Mánudagur 18. nóvember, 2024
-4 C
Reykjavik

Fiðrildið, dóttir mín  

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég elska dóttur mína og hef alltaf haft lúmskt gaman af því hvernig hún lifir lífinu. Þrátt fyrir að hún sé alin upp á ofurvenjulegu heimili af mjög svo hversdagslegum foreldrum hefur litríkur persónuleiki hennar og val í lífinu ævinlega verið á skjön við hið hefðbundna. Helst dettur mér í hug að einhvers staðar í ættum okkar leynist ævintýrakvendi og gen hennar hafi öll safnast í þessa stúlku sem fer sínar eigin leiðir þvert á almenningsálitið.

Dóttir mín fór að heiman þegar hún var sextán ára gömul, okkur foreldrunum til mikillar skelfingar. Okkur fannst hún of ung og óreynd til þess að standa á eigin fótum en hún stóð fast á sínu. Hún var ekki nema sautján ára þegar hún fór utan til náms og næstu árin var hún á ferð og flugi um allan heim. Oft þótti okkur nóg um flakkið og við reyndum að fá hana til að setjast að á einum stað og fara að rækta garðinn sinn. Við það var ekki komandi jafnvel þótt hún hefði orðið ófrísk og eignast lítinn son. Þá fannst okkur sannarlega að nú yrði hún að breyta svolítið um lífsstíl, hún væri komin með barn á framfæri og yrði að taka tillit til þess.

En það er erfitt að kenna hundi að sitja, jafnvel þótt ungur sé. Það varð úr sonur hennar varð eftir hjá okkur þegar fiðrildið móðir hennar hélt af stað í næsta könnunarleiðangur. Þá var drengurinn raunar orðinn þriggja ára og mamma hans kom reglubundið heim til Íslands til þess að heimsækja hann. Af og til komu spennandi menn inn í líf hennar er hún er mjög hrifnæm og varð alltaf óskaplega ástfangin í hvert sinn. Kærastarnir áttu það sameiginlegt að vera listrænir, gáfaðir og heillandi en ekki að sama skapi traustir og umhyggjusamir. Þetta olli okkur foreldrum hennar miklum áhyggjum en hún virtist ekki gera sér neinar ranghugmyndir um þessa menn. Hún vissi að hverjir þeir voru og þegar þeir sviku varð hún leið og sorgmædd en engan veginn niðurbrotin. Þetta kom ekki á óvart.

Brúðkaup skipulagt

Með árunum róaðist hún svolítið og þar kom að hún settist að á Íslandi og fór að búa. En sú sambúð varði ekki lengi, aftur kom óróleikinn yfir dóttur mína og hún flutti til útlanda. Í þetta sinn tók hún son sinn með sér og það reyndist ansi erfitt fyrir afa og ömmu að sjá á bak honum. Auðvitað áttum við þá ósk heitasta að þessar perlur gætu fest rætur og þyrftu ekki að vera á þessum endalausa flækingi. Auðvitað höfðum við mikið samband gegnum samfélagsmiðla og með því að hringja þannig að við náðum að fylgjast mjög vel með lífi þeirra og framförum drengsins. Svo kom að því að hún kynnti fyrir okkur nýjan mann í gegnum Skype. Hann var nokkuð þekktur á listasviðinu í sínu heimalandi og kom ákaflega vel fyrir. Ég fór út og var hjá dóttursyni mínum um tíma svo unga parið gæti farið saman á stað þar sem hann þurfti að dvelja tímabundið vegna vinnu sinnar.

- Auglýsing -

Þegar ég var nýkomin heim eftir þessa heimsókn fékk ég tölvupóst frá dóttur minni. Hún bað mig vinsamlegast um að finna fallega litla sveitakirkju á Íslandi og bóka veisluþjónustu, helst í hlöðu í nágrenni hennar því nú ætluðu þau að gifta sig. Hún myndi sjá um að bjóða og væntanlegur brúðgumi að borga. Mér fannst þetta bera nokkuð brátt að og var ekki alveg viss um hvort ég ætti að fara af stað eða ekki en nokkrum árum seinna ítrekaði hún þetta svo ég setti allt á fullt að leita að stað sem myndi geta uppfyllt þessar óskir. Hann fannst um síðir norður í landi en þá kom annar tölvupóstur. Dóttir mín taldi að mun betra væri að gifta sig í heimalandi unnustans. Þar væri betra veður og vinir og vandamenn hefðu bara gaman af að ferðast til sólarlands til að vera viðstaddir brúðkaup.

Ég hringdi í hana og hún lýsti glöð fyrir mér litlu sveitakirkjunni sem þau höfðu fundið saman og sett upp hringana utan við. Dásamlega veitingastaðnum þar fyrir neðan þar sem veislan átti að fara fram og litlu hóteli sem rúma myndi alla vini og ættingja frá Íslandi. Og nú var allt sett á fullt. Boðskortin bárust að utan og um fátt annað var meira rætt í fjölskyldunni næstu vikur. Brúðkaupsdagurinn rann upp svo upp bjartur og fagur. Brúðurin var sannarlega glæsileg og falleg þegar hún settist í farþegasætið við hliðina á mér í bílaleigubílnum og við ókum af stað frá heimili hennar í átt að litlu kirkjunni þeirra. Í aftursætinu var dóttursonur minn og afi hans prúðbúnir og yndislegir, báðir tveir. Miðstöðin í bílnum var biluð og dagurinn óvenjulega heitur. Loftkælingin virkaði þess vegna ekki. Það lak því svitinn af öllum þegar á staðinn var komið þótt brúðkaupsklæðin væru mesta hýalín.

Hamingjan entist ekki

- Auglýsing -

Við stigum út úr bílnum og krullaðir lokkar, brúðar og móður hennar hengu nú sléttir og daufir niður. Víða mátti sjá svitabletti á kjólum og jakkafötum en við vorum komin og inn í kirkjuna var gengið. Þar inni var dásamlega svalt. Veggir gömlu kirkjunnar voru þykkir og kaldur steinninn hélt hitanum úti og rétt eins og hann varði fyrir kulda á veturnar. Maðurinn minn leiddi dóttur mína upp að altarinu til móts við manninn hennar tilvonandi. Brúðguminn brosti hamingjusamur og ástin ljómaði af þeim báðum. Ég man ég hugsaði með með að ég vildi óska þess að hamingja þeirra entist og allt yrði þeim til happs og gleði. Líklega deila allar mæður þessari ósk á brúðkaupsdegi barna sinna en mér fannst ég þurfa að vera enn bænheitari en aðrar konur í sömu stöðu í ljósi sögu dóttur minnar. Ég vissi sem var að fiðrildið mitt myndi ekki leyfa neinum að klippa af sér vængina.

„Dag nokkurn hringdi síminn minn á borðinu í vinnunni. Ég svaraði og í fyrstu skildi ég ekki hvað gekk á. Ég heyrði bara ekka og kjökur. Litli drengurinn minn, barnabarnið mitt var í símanum. Stjúpi hans hafði tekið brjálæðiskast og gengið í skrokk á móður hans.“

Ég vildi óska þess að sagan endaði vel eins og gömlu ævintýrin en því miður er það ekki svo. Fljótlega kom í ljós að maðurinn sem dóttir mín hafði valið var ólíkt fyrri kærustum hennar, ekki ábyrgðarlaus draumavingull og listamaður heldur ákaflega strangur og kröfuharður fagmaður. Hann var velstæður vegna dugnaðar í starfi sínu og því miður jafnharður í einkalífinu og utan þess. Ætlast var til þess að dóttir mín hugsaði um heimili þeirra, stórt og glæsilegt hús með sundlaug og tvöföldum bílskúr, eldaði handa honum mat, væri óaðfinnanlegur gestgjafi og stöðugt til taks að fara með ef hann þurfti í ferðalög eða á henni að halda. Hún reyndi í nokkur ár allt hvað hún gat að þóknast honum og á þeim tíma sá ég glóðina deyja í augum hennar og persónuleikann bælast sífellt meira.

Dag nokkurn hringdi síminn minn á borðinu í vinnunni. Ég svaraði og í fyrstu skildi ég ekki hvað gekk á. Ég heyrði bara ekka og kjökur. Litli drengurinn minn, barnabarnið mitt var í símanum. Stjúpi hans hafði tekið brjálæðiskast og gengið í skrokk á móður hans. Hún var á spítala og hann staddur á biðstofunni að bíða frétta. Einhver góður maður hafði rétt honum síma og sagt honum að hringja í einhvern sem gæti hjálpað honum. Við lá að ég trylltist en ég vissi að það myndi gera illt verra. Ég talaði rólega við drenginn minn og sagði honum að afi og amma væru að koma. Smátt og smátt stilltist gráturinn. Ég fékk svo að tala við manninn sem lánaði honum símann og hann tók niður símanúmerið mitt og fleiri upplýsingar fyrir læknana og hjúkrunarfólkið. Fljótlega fékk ég símtal frá dóttur minni. Hún var marin, bólgin og blá en óbrotin.

„Tengdasonur minn fyrrverandi reyndi mikið að nýta sér ástandið til að fá hana aftur með sér út en nú kom styrkur fiðrildisins míns í ljós. Hún hélt sínu striki.“

Ég fékk flug fyrir okkur daginn eftir út, mjög dýra miða en það var þess virði. Við komum mátulega til að afstýra því að dóttir mín fyrirgæfi tengdasyni mínum sem þá lá iðrandi og aumur heima. Við pökkuðum niður eigum þeirra mæðgina og skilnaðarferlið hófst. Rétt eftir að heim kom uppgötvaði dóttir mín að hún var ófrísk eftir þennan mann. Lítil stúlka kom í heiminn um svipað leyti og skilnaðurinn gekk í gegn. Tengdasonur minn fyrrverandi reyndi mikið að nýta sér ástandið til að fá hana aftur með sér út en nú kom styrkur fiðrildisins míns í ljós. Hún hélt sínu striki. Fyrrum eiginmaður hennar og barnsfaðir er stóreignamaður og hún gat komið undir sig fótunum og keypt íbúð hér eftir fjárskiptin. Margt hefur líka breyst, gamla eirðarleysið er horfið og hún hefur fundið kraftinum og tilfinningarótinu farveg í listsköpun. Ég er óskaplega hreykin af henni og oft lít ég á hana í dag og hugsa: Það þurfa ekki allir að velja beinu og venjulegu brautina. Krákustígarnir geta verið góðir líka.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -