Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir fylgdi föður sínum, Sveinbirni Bjarkasyni, í gegnum stigvaxandi alkóhólisma sem að lokum dró hann til dauða langt fyrir aldur fram. Sú reynsla hefur markað líf Guðrúnar Láru alla tíð en fyrir jólin sendi hún frá sér bókina Orðlaus þar sem hún kallast á við ljóð föður síns með upprifjunum á eigin reynslu. Hún segir vinnuna við bókina að mörgu leyti hafa verið frelsandi en hún glími þó enn við meðvirkni og aðrar afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma foreldris.

Guðrún Lára var ættleidd af Sveinbirni Bjarkasyni og Kristjönu Þráinsdóttur ásamt systur sinni sem er tveimur árum eldri. Hún þekkti aldrei kynföður sinn en hefur alltaf vitað af kynmóður sinni og verið í sambandi við hana annað slagið í gegnum tíðina. Framan af átti hún litríka og áfallalausa æsku og segist bara eiga góðar minningar um foreldra sína frá þeim tíma.

„Við pabbi vorum mjög náin,“ segir Guðrún Lára, sem reyndar er alltaf kölluð Lára, spurð um samband sitt við föður sinn. „Pabbi var hálfgerð ævintýrapersóna og náði vel til barna og við systurnar áttum margar eftirminnilegar og góðar stundir með honum í æsku. Þegar ég var sex ára missti pabbi fyrirtækið sitt og varð gjaldþrota og upp úr því byrjaði hann að drekka stíft. Hann hafði drukkið áður, en ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver vandræði. Mamma var flugfreyja og mikið að heiman, þannig að pabbi var mikið með okkur systurnar. En í kjölfar gjaldþrotsins misstu foreldrar mínir íbúðina sína í Árbænum og fluttu í miðbæinn í leiguíbúð. Pabbi átti erfitt með að sætta sig við þetta og deyfði hugann í drykkju sem ágerðist og var orðin dagleg. Það var eins og hann hefði verið rændur karakternum sínum. Hann stjórnaði okkur tilfinningalega og beitti okkur alvarlegu andlegu ofbeldi á þessum tíma. Þetta voru erfiðir tímar fyrir okkur öll þar sem við héldum alltaf í vonina um að hann myndi taka sig á, eins og hann lofaði svo oft. Því miður gerðist það ekki og drykkjan var orðin stjórnlaus. Hann hvarf heilu vikurnar og hann var farinn að beita mömmu líkamlegu ofbeldi þegar þau skildu. Þá hef ég verið níu ára.“

Reyndi að stjórna drykkju föðurins
Eftir að foreldrar hennar skildu umgekkst Lára föður sinn stopulla, en þær systurnar fóru þó alltaf til hans annað slagið og sóttu mikið í nærveru hans, að hennar sögn. „Ég sótti mikið í pabba,“ segir hún. „Hann drakk líka þegar við vorum hjá honum en hann reyndi að halda því innan marka á meðan. Ég vorkenndi honum og var einhvern veginn alltaf að reyna að passa upp á hann. Hélt að ef ég væri með honum þá myndi hann ekki drekka, en það var auðvitað ekki þannig. Ég sé það í dag að þetta var rosaleg meðvirkni, maður sækir í einhvern sem maður er að reyna að stjórna með því að koma inn hjá honum samviskubiti. Ég tuðaði oft í honum að hætta að drekka eins og ég veit að aðstandendur gera. Ég man vel eitt sinn þegar ég bað hann að gefa mér það í afmælisgjöf að hætta að drekka og hann svaraði því að hann skyldi hætta að drekka ef ég myndi hætta að borða nammi. Ég sé það auðvitað núna hvað hann var orðinn rosalega veikur, að segja þetta við við mig.“

„Ég kom oft þreytt og tætt í skólann þegar mamma og pabbi voru enn saman og var orðin félagslega einangruð. Sagði fátt og var orðin bæld í samræðum við vinkonur mínar. Það hafði áhrif á vináttuna og tengsl við skólafélaga.“

Spurð hvaða áhrif skilnaðurinn og ástand föðurins hafi haft á hana, hvort það hafi til dæmis haft áhrif á árangur hennar í skóla, segir Lára að það hafi sjálfsagt gert það að einhverju leyti, hún hafi verið berskjölduð og lent í hálfgerðu einelti af hendi nokkurra skólafélaga þegar verst stóð á heima fyrir. „Ég kom oft þreytt og tætt í skólann þegar mamma og pabbi voru enn saman og var orðin félagslega einangruð. Sagði fátt og var orðin bæld í samræðum við vinkonur mínar. Það hafði áhrif á vináttuna og tengsl við skólafélaga. Það endaði svo á því að ég var skilin út undan og gert grín að því hvernig ég hagaði mér.

Eftir að mamma og pabbi skildu og ég var hjá pabba kom ég líka oft seint eða mætti ekki þar sem pabbi var ekki í standi til að keyra mig í skólann, þá hringdum við inn veikindi. Þetta hafði þau áhrif að ég var óörugg með sjálfa mig og fannst eins og allir sæju í gegnum mig, vandamálin urðu stærri og ég gat ekki tjáð mig um þau.

Framan af átti Guðrún Lára litríka og áfallalausa æsku og segist bara eiga góðar minningar um foreldra sína frá þeim tíma.

Ég held að það gerist oft með krakka sem búa við slæmar heimilisaðstæður, þeir verða berskjaldaðir, þá er léttara fyrir hina krakkana að atast í þeim.

- Auglýsing -

Ég skammaðist mín líka oft fyrir pabba og fékk síðan samviskubit yfir því. Það fylgdi þessu endalaus togstreita. Einu sinni var ég að keppa í fótbolta og pabbi kom á leikinn. Hann var fullur og gólaði og öskraði inn á völlinn. Honum fannst hann vera hvetjandi og gerði sér enga grein fyrir því hvað þetta var orðið skammarlegt. Ég skammaðist mín mikið fyrir hvernig hann hegðaði sér og fann hvernig liðið mitt og þjálfarinn vorkenndu mér.“

Lára segist ekki hafa fengið mikla aðstoð við að takast á við þessar stríðandi tilfinningar, það hafi einhvern veginn ekki verið venjan á þeim tíma. „Kennarinn minn hafði samband við mömmu um að koma okkur systrum að hjá félagsráðgjafa í skólanum og við fórum þangað. Ég hefði örugglega þurft að ganga til sálfræðings á þessum tíma líka en þetta var bara öðruvísi í gamla daga, það var ekki eins aðgengilegt að fara til sálfræðings eins og er í dag.

Eftir að mamma og pabbi skildu giftist mamma öðrum manni og við fluttum í Mosfellsbæ. Þar fann ég meiri stöðugleika heima fyrir og átti auðveldara með sjálfa mig. Eignaðist yndislega vini sem ég held enn sambandi við og sjálfsmyndin efldist.“

- Auglýsing -

Líka reið við mömmu
„Mamma var ekkert voðalega hrifin af því að við værum svona mikið hjá pabba, en við vildum alltaf fara til hans og hann var yfirleitt edrú þegar hann kom að sækja okkur, svo hún gat lítið gert. Ég laug líka að mömmu, sagði að hann hefði verið edrú þótt hann hefði verið fullur og svona. Við vorum oft mjög tættar þegar við komum heim og vildum ekki ræða neitt um það hvernig dvölin hjá pabba hefði verið. En þetta var allt svo flókið, ég var eiginlega bálreið út í mömmu líka. Hún átti í fyrsta lagi ekkert að vera að skipta sér af þessu, þetta var pabbi okkar, en svo vildi maður líka að hún myndi taka utan um mann og hugga mann. Þetta var algjör tilfinningarússíbani.“

Lára segist hafa brenglaða mynd af nánum samböndum og það hafi kannski markað hana hvernig samskiptin við föður hennar voru. Hún eigi erfitt með að treysta og viti eiginlega ekkert hvað eðlilegt samband sé. „Mamma mín og stjúppabbi minn áttu vinalegt samband og það er ágætt viðmið. En það er eins og ég kunni ekki að meta þannig sambönd sjálf og ég finn það alveg að ég hrífst af mönnum sem eru líkari pabba. Það er eitthvað sem ég er að vinna í og er mjög sátt við að vera ein í dag.“

Um það bil að gefast upp
Þegar Lára var í framhaldsskóla var pabbi hennar nánast kominn á götuna og orðinn útigangsmaður, eða það sem kallað var á þeim tíma að vera að róni. Það hlýtur að hafa verið erfið reynsla. „Pabbi eignaðist líka aðra konu sem var okkur systur minni mjög góð og við eigum enn í dag í góðu sambandi við. Þau voru saman í nokkur ár en undir það síðasta var samband þeirra slitrótt og átakanlegt. Pabbi var orðinn mjög veruleikafirrtur og illa haldinn af sínum sjúkdómi. Eftir að þau skildu var niðurleiðin hröð. Hann fluttist milli íbúða en gat ekki staðið í skilum með leiguna og kom sér fjárhagslega og andlega á mun verri stað. Hann bjó oftast nálægt miðbænum og umgekkst fólk sem var í slæmu ástandi líka. Um þetta leyti hætti ég að mestu að fara heim til hans, en ég reyndi samt að halda sambandi við hann þótt það væri erfitt. Hann var oft týndur eða hafði lent í slagsmálum og lenti stundum upp á spítala nær dauða en lífi af drykkju og vímuefnum. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þegar hann hafði verið lagður inn með gröft í lungunum og eitrun í blóðinu og læknarnir sögðu okkur að það væri óvissa um ástand hans. Ég vonaði þó að hann myndi fara í meðferð. En daginn eftir mætti ég upp á spítala og þá var hann farinn, hann hafði farið í spítalasloppnum með æðalegginn hangandi framan á sér. Þá fékk ég nánast taugaáfall. Ég skildi ekki hvernig hægt var að hleypa manninum út og átti áhrifaríkt samtal við hjúkrunarkonu. Hún benti mér á að það væri ekki hægt að halda fólki óviljugu á spítalanum en ég gæti mögulega farið fram á að svipta hann sjálfræði tímabundið. Ég fór heim til hans til að athuga hvort hann væri þar og það reyndist rétt. Hann leit hræðilega illa út, var gulleitur á hörund og gröftur lak úr hendinni á honum. Hann gat ekki talað og augnaráð hans var fjarrænt. Ég bað hann að koma með mér aftur upp á spítala en hann hlustaði ekki. Hann gekk út í átt að Austurvelli. Ég gekk á eftir honum og sá hvernig fólk starði á hann. Hann gekk beint inn í ríkið og reyndi að kaupa sér áfengi en hafði bara tekið notað símafrelsiskort með sér. Ég borgaði fyrir hann og hljóp í burtu. Þessum tímapunkti í lífi mínu gleymi ég aldrei. Pabbi sagði mér þó síðar að hann hefði farið aftur upp á spítala um nóttina og svo í framhaldinu á geðdeild.“

„Það var partí heima hjá honum þar sem 16 ára stúlku var nauðgað hrottalega af tveimur mönnum inni á baðherbergi. Hann sjálfur var áfengisdauður inni í svefnherberginu á meðan því stóð og mundi ekkert.“

Lára segist á þessum tíma hafa verið um það bil að gefast upp á föður sínum og það sama hafi gilt um alla aðra sem þekktu hann. „Vinur minn sagði mér einu sinni af því þegar hann hitti pabba niðri í bæ í slæmum fráhvörfum og gaf honum peninga fyrir afréttara og mat. Frænka mín grét eitt sinn í jólaboði eftir að hafa hitt pabba á bekk í bænum. Sumir sem þekktu hann vildu ekki sjá hann, urðu reiðir og kölluðu hann aumingja. Ég gerði allt þetta líka. Ég hitti hann líka stundum í misjöfnu ásigkomulagi. það var sárt að sjá hann og ég skammaðist mín fyrir hann. En það erfiðasta var að hann vildi ekki hjálp og ég gat ekkert gert sama hvað ég reyndi.“

Lára segir fyrstu árin eftir að faðir hennar dó hafa einkennst af því að hún hafi keppst við að gera hluti sem hún vissi að hann hefði orðið stoltur af.

Sveinbjörn dó af völdum alkóhólismans þegar Lára var tuttugu og fjögurra ára, en áður hafði hann náð að vera edrú í tvö ár og þau ár voru afar mikilvæg fyrir Láru. „Pabbi var á botninum þegar hann tók þá ákvörðun að verða edrú. Nánustu ættingjar og vinir voru alveg búnir að loka á hann og það hefði ekki komið mörgum á óvart að hann hefði dáið á þessum tíma. Hann bjó á Snorrabrautinni þegar hræðilegur atburður gerðist sem varð til þess að hann tók sig á og varð edrú,“ segir Lára og þagnar. „Það var partí heima hjá honum þar sem 16 ára stúlku var nauðgað hrottalega af tveimur mönnum inni á baðherbergi. Hann sjálfur var áfengisdauður inni í svefnherberginu á meðan því stóð og mundi ekkert. Hann kenndi þó sjálfum sér um þetta og sá að hann vildi ekki lifa svona lengur. Hann hafði oft farið í meðferð áður en aldrei náð tökum á edrúmennskunni en í þetta sinn fór hann í gegnum allan meðferðarpakkann og var edrú í tvö ár eftir það. Sá tími var okkur dýrmætur og hann vildi allt fyrir okkur systur og barnabörn gera, enda var hann ljúfur og góður maður. Þetta var eins og fá pabba aftur.“

Gat loks fyrirgefið mér
Sælan entist ekki lengi og Sveinbjörn fór að drekka aftur, sú drykkja dró hann hratt til dauða. Meðan hann var edrú hafði hann ætlað sér að gefa út ljóðabók eftir sig og aðra sem höfðu gefið honum ljóð á förnum vegi. Sú bók átti að heita Orð. „Ég hafði hvatt hann árum saman til að safna ljóðum sínum og halda utan um þau og hann gerði það. Hann var kominn langt á leið með að setja ljóðin sín saman í bók áður en hann datt í það. Þegar hann var svo fallinn reyndi ég að fá hann til að verða edrú aftur og lofaði að aðstoða hann með bókina. Þá sagði hann kaldhæðnislega að ef hann lifði það ekki að bókin kæmi út ætti hún að heita Orðlaus. Þegar hann dó sat ég uppi með heilan helling af ljóðum, bæði eftir hann og aðra. Ég tók þau ljóð sem ég vissi að voru hans en það eru þrjú ljóð í bókinni sem gætu mögulega verið annarra en þau fylgdu honum og eiga greinilega erindi hvort sem þau eru hans eða annarra.

Daginn fyrir afmælið hans, 25. október 2007, var ég að bíða eftir honum heima hjá honum. Þegar hann kom heim var hann með kippur af bjór og orðinn léttur. Hann hafði verið á brúninni með að falla og hafði dottið tvisvar í það áður en þarna vissi ég að hann var fallinn. Ég varð gjörsamlega eyðilögð. Ég gekk út frá honum eftir að hafa sagt alls konar leiðinlega og særandi hluti við hann. Hann reyndi að hringja í mig en í fyrsta sinn ákvað ég að loka á hann og svaraði honum ekki. Ég hélt þá að ég væri að gera rétt og þetta myndi jafnvel hafa áhrif á að hann hætti. Ég hitti hann einu sinni aftur áður en hann dó. Þá kom hann í vinnuna til mín fullur og ég vildi ekki sjá hann. Ég heyrði af honum og þá var hann á stanslausu fylliríi og orðinn illa haldinn á sál og líkama. Ef ég ætti að ráðleggja sjálfri mér í dag, myndi ég ekki loka á hann. Ég hefði viljað svara símanum og segja honum að ég elskaði hann, þótt ég gæti ekki talað við hann núna.“

Spurð hvort hún hafi leitað sér hjálpar við að vinna úr tilfinningunum sem þessi reynsla hefur valdið segist Lára ekki hafa gert mikið af því. „Ég hef ekki farið til sálfræðings en ég hef verið að vinna úr þessu með góðri konu og mér hefur loksins tekist að fyrirgefa sjálfri mér,“ segir Lára og greinilega er stutt í kökkinn í hálsinum. „Það tók mig alveg svakalega langan tíma að fyrirgefa mér.“

Forðaðist sjálfa sig
Lára segir fyrstu árin eftir að faðir hennar dó hafa einkennst af því að hún hafi keppst við að gera hluti sem hún vissi að hann hefði orðið stoltur af. Hún fór til dæmis í íþróttafræði og útskrifaðist sem íþróttafræðingur, vann við að kenna súlufimi og líkamsrækt í nokkur ár.

„Ég gerði þessi ár eiginlega að keppni við sjálfa mig,“ útskýrir hún. „Ég var alltaf að ögra sjálfri mér og flýta mér að klára þetta eða hitt. Ég held að það hafi verið mín leið til að reyna að komast undan sorginni. Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó, en ég einhvern veginn lokaði á allar tilfinningar, ég gat til dæmis ekki grátið, ég hló bara þegar eitthvað var sorglegt. Fólki fannst þetta mjög skrítið og ég stóð mig að því að gera mér upp grát þegar ég vissi að maður ætti að gráta. Seinna kom það svo aftan að mér, ég var orðin rosalega þung og eirðarlaus en djöflaðist bara áfram og lét eins og þetta væri ekkert mál. Ég gleymdi alveg að líta inn á við og þekkti ekki sjálfa mig, var bara svakalega hörð og lét eins og ég gæti allt. Síðan kom að því að ég meiddist illa í vinnu og gat ekki lengur gert það sem ég var vön að gera og þá breyttist allt. Þótt það hafi verið vont að meiðast var þetta samt gott fyrir mig. Ég neyddist til að stoppa og fara að skoða sjálfa mig og hvernig mér leið í raun og veru.“

„Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó, en ég einhvern veginn lokaði á allar tilfinningar, ég gat til dæmis ekki grátið, ég hló bara þegar eitthvað var sorglegt. Fólki fannst þetta mjög skrítið og ég stóð mig að því að gera mér upp grát þegar ég vissi að maður ætti að gráta.“

Lára var alltaf með það í bakhöndinni að gefa ljóð föður síns út. Hún ætlaði upphaflega að gefa út hefðbundna ljóðabók og fór á námskeið í skapandi skrifum 2012 hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Þar byrjaði hún hins vegar að skrifa sínar eigin minningar út frá ljóðunum sem hún hafði setið á í fimm ár. Þorvaldur og hópurinn hennar hvöttu hana áfram og hún sendi Þorvaldi uppkast að bókinni í febrúar 2013. Þá nótt lést Þorvaldur og hún tók sér langa pásu frá bókinni eftir það. „Árið 2016 var ég nokkurn veginn búin að gefast upp á bókinni. Þá kom vinkona mín í heimsókn til mín til Noregs þar sem ég bjó þá og ég sagði henni frá handritinu. Hún hvatti mig til að klára bókina og fékk tengdamömmu sína, Helgu Haraldsdóttur, til að aðstoða mig. Sú yndislega kona sneri mér í hring og gaf mér ráð sem breytti mörgu fyrir mér. Hún sagði mér að vera ég sjálf í minningunum mínum. Áður hafði ég búið til sögur eða verið einhver annar í minningunum. Það var erfitt að verða ég, en ég er mjög sátt við það í dag.

Að skrifa um mína eigin upplifun var afar hreinsandi fyrir mig. Eins konar heilun og það er meginmarkmið mitt með þessari opinberun að fá börn og unglinga sem eiga erfitt með að tjá sig, til að skrifa og koma hlutunum frá sér. Í dag er ég flugfreyja og einstæð móðir sex ára stelpu. Við mæðgur erum samrýndar og ég geri mitt besta til að sinna móðurhlutverkinu og búa til góðar og eftirminnilegar minningar fyrir hana. Ég skrifa enn og á minn fantasíuheim sem ég hverf inn í öðru hvoru. Það besta við söguheiminn er að hann er óendanlegur og maður getur gert og skapað það sem manni sýnist.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -