Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Ertu komin að hraðahindrun í sambandinu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ef við ímyndum okkur að ástin og rómantíkin séu þjóðvegur eitt þá er leiðin eftir honum almennt greið eða allt þar til menn renna inn á Blönduós. Þar eru hraðahindranir og löggan liggur í leyni, tilbúin að veita þeim tiltal sem fer of hratt. Á máli ástarinnar þýðir Blönduóslöggan að karlinn sé óþolandi í augnablikinu eða besti vinur hans skyndilega sá sætasti í heimi. Hvað er þá til ráða?

Hafðu ekki áhyggjur. Í öllum samböndum rekst fólk á hraðahindranir og galdurinn er bara að fara ekki of geyst yfir þær. Þessar hraðahindranir geta eyðilagt sambandið ef ekki er varlega farið. Hér á eftir fara nokkrar af algengustu ásteytingarsteinunum í ástarsamböndum fólks og hvernig best er að komast fram hjá þeim.

Kynlífið í klessu

Oftast nær er kynlífið mjög gott hjá ástföngnum pörum en það kann að vera að síðast þegar þið voruð saman hafi þetta ekki alveg gengið upp. Kannski varstu bara vandræðaleg og pirruð eftir á fremur en mjúk og fullnægð. Í augum sumra er slíkt byrjunin á endinum og merki um að ástríðan sé tekin að dala. Þannig er það ekki. Þetta er aðeins minni háttar lægð í annars fínu sambandi.

Kynlíf, rétt eins og aðrar mannlegar athafnir, fer eftir dagsforminu. Stundum er fólk vel fyrir kallað og gerir stórkostlega hluti en þess á milli þreytt, stressað og skapvont og það kemur niður á frammistöðunni. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur þótt kynlífið sé ekki alltaf mjög gott en ef þetta áhugaleysi og vanlíðan verður viðvarandi ástand er kominn tími til að spyrja sig hvers vegna kynlífið hefur dalað.

Fyrst af öllu skaltu velta fyrir þér hvort þetta gerist virkilega jafnoft og þér finnst. Náin samskipti eins og kynlíf eru viðkvæm og iðulega eiga menn það til að gera úlfalda úr mýflugu. Gerðist þetta vegna þess að eitthvað tilfallandi var að eða annað ykkar var ekki í stuði? Ef svo er ekki heldur finnur þú að undir niðri logar reiði og vonbrigði í garð makans þarf að ræða málin. Þegar þú hefur stigið fyrsta skrefið fellur venjulega allt í ljúfa löð. Í samböndum er nefnilega nauðsynlegt að ræða út um hlutina. Stundum sitja sárindi eftir rifrildi lengi í fólki, sérstaklega ef öðrum aðilanum finnst makinn ekki hafa nægilegan skilning á líðan hans. Slíkar tilfinningar geta haft áhrif á kynlífið.

- Auglýsing -

Hvað ef þinn fyrrverandi birtist skyndilega aftur?

Dag nokkurn þegar þú situr við skrifborðið í vinnunni hringir síminn. Þinn fyrrverandi er á línunni og hann á ekki orð yfir hversu mjög hann sér eftir öllum leiðindunum sem hann olli. Hann vill endilega hitta þig og fullvissar þig um að ekkert af því sem miður fór hafi verið þér að kenna. Þú ert tvístígandi því þú vilt ekki særa núverandi maka þinn en það er óskaplega freistandi að fá ofurlitla viðurkenningu frá skepnunni sem fór svo illa með þig. Hvað gerir fólk í svona aðstöðu?

„Jú, það er mjög gott að heyra frá fyrrverandi maka og fá loks fyrirgefningarbónina sem þú áttir skilið að fá,“ segir Mark Goulston, höfundur The Six Secrets of a Lasting Relationship. „En mundu að ef þinn fyrrverandi hefur samband við þig algjörlega upp úr þurru bendir það venjulega til að hann sé í einhverjum vandræðum. Svaraðu honum alls ekki af eða á strax. Bíddu í að minnsta kosti sólarhring. Það gefur þér tíma til að velta fyrir þér hvort þú virkilega viljir hitta hann aftur og eins gætir þú rætt það við núverandi maka þinn hvað honum finnst um málið. Umfram allt skaltu ekki setja samband þitt við hann í hættu.“

- Auglýsing -

Lokuð gata

Hraðahindranir eru auðveldar því þær má fara yfir með því að beita svolítilli lagni við aksturinn. Lokaðar götur eru annað mál og ef þær verða á vegi ykkar er ekki víst að sambandið þoli það. Alversta vandamál af þeim toga er samskiptaleysi. Ef samband á að endast verður parið að geta rætt um ágreiningsefnin. Ef annar aðilinn gefur alltaf eftir endar það venjulega með að hann gefst upp á sambandinu og fer. Sumir eru svo lokaðir að þeir vilja helst aldrei ræða neitt. Slíkir einstaklingar byrgja allt inni og springa að lokum. Hér eru viðhorf sem þið skulið forðast ef þið viljið að sambandið endist.

  • „Ég hef rétt fyrir mér og eins gott fyrir þig að viðurkenna það.“ Ef þú hefur þörf fyrir að hafa alltaf rétt fyrir þér skaltu gerast einbúi fjarri allri mannabyggð. Enginn getur þolað til lengdar manneskju sem alltaf setur sig á háan hest og þykist betri en aðrir. Leggðu þig fram um að skilja sjónarmið annarra. Í stað þess að segja: „Nei, þetta er ekki rétt,“ skaltu venja þig á að segja: „Já, ég skil af hverju þér finnst þetta. Hins vegar tel ég að þetta færi betur svona.“
  • „Mál? Er þetta eitthvert mál?“ Ef þú svarar maka þínum svona þegar hann bryddar upp á einhverju ertu að gera mjög lítið úr honum. Augljóslega hefði hann ekki hafið máls á þessu ef þetta skipti hann ekki einhverju máli. Sestu niður og hlustaðu, þú gætir lært eitthvað.
  • „Þetta er ekki mér að kenna.“ Hættu strax að reyna að koma sök á einhvern. Þið eruð tvö í þessu sambandi og það er aldrei einum að kenna þegar tveir deila. Spurðu heldur maka þinn hvað þú getir gert til að afstýra því að hann komi leiðinlega fram við þig. Kannski er eitthvað í þínu fari sem ergir hann óskaplega.
  • „Ég er bara svona og get ekki breytt því. Þú verður bara að taka mér eins og ég er.“ Sá sem slengir þessu fram og meinar það er augljóslega ekki sérlega ástfanginn. Þroski mannsins er fólginn í því að vera tilbúinn til að breyta vondum venjum og laga galla sína. Ert þú sjálf tilbúin að breytast? Ef þú ert það en hann ekki ættir þú kannski að velta því fyrir þér hvort hann sé rétti maðurinn fyrir þig.
  • „Þú ert alltaf eins. Þetta er nákvæmlega eins og það sem þú gerðir þarna um árið.“ Hugsaðu þig um. Er það virkilega þess virði að grafa alltaf upp gamlan skít. Er ekki hægt að ræða út um hlutina og gleyma þeim svo. Fátt fer meira í taugarnar á fólki en að vera stöðugt minnt á gamlar syndir. Reyndu heldur að ræða um þetta gamla, erfiða mynstur á nýjan hátt. Það gæti borið árangur.

Besti vinur hans er ótrúlega sætur

Besti vinur maka þíns er einhleypur, skemmtilegur, myndarlegur og á hraðri leið upp á við í vinnunni. Í hvert skipti sem þú hittir hann hitnar þér ofurlítið í kinnum og þú verður svolítið vandræðaleg. Stundum lætur þú þig jafnvel dreyma um að kyssa hann eða snerta hér og þar. Hann er besti vinur maka þíns og því erfitt að hætta að umgangast hann en jafnframt veistu að þú mátt aldrei láta undan þessum tilfinningum. Hvað þýðir það að vera svona veik fyrir öðrum manni sérstaklega þegar þú veist að fátt myndi særa maka þinn meira en ef eitthvað gerðist á milli ykkar?

Til að fá svar við þeirri spurningu verður þú að vera hreinskilin við sjálfa þig. Ertu virkilega hrifin af þessum manni eða kveikir hann bara á órum þínum vegna þess að hann er sá karlmaður sem þú hittir oftast fyrir utan makann? Getur verið að hrifning þín á honum stafi af því að undirmeðvitundin er að senda þér merki um að þú sért ekki ánægð í núverandi sambandi? Veltu því fyrir þér hvort það sem þér finnst aðlaðandi við vininn sé ekki það sem dró þig að makanum í upphafi.

Þegar við hrífumst af einhverjum höfum við tilhneigingu til að gera meira úr manneskjunni en efni standa til. Í okkar augum verður viðkomandi fallegri, skemmtilegri, gáfaðri og betri en hann er í raun og veru. Horfðu raunsætt á vininn og veltu fyrir þér hvort hann sé raunverulega eins gallalaus og þú hélst. Ef eitthvað er að sambandi þínu við makann skaltu reyna að leysa það með öðru móti en að stinga af með besta vini mannsins þíns. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -