Skapti Hallgrímsson, blaðamaður og ljósmyndari, sendi á dögunum frá sér bókina Ævintýri í Austurvegi – Strákarnir okkar á HM í Rússlandi. Bókin er í dagbókarformi og lýsir upplifun Skapta á ævintýrinu sem þátttaka Íslands var á mótinu.
„Strax og Ísland tryggði sér sæti á HM hugsaði ég með sjálfum mér að ég yrði að vera viðstaddur ævintýrið. Ég var íþróttafréttamaður í fjöldamörg ár og íþróttafréttastjóri á Morgunblaðinu og þó svo að blaðamennska mín hafi um árabil snúist um annað en íþróttir að mestu leyti hafa þær aldrei verið langt undan og fótbolti er eitt af mínum helstu áhugamálum,“ segir Skapti sem hefur meðfram störfum sínum á Morgunblaðinu skrifað um fótbolta í mörg ár fyrir erlenda fjölmiðla, fyrst og fremst Kicker í Þýskalandi en líka tímaritið World Soccer í Englandi og svolítið í frönsk blöð.
„Ég var á EM í Frakkklandi og gat ekki sleppt því að fara til Rússlands. Ég var strax staðráðinn í því að skrifa bók um HM því mér fannst að ítarleg umfjöllun um þátttöku Íslands yrði að vera til þegar fram liðu stundir. Var með ýmsar hugmyndir en bókaútgáfan Tindur leitaði svo til mín og ég sló til; hafði nokkuð frjálsar hendur og fannst dagbókarformið heppilegast til að ná fram stemningunni sem ég vildi koma til skila. Ég sótti um og fékk aðgang sem ljósmyndari á mótinu, eins og stundum áður síðustu ár, vildi frekar vera niðri við völlinn þar sem nærveran við leikmennina og aksjónið er eðlilega meiri en úr blaðamannastúkunni. Ég vildi líka taka sem flestar myndir í bókina sjálfur, því ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“
Bókin er upplifun Skapta á þátttöku Íslands á mótinu í víðu samhengi. „Ég skrifa um fótboltahliðina og alls kyns mannlífsefni í bland. Um leikina þrjá fjalla ég svo sérstaklega og ítarlega, á „íþróttasíðulegan“ hátt; segi frá helstu atvikum, birti margvíslega tölfræði og ummæli leikmanna, þjálfara og fleiri að leik loknum. Í bókinni eru um 200 ljósmyndir, þar af um 170 sem ég tók sjálfur, en nokkrar eru frá vinum mínum í hópi íslensku ljósmyndaranna sem voru á HM, mest Eggerti Jóhannessyni á Mogganum sem á til dæmis myndina á bókarkápunni, og Þorgrími Þráinssyni, starfsmanni landsliðsins, sem á nokkrar myndir sem hann tók á bak við tjöldin.“
„Nú þarf alltaf að bíða lengi eftir því að leikmenn komi í viðtal eftir leiki, eftir að þeir hafa farið í sturtu og sjænað sig, einmitt þegar blaðamenn eru í mikilli tímaþröng að kvöldi.“
Samskiptin við leikmenn breytt
Stemningunni á ferðalaginu eru gerð skil á skemmtilegan og lifandi hátt í bókinni og hún er dýrmæt heimild um ævintýrið. „Fjölmiðlamenn hitta leikmennina reyndar mjög lítið, við gátum fylgst með hluta æfinga liðsins á hverjum degi, alla daga voru nokkrir leikmenn sendir til að spjalla við fjölmiðla í stutta stund áður en æfing hófst og svo var hægt að ræða stuttlega við þá eftir leiki á sérstöku svæði. Önnur voru samskiptin ekki. Margt hefur því breyst að þessu leyti, væntanlega til batnaðar fyrir leikmenn því þeir verða fyrir mjög litlu áreiti, en starfsumhverfi fjölmiðla er verra að sama skapi. Nú þarf alltaf að bíða lengi eftir því að leikmenn komi í viðtal eftir leiki, eftir að þeir hafa farið í sturtu og sjænað sig, einmitt þegar blaðamenn eru í mikilli tímaþröng að kvöldi. Í gamla daga var nánast hægt að ræða við leikmenn hvenær sem var fyrir leiki og eftir leiki gekk maður galvaskur inn í búningsklefa strax eftir landsleik og spurði menn spjörunum úr, í orðsins fyllstu merkingu. Gekk jafnvel á eftir mönnum með blað og blýant inn í sturtuklefann ef með þurfti.“
Skapti segir að viðmótið í Rússlandi hafi alls staðar verið gott. „Rússar gerðu hvað þeir gátu til að allt yrði eins og best væri á kosið og tókst það sannarlega. Svo hafði ég líka gaman af því að leiða hugann að öðru en fótbolta, til dæmis í Volgograd, áður Stalíngrad, þar sem sagan umlykur mann hvar sem komið er, enda orrustan um borgina í seinni heimsstyrjöldinni einn mesti hildarleikur seinni tíma. Ekki er hægt að segja að gaman hafi verið að skoða hið magnaða minnismerki, Móðurlandið kallar, styttuna risavöxnu sem gnæfir yfir borgina, en það var ótrúlega magnþrungið að koma á staðinn. Ég hef víða komið en minningargarðurinn í Volgograd er einhver magnaðasti staður sem ég hef heimsótt.“
Uppsögnin kom í opna skjöldu
Mitt í gleðinni sem fylgir útkomu bókarinnar hefur Skapti fengið sinn skerf af mótlæti en honum var nýlega sagt upp starfi sínu á Morgunblaðinu til 40 ára. „Ég var fastráðinn í 36 ár en byrjaði að skrifa fyrir blaðið fyrir nákvæmlea 40 árum, þegar ég var í fyrsta bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Við réðum okkur, tveir 16 ára vinir, til að skrifa um íþróttir í blaðið að norðan. Ég var á íþróttadeildinni frá 1982 til 1998, þar af sem fréttastjóri rúmlega síðasta áratuginn. Síðan hef ég fjallað um allt milli himins og jarðar, tilheyrði lengst af ritstjórn Sunnudagsblaðsins,“ segir Skapti og aðspurður segir hann að uppsögnin hafi komið honum í opna skjöldu. „Tilfinningin var óneitanlega vond. Ég hef verið blaðamaður á Morgunblaðinu alla mína starfsævi og uppsögnin var því mikið áfall. Ekki bætti úr skák að tveimur dögum áður var ég að dytta að húsinu mínu en féll úr stiga, eina þrjá metra niður á malbik, og mölbraut á mér olnbogann. Hugsaði strax að þetta væri ekki heppilegustu meiðsli blaðamanns.“ Skapti hætti strax, vinnur ekki uppsagnarfrest. Hann er búsettur á Akureyri og sér fyrir sér að starfa þar áfram sem blaðamaður og ljósmyndari. „Ég flutti aftur heim fyrir nærri tveimur áratugum og get sinnt margvíslegum verkefnum þaðan. Er til dæmis með tvær bækur á teikniborðinu nú þegar,“ segir hann brattur.
Nýja bókin hefur þegar fengið góð viðbrögð og þeir sem hafa séð gripinn eru hrifnir, að sögn Skapta. „Það gleður mig vissulega, enda mikið lagt í verkið og ég er mjög ánægður með hvernig til tókst. Ég er viss um að þeir sem voru á HM endurupplifi ævintýrið með því að glugga í bókina og þeir sem ekki fóru muni upplifa það sem fram fór.“