Arkitektúr í París.
Þegar fólk hugsar um byggingarlist Parísar þá dettur því yfirleitt í hug Eiffel-turninn, Notre Dame eða jafnvel Pompidou-safnið. Í úthverfum borgarinnar leynast hins vegar gjörólíkar og mjög framúrstefnulegar byggingar sem vert er að skoða.
Í kjölfar loka seinni heimsstyrjaldar hófst gríðarlegur fólksflutningur til Parísar, bæði úr sveitum Frakklands og frá öðrum löndum. Borgaryfirvöld brugðu á það ráð að byggja stórar fjölbýlishúsasamstæður, grands ensembles, í úthverfum borgarinnar. Á sjötta áratugnum voru reistar byggingar í hinum hagnýta móderníska stíl, stórir háir turnar sem voru umluktir opnum grænum svæðum. Fljótlega upp úr 1970 byrjuðu arkitektar að aðhyllast frekar póstmódernisma sem einkenndist af fjölbreytileika, skrauti, húmor og vísun í fortíðina.
Á árunum á eftir risu fjölmargar skrautlegar samstæður. Hópur ungra frambærilegra arkitekta sá tækifæri í skipulagsuppdráttum fyrir ný úthverfi, villes nouvelles, til að láta ljós sitt skína. Þeir notuðu nútímalega byggingartækni til að sýna fram á að hægt væri að byggja fjölbýli fyrir félagsíbúðir á stórum skala án þess að fórna fegurðinni og glæsileikanum.
Ríflega þrjátíu árum eftir að þær voru byggðar liggja langflestar þessara bygginga undir skemmdum, enda hafa þær bara uppskorið háð og spott Parísarbúa í mörg ár. Því verður þó ekki neitað að arkitektunum tókst ætlunarverk sitt, að gera fólki kleift að búa í fallegum byggingum sem voru á viðráðanlegu verði. Þeir einbeittu sér þó kannski of mikið að útliti bygginganna og minna að því að skapa samfélag fyrir íbúana.
Les Espaces d’Abraxas er hugarfóstur spænska arkitektsins Ricardos Bofill. Hann vildi hanna glæsilegan minnisvarða fyrir hið nýja úthverfi Marne-La-Vallée sem einnig væri búið í. Byggingarstíllinn vísar mikið í klassískan franskan byggingarstíl en með nútímalegum stílbrigðum. Íbúðirnar í samstæðunni eru 591 talsins og skiptast í þrjá hluta. Le Palacio er 18 hæða blokkarbygging sem hýsir 441 íbúði. Le Théatre er bogadregin bygging sem myndar torg í miðjunni sem svipar til rómversks leikhúss og hýsir 130 íbúðir sem allar vísa bæði inn að torginu og út að París. Að lokum er L’Arc, lítil bygging í miðju torgsins, eins og sigurbogi, en sú bygging hýsir 20 íbúðir á 9 hæðum.
Byggingasamstæðan við Place Pablo Picasso er steinsnar frá Les Espaces d’Abraxas. Byggingarnar raðast í átthyrning og á sitthvorum endanum eru mjög sérstakar 17 hæða hringlaga byggingar. Samstæðan hýsir 540 íbúðir, leikskóla, gagnfræðaskóla, íþróttavelli og nokkrar verslanir. Heiðurinn af þessari heildrænu og metnaðargjörnu hönnun á Manolo Nunez Yanowsky en hann segir að hringlaga byggingarnar tákni hjól á vagni sem hefur hvolft.
Les Orgues de Flandre, sem þýðir í raun líffæri Flanders, er byggingasamstæða í 19. hverfi Parísar. Byggingarnar voru hannaðar af arkitektinum Martin van Trek um miðbik áttunda áratugarins en byggingu þeirra lauk árið 1980. Fjórir himinháir turnar einkenna samstæðuna þó að flestar bygginganna séu um fimmtán hæðir en þær ná yfir 6 hektara landsvæði.
Á útjaðri La Défense-viðskiptahverfisins rísa Les Tours Aillaud, nefndir eftir hönnuði þeirra Émile Aillaud. Samstæðan samanstendur af 18 turnum sem eru allt frá 13 og upp í 20 hæðir. Fyrir utan hæðarmismuninn er lögun turnanna sú sama, nokkrir samsettir sívalningar. Utan á klæðningunni eru freskur með skýjum og þess vegna eru byggingarnar stundum kallaðar Les Tours Nuages í daglegu tali, sem útleggst sem skýjaturnarnir á íslensku.
Önnur stórkostleg byggingasamstæða frá Ricardo Bofill er í úthverfinu Saint-Quentin-en-Yvelines skammt frá Versalahöll. Eins og Les Espaces d’Abraxas skiptist þessi byggingasamstæða í þrjá hluta: Le Viaduc samanstendur af 74 íbúðum í sex blokkum sem reistar eru í röð út í vatnið, tengdar samar með göngugötu og litlum brúm. Les Arcades du Lac eru fjórar kassalaga byggingar með sameiginlegum garði í miðjunni á hverri þeirra. Íbúðirnar eru 389 talsins, á þremur hæðum, sem allar snúa bæði inn að garði og út að umhverfinu. Le Temple er svo á hinum enda vatnsins en sá hluti samanstendur af meginbyggingu og tveimur bogadregnum byggingum sem hýsa 200 íbúðir. Bofill segist hafa viljað útfæra franskan garð, líkt og þann sem er við Versalahöll, þar sem byggingar kæmu í stað snyrtra runna og ef svæðið er skoðað úr lofti má sjá hvað hann átti við.
Texti / Hildur Friðriksdóttir