Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Ekkert neikvætt að vera nörd

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands, prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni. Unnur hefur lengi unnið að rannsóknum á þeim áhrifum sem áföll hafa á andlega- og líkamlega heilsu fólks. Hún leiðir rannsóknina Áfallasaga kvenna og er í forsvari fyrir Íslandshluta fjölþjóðlegrar rannsóknar á líðan þjóðar á tímum Covid-19 sem verið er að vinna. Hún segist sjálf hafa verið heppin í lífinu og ekki lent í stórum áföllum, en henni þyki afskaplega áhugavert að skoða afleiðingar áfalla og hversu mikil áhrif tilfinningar okkar hafa á heilsu okkar.

Unnur Anna Valdimarsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Eftir stúdentspróf frá MA lá leið Unnar í HÍ og það var sálfræðin sem varð fyrir valinu. Fljótlega vaknaði áhugi hennar á því að rannsaka hvaða áhrif áföll hefðu á andlega og líkamlega heilsu fólks og lokaverkefni hennar við Háskólann fjallaði um um tengsl áfalla við þróun krabbameina. Í doktorsverkefninu við við Karolinska Institutet í Stokkhólmi tók hún þá rannsókn svo skrefinu lengra og skrifaði um andleg og líkamleg áhrif þess á konur að missa maka sinn úr krabbameini. Hvernig stóð á því að þessi mál heltóku huga hennar?

„Það einhvern veginn æxlaðist þannig,“ segir Unnur hugsi. „Mér fannst þetta samband áfalla og heilsufars svo spennandi, sérstaklega sá möguleiki að áföll gætu haft áhrif á líkamsstarfsemi okkar og þar með gert okkur berskjölduð fyrir hinum ýmsu sjúkdómum. En rannsóknir á þessu sviði voru þá – fyrir aldarfjórðungi síðan – nokkuð skammt á veg komnar og flestar voru þær það takmarkaðar að erfitt var að draga af þeim óyggjandi ályktanir. Þessar spurningar heilluðu mig gjörsamlega og mig langaði til að leggja mitt af mörkum til að við öðluðumst betri skilning á áhrifum áfalla á heilsufar þeirra sem fyrir þeim verða, ekki bara andlega heilsu heldur sér í lagi líkamlega. Mér finnst einnig mjög áhugavert hvernig margir þeir sem lenda í slíkum hremmingum hafa seiglu og þrautseigju til að halda áfram með líf sitt og halda heilsu. Ég vonast til að þessar rannsóknir okkar geti meðal annars kennt okkur hvernig efla megi þessa þætti þannig að stækka megi þann hóp sem á afturkvæmt heilsufarslega í kjölfar áfalla.“

Stigma að vera eiginkona fótboltamanns?

Ástæða þess að Svíþjóð varð fyrir valinu fyrir doktorsnámið var ekki síst sú að þáverandi kærasti og núverandi eiginmaður Unnar, Pétur Marteinsson, fór á samning hjá sænska fótboltaliðinu Hammarby og var síðan atvinnumaður í fótbolta í Svíþjóð, Englandi og Noregi í ellefu ár. Hvernig fór það saman að vera eiginkona fótboltamanns og vísindamaður? Er ekki ákveðið stigma bundið því að vera „footballer’s wife“ í Evrópu?

„Þú segir nokkuð,“ segir Unnur og hlær. „Jú, kannski hefur fylgt því ákveðið stigma eftir sjónvarpsþættina um konur knattspyrnumanna þar sem dregin var fram mynd af konum sem hugsuðu aðallega um útlitið og efnisleg gæði, voru svínslegar hver við aðra. En innihald þeirra þátta hefur samkvæmt minni reynslu óskaplega lítil tengsl við raunveruleikann. Þetta voru mjög góð ár, við kynntumst mörgu skemmtilegu fólki og eignuðumst góða vini á þessu flakki okkar um Evrópu. Ég var auðvitað alltaf með annan fótinn í Stokkhólmi, var á kafi í mínum vísindum og við upplifðum ekki þetta glamúrlíf sem margir tengja við líf atvinnumanna í fótbolta. Bæði leikmennirnir og eiginkonur þeirra eru bara ósköp venjulegt og gott fólk sem gaman var að umgangast og okkur þótti vænt um.“

- Auglýsing -

Alltaf verið nörd

Það fer ekkert á milli mála þegar talað er við Unni um rannsóknir hennar að hún er hugfangin af verkefnum sínum og þau eiga huga hennar allan. Ósjálfrátt hrekkur upp úr mér spurningin hvort hún hafi alltaf verið nörd, spurning sem vekur hjá henni mikinn hlátur.

„Ég lít alls ekki á það sem eitthvað neikvætt að vera nörd,“ segir hún og hlær enn meira. „Ég hef alltaf sökkt mér ofan í hluti og reynt að skoða þá frá öllum hliðum. Hef til dæmis mikinn áhuga á heimspeki og get algjörlega gleymt mér í því að grafa djúpt í hlutina og nánast lifa og hrærast í þeim. Fólk verður oft undrandi á því hvað ég fylgist illa með öðru en því sem ég hef áhuga á. Ég hef til dæmis aldrei hugmynd um það hverjir eru „frægir“ á Íslandi og þess vegna mikið í umræðunni. Það fer bara alveg framhjá mér. Ég hef verið svona síðan ég man eftir mér svo, já, sennilega hef ég alltaf verið nörd.“

- Auglýsing -

Lestu allt viðtalið við Unni í Vikunni sem kom í búðir í dag.

Kaupa blað í vefverslun

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -