Lífsreynslusaga úr Vikunni
Ég fór í árshátíðarferð til útlanda fyrir mörgum árum með samstarfsfólki mínu. Strax í flugvélinni á leiðinni komst ég að því að þetta yrði engin skemmtiferð.
Þeir sem ég þekkti einna best á vinnustaðnum ætluðu ekki í ferðina en ég ákvað samt að drífa mig vegna þess að Guðbjörg, hress stelpa sem vann á sömu deild og ég, hvatti mig til að koma og hún ætlaði að vera með mér í herbergi á hótelinu. Það var aðallega hjónafólk sem ætlaði í ferðina, enda voru makar velkomnir með. Ég hafði ekki ferðast mikið um ævina og fannst öryggi í því að vera með Guðbjörgu en aðalatriðið var samt að mér fannst ekki koma til greina að fara ein í skemmtiferð til útlanda. Ég hafði unnið þarna í tæpt ár og fyrirtækið var það stórt að erfiðara var að kynnast fólki en í smærri fyrirtækjum.
Fyrirtækið styrkti okkur um hluta af fargjaldinu og restin var dregin af laununum í nokkra mánuði, þannig gat ég leyft mér þetta. Ferðin stóð frá föstudagsmorgni til sunnudagskvölds. Hluti starfsfólksins fór reyndar á laugardagsmorgni og var til mánudagskvölds en ég kaus að fara á föstudeginum. Ég lagði sjálf fyrir mánaðarlega til að geta keypt mér gjaldeyri.
Lífsbaráttan var hörð á þessum árum. Ég var ein með tvö börn og langvarandi veikindi þess yngra höfðu farið mjög illa með fjárhaginn.
Mér fannst ég eiga skilið að gera eitthvað fyrir sjálfa mig, svona einu sinni. Ég fékk frænku mína til að vera hjá börnunum og var því alveg áhyggjulaus.
Áfall í flugvélinni
Ég svaf lítið fyrir tilhlökkun nóttina fyrir brottför. Guðbjörg sótti mig og þegar við komum út á völl tékkuðum við okkur saman inn. Vegna þess sem gerðist skömmu síðar olli það mér furðu að hún hafi setið hjá mér í vélinni.
Það var heilt ævintýri að fara í gegnum Fríhöfnina fyrir manneskju sem ferðaðist svona sjaldan. Loks vorum við kölluð út í vél og ævintýrið hófst fyrir alvöru. Á þessum tíma var borinn fram matur í vélunum og á meðan við borðuðum talaði ég um það skemmtilega sem við gætum gert í útlandinu. Allt í einu greip Guðbjörg fram í fyrir mér og sagði stirðlega: „Heyrðu, ég vona að þú verðir ekki fúl en ég verð víst ekkert með þér í herbergi um helgina!“ Þarna tilkynnti hún mér að hún hefði ákveðið að verja helginni með ungum manni úr fyrirtækinu sem hún var nýbyrjuð að vera með.
„Af hverju sagðir þú mér þetta ekki fyrr? Ég get ekki hugsað mér að vera ein alla helgina,“ sagði ég miður mín. Guðbjörg reyndi að afsaka sig en ég gat ekki sagt að þetta væri allt í lagi, ég var gráti næst og þetta var ekkert allt í lagi.
Það varð lítið um kveðjur á flugvellinum þegar á áfangastað var komið. Það biðu okkar tvær merktar rútur sem óku okkur á hótelið. Ég fór í aðra þeirra og Guðbjörg í hina, ég sá að hún sat hlæjandi og glöð hjá kærastanum.
Einmana í stórborg
Ég kom ég mér fyrir á herberginu, kveikti á sjónvarpinu og reyndi ákaft að sjá björtu hliðarnar við að vera í útlöndum. En ég var sársvekkt og fannst ég hafa verið illilega svikin. Mér fannst erfitt að vera ein, þannig hef ég alltaf verið og er enn.
Líklega hefði ég eytt síðdeginu og kvöldinu fyrir framan sjónvarpið ef ég hefði ekki verið svona svöng. Ég vissi að flestir, ef ekki allir, ætluðu út að borða. Mér fannst eitthvað svo aumkunarvert að fara ein á veitingastað svo ég ákvað að kaupa mér bara hamborgara. Sem betur fer hafði ég rekið augun í Burger King á leiðinni á hótelið. Hamborgarann tók ég með mér upp á herbergi og borðaði hann þar. Mér leiddist svo mikið að ég hringdi kollekt í börnin mín og spjallaði við þau í smástund. Svo grét ég mig í svefn.
Ég var ögn bjartsýnni næsta morgun og ákvað að kíkja á borgina. Ekki þorði ég þó að taka lest eða strætó niður í miðborg, heldur hélt mig í nágrenninu. Þarna var nokkuð af búðum og ég náði að kaupa nokkrar jólagjafir, jólaföt á börnin og fallegan jakka á sjálfa mig. Það var lán í óláni fyrir mig að hótelið var vel staðsett upp á búðir að gera. Föt voru miklu ódýrari þarna en heima á Íslandi.
Ég borðaði síðbúinn hádegisverð á hamborgarastaðnum mínum góða, spjallaði aðeins við hresst starfsfólkið og hélt röltinu áfram. Það var frekar kalt í veðri svo ég dreif mig heim á hótel. Árshátíðin var haldin í sal þar og átti að hefjast klukkan sjö, enn voru nokkrir klukkutímar í það. Mig langaði ekkert rosalega mikið að fara en hugsaði þó með mér að þarna gæti ég sparað mér matarkostnað og kannski gæti ég hitt einhverja sem væru til í að verja með mér morgundeginum en brottför var ekki fyrr en seint kvöldið eftir.
Ég var með þeim fyrstu sem mætti í salinn. Okkar beið fordrykkur í boði fyrirtækisins sem bauð líka upp á matinn. Ég blandaði geði við fólkið sem var mætt, í þeirri von að það byði mér að setjast hjá sér en hvert borðið af öðru fylltist af hjónafólki og pörum og hvergi virtist vera laust pláss fyrir eina manneskju. Ég ákvað því að setjast sjálf við borð og bíða eftir því að fólk settist hjá mér. Loks komu hjón sem ég kannaðist aðeins við, þau unnu bæði með mér en á annarri deild. Ég brosti mínu blíðasta og reyndi að spjalla við þau. Tvær miðaldra konur, greinilega góðar vinkonur, settust líka hjá okkur.
Borðhaldið var ansi pínlegt þótt ég reyndi mitt besta til að hressa upp á það. Hjónin töluðu lítið og bara hvort við annað og vinkonurnar tvær yrtu ekki á mig heldur, sátu bara með fýlusvip og kvörtuðu yfir matnum. Leiðinlegasta fólkið í fyrirtækinu hafði greinilega sest við borðið hjá mér. Stórkostlegt! Mér fannst þetta þó ekki fyndið fyrr en löngu síðar.
Ég reyndi að gera það besta úr stöðunni og hló manna hæst að skemmtiatriðunum þótt þau væru frekar ófyndin og þegar farið var að dansa dreif ég mig upp á herbergi.
Besti vinur Burger King
Ég hringdi aftur kollekt í börnin mín þetta kvöld. Þau urðu voða glöð þegar ég sagði þeim að ég hefði fengið flott jólaföt á þau og að ég ætlaði að kaupa jólasælgætið í Fríhöfninni á leiðinni heim. Svo væru einhverjir jólapakkar líka en þau fengju ekkert að vita um þá. Síðan fór ég upp í rúm og horfði á sjónvarpið þar til ég sofnaði.
Næsta morgun dreif ég mig á kaffihúsið og hádegismatinn borðaði ég að vanda á Burger King. Starfsfólkið þar var farið að þekkja mig og heilsaði mér glaðlega.
Kvíðahnúturinn í maganum hafði minnkað aðeins, ég var líka orðin heimavanari … og orðin besta vinkona starfsfólksins á Burger King.
Ég sat hjá indælum hjónum í flugvélinni á heimleiðinni og spjallaði heilmikið við þau. Þau voru á bíl og buðu mér far með sér í bæinn sem ég þáði þakklát. Við Guðbjörg höfðum talað um á leiðinni út á Leifsstöð að ég færi samferða henni heim aftur en ég gat ekki hugsað mér að tala við hana.
Einelti á vinnustað?
Guðbjörg var afsakandi í vinnunni næsta morgun þegar hún bauð mér góðan dag. Ég lét eins og ég sæi hana ekki og horfði í gegnum hana. Þessi manneskja hafði haft nægan tíma til að láta mig vita af breytingunum svo ég gæti gert aðrar ráðstafanir, fundið annan til að vera með á herbergi eða sleppt því að fara. Mér fannst hún ómerkileg og hafði engan áhuga á því að þekkja hana. Vinnan okkar skaraðist ekki svo ég þurfti ekki að tala við hana.
Nokkru seinna var ég kölluð inn til yfirmannsins og mér til undrunar tjáði hann mér að Guðbjörg hefði sakað mig um einelti á vinnustað. Ég varð mjög hissa og sagði honum eins og var, ég treysti mér ekki til að tala við hana eftir að hún eyðilagði fyrir mér árshátíðarferðina. Ég væri ekki nógu fölsk til að geta komið fram við hana eins og ekkert hefði ískorist. Ég hefði aldrei lagt nokkra manneskju í einelti og ég hlyti að ráða því hvort ég talaði við fólk eða ekki. Þetta bitnaði ekki á vinnunni, ég skilaði mínu og hún eflaust sínu. Hún hefði ekki einu sinni beðið mig afsökunar, bara sagt að sér þætti þetta leiðinlegt en … Það ætti ekki að eyðileggja líf hennar þótt ein manneskja af öllum þessum fjölda talaði ekki við hana, það væri ekki einelti. Yfirmaðurinn reyndi að tala um mikilvægi góðs starfsanda og ég talaði um orsök og afleiðingu. Guðbjörg yrði að skilja að hún gæti ekki sært og svikið aðra manneskju án þess að eitthvað gerðist. Ekki talaði ég illa um hana við neinn, ekki reifst ég við hana og ásakaði, ég bara útilokaði hana.
Ekki varð meira úr skömmum, enda var yfirmaðurinn sammála mér um að þetta væri ekki einelti. Hann sagðist þó vona að við sættumst og allt yrði gott.
Ég hélt mínu striki og talaði ekkert við Guðbjörgu. Það liðu einhverjir mánuðir í viðbót þangað til hún sagði upp og hætti og mig grunar að þetta hafi átt einhvern þátt í því. Daglega var hún minnt á það sem hún gerði, ég var löngu hætt að láta hana pirra mig, hún var bara ekki til í mínum huga. Hún bar sig þó greinilega upp við samstarfsfólkið en ég held að hún hafi fengið litla samúð frá því.
Á meðan ég vann hjá þessu fyrirtæki fór ég á allar árshátíðir, bæði innan- og utanlands, og skemmti mér konunglega. Ekkert á borð við það sem gerðist í kringum fyrstu árshátíðina gerðist nokkurn tíma aftur.
Löngu seinna áttaði ég mig á því að þögn og útilokun er miklu verri „hefnd“ en mig hafði órað fyrir. Á meðan maður sýnir viðbrögð eru þó einhverjar tilfinningar í spilinu, á borð við reiði, sorg, ást eða hatur, en þegar maður útilokar fólk getur það ekkert gert. Ég skildi þetta fyrir nokkrum árum þegar ég hætti endanlega að tala við mann sem ég hafði elskað heitt og gefið ótal tækifæri þótt hann ætti það ekki skilið. Þegar ég loks lokaði á hann brást hann mjög illa við, hringdi stöðugt, skrifaði mér, sendi SMS, ók í sífellu fram hjá heimili mínu og allt í þeim dúr. Þögnin og útilokunin fór alveg með hann.