Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Straujar þú kortin fyrir ruslatunnuna?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nútímafólk virðist haldið margvíslegri söfnunaráráttu. Eitt af því sem það safnar er matur í skápana sína. Afleiðingin af því er að margt fólk hendir fleiri þúsundköllum í viku – beint í ruslatunnuna.

 

Straujar þú peningakortin þín reglulega fyrir ruslakistuna? Ég þekki margt fólk sem gerir það, jafnvel nokkrum sinnum í viku, þrátt fyrir að fólk sé orðið meðvitaðra um það sem heitir matarsóun. Það fer í ísskápinn sinn og hendir mat sem það keypti fyrir nokkrum dögum. Þetta fólk gerir sömu mistökin dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og jafnvel ár eftir ár – það kaupir of mikið inn. Fólk hendir peningunum sínum eins og það eigi nóg af þeim en hluti af því kvartar svo sáran yfir þeim blóðpeningum sem fara í matvæli því verðið sé svo svívirðilega hátt. ,,Maður líttu þér nær“ hefur nú stundum verið notuð af minna tilefni.

Nú væri daglegt matvælahamstur af þessu tagi skiljanlegt ef engar væru sólarhringssjoppurnar eða ef afgreiðslutími verslana hefði styst verulega á síðustu árum en hvorugt er raunin. Hömlur á verslun með mat og óáfenga drykki eru engar, allt fæst og nóg af því ólíkt því sem tíðkaðist á haftaárunum og eldri kynslóðir muna ef til vill enn eftir. Það er þó engu líkara en að yngri kynslóðirnar, sem fyrir helgar storma á milli rekka og kúffylla stórar innkaupakerrurnar, búist við mjög svo hamlandi hamförum – eftir helgarnar. Magn matvælanna í körfunum virðist ekki aðeins duga fyrir vísitölufjölskyldu nútímans heldur hálft ættarmót en samt eru slíkir fagnaðir fátíðir í tengslaleysi nútímans.

Pakkamatur fyrir móðuharðindin

Fólk byrjar á því að setja kælivörurnar inn í ísskáp, ægilega ánægt með sýnilegan árangur verslunarferðarinnar. Ísskápurinn hjá sumu fólki sem ég þekki er svo troðfullur að það er varla hægt að loka honum. Niðursuðudósir og pakkamatur flæða þar að auki út úr skápunum, því alltaf er keypt eitthvað nýtt í hverri ferð. Fólk er nefnilega löngu búið að gleyma hvað það keypti í síðustu ferð svo að það kaupir nokkrar dósir af Ora-baunum og Maggi-súpum til viðbótar. Nokkrir hafa ekki enn náð sér eftir að Bónus og Krónan fóru að selja lífrænt ræktað grænmeti og finnst sem þeir fái aldrei Sollu-tómatsósu á jafngóðu verði aftur. Sumir sem ég þekki gætu áreiðanlega lifað góðu lífi yfir léttu móðurharðindatímabil bara á matvælunum sem þeir eiga.

En sem sagt, eftir að fólk er búið að kroppa í eitthvað af birgðunum sem það keypti fyrir „ættarmótið“ byrjar það fljótlega að henda mat, m.a. vegna þess að þeir telja hann hafa afar takmarkað geymsluþol sem er rétt og þarf að haga innkaupum eftir því. Þetta er ekki fólk sem er ríkt og nöldrar samt sífellt yfir því hvað matvæli eru dýr hér á landi á meðan sannleikurinn er sá að það nýtir ekki matinn nægilega vel. Það er eins og fólk hafi ekki uppgötvað að matvæli bera eiginlega neikvæða vexti því þau skemmast og fyrnast mjög hratt. Fólk á að hafa það í huga við matarinnkaup.

- Auglýsing -

Dulbúin peningasóun

Fólk tekur því reglulega peninga út úr bankanum til þess eins að henda þeim í ruslatunnuna með viðkomu í eldhússkápunum. Sumir eins og ekkert sé, aðrir fussa og sveia og þykjast ekkert skilja af hverju svona mikið af matnum fer í ruslið. Halló! Of mikil innkaup, einhver? Ég er nefnilega viss um að þetta sama fólk myndi aldrei tína þúsund þúsundkallana úr veskinu sínu og henda þeim í ruslatunnurnar. Þetta gera hins vegar margir, með einni viðkomu – það dulbýr peningasóunina í matvælum.

Það er að öllum líkindum hagstæðara að kaupa minna en meira, jafnvel þótt farið sé í lágvöruverðsverslanir.

Nú kann einhver að spyrja: „Á fólk þá bara að hætta að kaupa í matinn? Auðvitað ekki. En það verður að læra listina að í matinn fyrir sig sjálft eða raunverulega fjölskyldustærð ekki fyrir ættarmótið sem er haldið svo sjaldan. Gott er að gera áætlanir um máltíðir nokkra daga fram í tímann og skipuleggja innkaup samkvæmt því. Notið svo kæliskáp og frystinn til að geyma viðkvæm matvæli sem hafa lítið geymsluþol svo hann fari ekki til spillis. Það er ekki eðlilegt að kasta mat fyrir þúsundir króna í viku, þó að það væri ekki nema þúsundkall. Það á að vera metnaður heimilisrekanda að henda eins litlu af matarpeningunum í ruslið og kostur er – helst engum. Það er mögulegt og í raunar ekki svo erfitt. Fólk öðlast engin lífsgæði fyrir peningana í ruslatunnunni auk þess sem minni matarsóun verndar náttúruna.

- Auglýsing -

Það er að öllum líkindum hagstæðara að kaupa minna en meira, jafnvel þótt farið sé í lágvöruverðsverslanir. Matvælin þar kosta einnig fé. Magninnkaup eru ekki í öllum tilfellum þau hagkvæmustu. Það má líka alltaf nálgast bráðnauðsynlegar jafnt sem ónauðsynlegar nýlenduvörur í næstu búð sem yfirleitt er ekki fjarri heimilum fólks. Það má tvinna saman hreyfingu og innkaupin með því að ganga út í búð tvisvar til þrisvar í viku en það er ódýrara en að fara á líkamsræktarstöð. Hreyfingin og skynsamleg matarinnkaup og mataræði gerir líka mikið fyrir heilsuna. Talandi um að slá tvær flugur í einu höggi.

Líftími matvæla er misjafn

Það er auðvitað nokkuð misjafnt hversu miklum peningum fólk hendir í viku en margt smátt gerir eitt stórt, t.d. yfir mánaðartímabil eða allt árið. Matvæli eru misjafnlega viðkvæm fyrir geymslu til lengri tíma.

Salöt og kryddjurtir hafa t.d. stuttan líftíma. Gosdrykkir verða fljótt goslausir og enda oft í ruslinu daginn eftir að þeir eru opnaðir. Brauð er einnig viðkvæmt sem og bananar, ferskt pasta og kjúklingur svo aðeins nokkuð sé nefnt. Jarðarberin hafa alveg ótrúlega stuttan geymslutíma að því er mörgum finnst.

Mjólkin flýgur fljótlega því sumir telja að þeir fái matareitrun ef þeir drekka mjólkina sama daginn hún er dagsett best fyrir.

Ótrúlegasta fólk hendir t.d. heilli melónu af því að því finnst svo langt síðan það keypti hana og telur að farið að slá í hana eða hendir ársgömlum pakkamat. Það er því nauðsynlegt að vera meðvitaður um líftíma matvæla og haga verður innkaupum eftir því sem og skipulagningu matseðilsins sem fram undan er. Er t.d. hægt að nota einhver matvæli í tvær máltíðir og nýta þau því betur?

Stríðið við matarsóunina er endalaust en vinna má margar orrustur. Það er æfingin sem skapar meistarann.

Texti / Unnur H. Jóhannsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -