Hrönn Sveinsdóttir segir ótrúlegt, eiginlega draumi líkast að vera að fara af stað með flotta dagskrá í endurbættu Bíó Paradís, eftir allt sem á undan er gengið, en um tíma var framtíð bíósins í óvissu. Undanfarið hafa Hrönn, starfsfólk kvikmyndahússins og hópur sjálfboðaliða staðið í ströngu við endurbætur á húsinu og er óhætt að segja að kvikmyndagestir eigi von á góðu þegar þeir mæta í bíóið.
„Þetta er eiginlega draumi líkast, að geta loksins tekið húsið svolítið í gegn og svo vera komin með samning við ríki og borg til fimm ára og leigusamning til tíu ára. Við erum himinlifandi að geta haldið starfinu áfram. Bíó Paradís er auðvitað miklu meira en kvikmyndahús, það er líka menningarhús og ómissandi hluti af Reykjavík. Stórt skarð hefði verið höggvið í bíóflóruna og menningu borgarinnar ef það hefði þurft að hætta, margir hefðu séð eftir því,“ segir Hrönn Sveindóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar.
Eins og kunnugt er var á tímabili ekki útséð um hvort Bíó Paradís héldi áfram starfsemi. Samningar við ríki og borg voru í lausu lofti í ársbyrjun og ljóst að húsnæðisleigan á Hverfisgötu 54, þar sem kvikmyndahúsið hefur haldið úti starfsemi síðastliðin tíu ár, myndi hækka það mikið um mitt þetta ár að reksturinn stæði ekki undir því. Rekstraðilar þess leituðu því á náðir borgarinnar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins í von um fjárstuðning og í framhaldinu voru gerðar uppfærslur á samstarfssamningum við ríki og borg og samkomulag náðist við eigendur hússins. Undanfarnar vikur og mánuði hafa Hrönn, starfsfólk Bíó Paradísar og hópur sjálfboðaliða staðið í ströngu við endurbætur á húsnæðinu til að koma því í gott stand áður en það var opnað í vikunni, um svipað leyti og 10 ára afmæli Bíó Paradísar ber upp.
Fegin að losna úr vinnugallanum
„Ég var farin að sjá í hillingum að opna bíóið aftur og taka á móti gestum, það var fínt að komast úr vinnugallanum ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin,“ viðurkennir Hrönn og skellir upp úr.
Hún segir að síðustu vikur og mánuðir hafi farið í miklar framkvæmdir á húsinu, eða alveg frá því að ljóst var að bíóið héldi áfram starfsemi. „Þetta er búið að vera alveg brjáluð vinna, það verður að segjast eins og er. Við höfum unnið velflestar helgar í sumar og sum okkar hafa ekki einu sinni tekið sumarfrí. Við vorum ekki að vinna þetta eins og stórfyrirtæki með heilan her af verktökum, heldur erum við hópur kvikmyndagerðarfólks og áhugafólk um kvikmyndir sem gengum sjálf nánast í öll verk og höfum þurft að vera ansi útsjónarsöm og skapandi. Það var bara ekki annað í boði en að keyra þetta áfram til að geta opnað bíóið aftur núna, og það var vel þess virði því breytingarnar eru til mikilla bóta, bíóið hefur aldrei verið betra.“
„Við erum ekki að breyta þessu í einhvern fínan veitingastað sem fólk þorir varla að setjast inn á. Við viljum að öllum finnist þeir vera velkomnir og líði vel.“
Hrönn tekur fram að ekkert af þessu hefði þó verið gerlegt nema með hjálp öflugra sjálfboðaliða. „Nei, þetta hefði ekki verið hægt nema hingað hefðu komið hópar af velviljuðum sjálfboðaliðum sem bera hag Bíó Paradísar fyrir brjósti. Þeir hafa verið sveittir um helgar að hjálpa okkur og hafa staðið sig rosalega vel.“
Betri upplifun að öllu leyti
Spurð nánar út í framkvæmdirnar segir Hrönn að aðallega sé um að ræða endurbætur sem hafi fyrir löngu verið tímabærar. „Við endurnýjuðum meðal annars allt rafmagn og loftræstinguna líka, endurnýjuðum sjö ára gömul tæki, skiptum 20 ára gömlu sýningartjöldunum út fyrir ný þannig að myndgæðin eru nú eins og þau gerast best og hljóðeinangruðum salina betur, svo hljóðið berist ekki fram þegar verið er að sýna kvikmyndir og eins til að kliðurinn og skvaldrið sem myndast stundum frammi í anddyri þegar eitthvað skemmtilegt er um að vera berist heldur ekki inn í salina. Aðgengi fatlaðra og bætt salernisaðstaða verður síðan tekin fyrir næsta sumar,“ nefnir hún.
„Við gerðum líka upp sætin í sölunum í stað þess að kaupa ný, sem hefði bæði verið dýrara og flóknara, máluðum allt og í samstarfi við fyrirtækið Irmu bjuggum við til nýjan og flottan bar. Þetta er velflest eitthvað sem okkur hefur dreymt um að gera frá alveg því að við fluttum hingað inn fyrir tíu árum. Bíóið hefur í raun aldrei verið glæsilegra en á sama tíma er það alveg jafnkósí og áður. Við erum ekki að breyta þessu í einhvern fínan veitingastað sem fólk þorir varla að setjast inn á. Við viljum að öllum finnist þeir vera velkomnir og líði vel. Það verður jafngaman að koma hingað, öll upplifun verður bara betri.“
Pökkuð dagskrá
Hrönn viðurkennir að það hafi verið svolítill sprettur að ná að klára framvæmdirnar áður en bíóið var opnað á nýjan leik í núna í vikunni. „Þetta hefur verið svolítið streð og stress á lokametrunum þar sem við erum að fara af stað með stórglæsilega dagskrá,“ útskýrir hún. „Sumir verða hissa þegar þeir heyra það þar sem framleiðsla stöðvaðist að stórum hluta í Hollywood vegna kórónuveirufaraldursins, en okkar dagskrá samanstendur auðvitað líka af myndum annars staðar frá og prógrammið hefur satt best að segja aldrei verið þéttara af því að við þurftum að fresta svo mörgum sýningum og viðburðum í vor þegar faraldurinn skall á. Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, er opnunarhátíðin í ár, hún er haldin núna um helgina og eftir það rekur hver sýningin og viðburðurinn annan. Fyrir utan það snúa partísýningarnar á föstudögum aftur og svartir sunnudagar, þannig að þetta verður geggjað gaman!“