Miðvikudagur 27. nóvember, 2024
4.7 C
Reykjavik

Fjölbreytt tíska undir áhrifum frá áttunda, níunda og tíunda áratugnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarið hafa tískurisarnir kynnt línur sínar fyrir komandi vetur og má með sanni segja að tískan sé fjölbreytt og undir áhrifum frá gömlum tíma. Því er engin ástæða til að leggja fögrum flíkum sem voru keyptar inn fyrir tveimur árum.

 

Svokölluð logo-tíska, þar sem fatnaður og fylgihlutir eru með stórum lógóum, hefur verið vinsæl í töluverðan tíma en var bersýnilega minna áberandi á tískupöllunum fyrir þennan vetur. Segja má að haust- og vetrartískan sé hreinlega eins og að ganga inn í second hand-verslanir, sem selja notuð föt og margar hverjar föt frá áttunda, níunda og tíunda áratugnum.

Ef til vill hafa tískuhönnuðirnir verið undir umhverfisáhrifum þegar þeir teiknuðu upp tískuna fyrir veturinn því það sem sjá mátti á tískupöllunum líktist helst því sem finna má í verslunum sem selja notað, eins og verslanir Rauða krossins og Spútnik. Ekki slæmt, því það er jú umhverfisvænni kostur. Greinilegt er líka að hönnuðir eru farnir að spá meira í umhverfið þar sem sífellt fleiri eru farnir að nota gervileður og -feldi í töskur og flíkur.

Samfélagið kallar á meiri meðvitund um umhverfisáhrifin og það er ógerlegt fyrir hönnuði að láta það sem vind um eyru þjóta.

Chanel sýndi svarthvítar köflur í kápum og drögtum. Dragtir eru flestar með axlapúðum.

Það sem var áberandi á tískupöllunum fyrir komandi vetur:
*Víðar, brúntóna trench-kápur.
*Mittisháar og víðar dragtarbuxur í öllum litum.
*Dragtarjakkar í alls kyns textíl með axlapúðum.
*Leðurjakkar og -kápur, hneppt alveg upp með boðung og yfirdekktum leðurhnöppum.
*Stórar, loðnar angórupeysur með púffermum
*Nylon-, palíettu- og blúndublússur með áföstum hálsklúti eða pífum

Kúrekastígvél og víð stígvél sem krumpast aðeins niður (skálmarnar gyrtar ofan í).

Bómullarpeysur og hettupeysur verða vinsælar áfram og sama má segja um rúllukragaboli og boli með háum kraga. Einnig eru spangir og alls kyns hárskraut í tísku ásamt beltum með keðju.

- Auglýsing -
Klassísk ullarkápa frá Pilippa K í camel-lit. Kápurnar eru í alls kyns stærðum og gerðum.

Allir litir ganga að einhverju leyti. Í mynstri og textíl eru köflótt mynstur, svarthvítar köflur og leður áberandi. Camel-liturinn kemur sterkur inn sem aldrei fyrr, þannig að ef þú lumar á camel-litaðri ullarkápu í fataskápnum ertu í góðum málum.

Kjólar í mismunandi síddum eru meira áberandi í léttari efnum, t.d. silki, og með púffermum. Hér má sjá einn slíkan úr smiðju Balenciaga. Bleiki liturinn heldur áfram að vera í tísku þrátt fyrir að sumarið sé á enda.

Alls kyns skrautlegar hárspangir og spennur verða áberandi í vetur. Þessar eru frá Prada.

Texti / Arna Atladóttir (Instagram @stilisti_maelir_med)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -