Ýr Þrastardóttir fatahönnuður hefur frá útskrift hannað undir eigin merki, stofnað fataverslun, unnið í leikhúsi og við kvikmyndir ásamt því að stílisera tónlistarmyndbönd en nú einblínir hún aðallega á sérsaumaðan fatnað undir fatamerkinu Another Creation.
„Ég fókusera mest á sérsaumaðan fatnað fyrir viðskiptavini samhliða því að koma fötum sem hafa verið framleidd, í sölu hér heima og erlendis. Fatamerkið mitt heitir Another Creation og er fókusinn á fjölnota fatnað sem hægt er að breyta með lítilli fyrirhöfn.“
Sjálf segist Ýr mest klæðast samfestingum og síðkjólum þegar hún er á leið eitthvað fínt en svartur litur er mest áberandi í fataskápnum. „Ég á endalaust af yfirhöfnum því það hefur verið aðalfókusinn hjá mér sem fatahönnuður. Yfirleitt geng ég á hælum en í sumar hafa íþróttaskórnir tekið aðeins yfir á daginn þar sem þeir eru þægilegir og í tísku. Stíllinn minn
er frekar klassískur en samt alltaf mjög ólíkur öllu öðru sem er í gangi því ég geng aðallega í eigin hönnun. Að mínu mati verða allar konur að eiga góðar yfirhafnir í fataskápnum sínum því það er nánast aldrei veður til að fara jakkalaus út á Íslandi. Þá er mikilvægt að eiga nokkrar fallegar yfirhafnir til skiptanna, alla vega einn leðurjakka, góða kápu, blazer og pels.“