaðamönnum. Enn eru allir liðsmenn Eikar starfandi við tónlist og hafa sett mark sitt á íslenska tónlistarsögu.
Í hópinn hafa bæst fjórir söngvarar og aukahljóðfæraleikarar. Tónlistarveislan fer fram í Græna hattinum, Akureyri, föstudagskvöldið 31. maí kl. 22.