Eftir Ástu Guðrúnu Guðbrandsdóttur
Oft heyrir maður „þú ert það sem þú borðar“ en ertu þá ekki einnig sem þú hugsar?
Hefur þú spáð í því hver þú ert? Hvernig hefur þú gert það og hvernig litar það lífið þitt? Lifir þú eftir þínum hugsunum eða hugsunum annarra, lætur þú hugsanir þínar eða annarra stjórna þínu lífi eða hefur þú stjórn á þeim? Þegar upp koma hugsanir í kollinn sem þú vilt ekki hafa eða vita af hvað gerir þú við þær? Við skulum skoða þetta aðeins nánar og sjá hvort við getum ekki haft meiri stjórn á þeim en við höldum.
Kanntu vel á þig og þínar hugsanir?
Hvernig er hugsanagangur þinn, eru hugsanir þínar neikvæðar, jákvæðar eða bland af hvoru tveggja? Eitt vitum við að þegar þú ert með neikvæðar hugsanir eru litlar líkur á framförum í lífinu. Maður kemst ekkert áfram heldur spólar í sömu hjólförunum. Til að ná árangri þarf jákvætt hugarfar að fylgja alla leið, þannig komumst við upp úr hjólförum og förum að láta okkur líða vel,
þannig framkvæmum við hluti í jákvæðu flæði. Það sem við sendum frá okkur hvort sem það er í orði eða orku kemur alltaf tilbaka til okkar en þó vitum við aldrei í hvaða formi eða hvenær eitthvað birtist í okkar lífi. Að breyta til dæmis neikvæðri umræðu getur verið mikil áskorun (á vinnustað, saumaklúbb, fjölskylduboði eða hvar sem er) yfir í jákvæða, það getur verið krefjandi en jafnframt góð æfing til að koma af stað jákvæðu hugarfari hjá sjálfum sér og í kringum sig.
Segjum að ef þú byrjar markvisst að huga að jákvæðu hugarfari og tekur af skarið og allir í kringum þig taka vel í það og verða sammála þér, þá byrjar þú að smita út frá þér þessu jákvæða hugarfar og orku. Og hvað haldið þið að komi í kjölfarið? Ef þú ert með lífsgildin þín á hreinu og jákvæða hugsun í fararnesti þá eru þér allir vegir færir og allar dyr standa þér opnar.
Gott að muna þegar neikvæðar hugsanir læðast inn:
- Segðu: Nei, góðan daginn hvað ert þú að gera hér, ég bauð þér ekki hingað inn. Prufaðu svo að snúa yfir í jákvæða – þetta er hægt!
- Ef þú breytir þinni hugsun mun það breyta þínum heimi.
- Hugsanir hafa orku – hafðu jákvæða orku.
- Þjáningar okkar stafa oft af hugsun.
- Þú þarft ekki að læra hvernig á að stjórna hugsunum þínum heldur þarftu bara að láta þær hætta að stjórna þér.
- Kenndu huganum þínum annars mun hann kenna þér.
- Hugsanir verða að hlutum, hvernig hluti vilt þú?
- Hamingjan í þínu lífi ræðst af gæði þinna hugsana
- Talaðu við sjálfan þig eins og þú myndir gera við einhvern sem þú elskaðir.
Þegar þú nærð góðri stjórn á þínum hugsunum verður lífið allt miklu einfaldara og skemmtilegra. Þú getur þannig látið gott af þér leiða.
Vertu smitberi á jákvætt hugarfar!
Greinarhöfundur er PCC Markþjálfi og félagskona í FKA