Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

Fannst Berlín fyrst grá og guggin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þó að Margrét Rós Harðardóttir sé ávallt kennd við hóp sem kallar sig Berlínur í samnefndri borg þá var hún ekki spennt fyrir borginni í upphafi.

„Matthias maðurinn minn vildi fara til Berlínar. Ég var hins vegar ekki alveg á því, fannst hún allt of stór og mér fannst hún grá og guggin. En þá vildi það þannig til að við skruppum til New York og dvöldum þar í rúmar tvær vikur með strákinn okkar, þá átta mánaða. Þar gerðist það að ég gjörsamlega heillaðist af borginni og stórborgarlífinu og fékk löngun til að setjast að í stórborg. Þannig atvikaðist það að við fluttum til Berlínar. Það má því segja að ástin hafi leitt mig hingað til Berlínar,“ segir Margrét Rós sem stofnaði Berlínur árið 2014 með Katrínu Árnadóttur og síðan hefur fyrirtækið dafnað vel og stækkað. Fyrirtækið stendur fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum ferðum fyrir Íslendinga um Berlín, hjólaferðum, matarferðum, sögutúrum og árshátíðarferðum, svo fátt eitt sé nefnt.

Mundir þú segja eftir sjö ára búsetu í borginni að Berlín væri orðin þinn hjartastaður?

Það stendur ekki á svarinu. „Já svo sannarlega er hún það.“

Hvaða staðir eru það í Berlín sem þú mundir ráðleggja öllum að koma á?

„Ég mundi segja að heimsókn í Clärchens Ballhaus í Auguststrasse í Mitte sé eitthvað sem fólk megi bara ekki missa af,“ segir Margrét og hrifningin leynir sér ekki. „Þetta er sögufrægt og fallegt danshús. Skemmtilegar skreytingar á veggjum og stórsjarmerandi speglasalur á efri hæðinni. Þarna  dansar alla daga fólk af öllum þjóðernum og á öllum aldri. Þetta er yndisleg upplifun og maður þarf ekki að kunna neitt. Bara að vera með. Vissa daga er það tangó eða swing og á laugardagskvöldum er alveg klikkað diskó í gangi með hljómsveit. Á sunnudögum er bara kaffi og kökur og þá eru dansaðir valsar. Það er hægt að fá sér eitthvað gott í gogginn, fylgjast með og fá sér snúning. Stórkostleg skemmtun þar sem Berlínarbúar hittast, ungir og gamlir. Þarna er þversniðið af Berlín. Það er flest fólk um helgar og þá sér í lagi á laugardögum en á virkum dögum eru færri og þá er rólegra.

„Svo hef ég sérstakt dálæti á því hvernig Berlín sameinar náttúru og borg.“

Ég ráðlegg fólki líka að fara inn í hverfin og kanna þau, því hvert hverfi er heimur út af fyrir sig. Finna alla litlu staðina sem eru á hverju strái. Ég held líka mikið upp á Kollwitz Platz. Á torginu blasir við gríðarstór stytta af Käte Kollwitz sem var fyrst þýskra kvenna til að vera tekin inn í myndlistarakademíuna. Hún var róttækur mannvinur sem barðist allaf fyrir fátæka í Berlín eins og frábærar grafíkmyndir hennar og teikningar sýna.

- Auglýsing -
Olga Björt prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

Svo hef ég sérstakt dálæti á því hvernig Berlín sameinar náttúru og borg. Það eru margar strendur í Berlín við vötn sem leynast hér og þar. Á sumrin eru þetta unaðsreitir þar sem hægt er að kæla sig aðeins í vatninu og njóta þess að vera úti í náttúrunni, þó í borg sé. Fyrir alla þá sem hafa áhuga á mat mæli ég með ferð á Markthalle Neun í Kreutzberg. Þar er t.d. á fimmtudögum einstakur streetfood-markaður.“

Lestu viðtalið við Margréti í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar sem er í verslunum til 24. apríl.

Texti / Svala Arnardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -