Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Fjölskylda mín hefur oftar en einu sinni misst allt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir þremur árum tók rússneski hönnuðurinn og framkvæmdastjórinn með meiru, Anna Morris, við fjölskyldufyrirtækinu sem hannar og framleiðir prjónavöru. Það stofnaði móðir hennar upprunalega eftir fall Sovétríkjanna þegar efnahagsástandið var hvað verst og hefur reksturinn tekið á sig margar myndir síðan.

Í dag vinna áttatíu manns hjá þeim en nýverið stofnaði Anna íslenskan anga út frá því sem hún nefndi MJÚK Iceland. Hún flutti hingað til lands fyrir ári síðan eftir að hún kynntist íslenskum manni sínum í lyftu á leið upp í Hallgrímskirkjuturn. Anna segist vera búin að sækja um að breyta eftirnafni sínu í Nikúlásdóttir, í anda íslensku hefðarinnar. Hún er af rússnesku bergi brotin og fædd í Úkraínu árið 1987. Hún ólst upp í litlum bæ og fjölskyldan hafði það gott framan af en faðir Önnu var ofursti í hernum og móðir hennar heimavinnandi þegar Anna fæddist.

Tóku málin í eigin hendur til að sjá sér farboða

Sovétríkin féllu og óstöðugleikinn í landinu skapaði verðbólgu. Laun landsmanna uxu ekki í takt við verðlagið, jafnvel þótt þau hækkuðu hvern mánuð. Móðir hennar ákvað því að taka málin í sínar hendur og gera sitt besta til að sjá fyrir fjölskyldunni og stofnaði lítið fyrirtæki. Hún vissi að eiginmaður sinn gæti ekki sagt starfi sínu lausu og yfirgefið herdeild sína og hermennina sem stóluðu á hann. Henni datt því í hug að kaupa teppi frá verksmiðju í heimabæ þeirra, Lubny, og einnig hnetur, hunang, súrsaðar gúrkur og sópa og keyra tvö þúsund kílómetra til Samara sem er gríðarstór borg í Rússlandi, þaðan sem amma og afi Önnu eru. Móðirin harðduglega gat ekki skilið dætur sínar eftir einar og því fengu þær að ferðast með henni landshorna á milli.

„Á þessum árum í fyrrum Sovétríkjunum tók fólk málin í sínar hendur til að sjá sér farboða, það beið ekki eftir því að ríkið kæmi því til aðstoðar. Árið 1991 fæddist fjölskyldufyrirtækið en ég var fjögurra ára og systir mín fjórtán, mamma var 34 ára. Það má segja að ég hafi byrjað starfsferil minn áður en skólaganga mín hófst og mér þótti alltaf gaman að fá að taka þátt í rekstrinum. Við byrjuðum á opnum markaði í Lubny, fluttum svo ýmsar vörur inn frá Tyrklandi, því næst opnuðum við eigin verslun og fórum smám saman einnig að selja okkar eigin hönnun. Fljótlega fluttum við okkur svo yfir í höfuðborgina og byrjuðum að framleiða vörur sjálf.“

Það var árið 2014. Í dag vinna eins og fyrr segir áttatíu manns hjá fyrirtækinu sem telur tvær verksmiðjur og eitt vinnurými og sýningarsal (atelier).

- Auglýsing -

Þar eru nokkrir tugir véla sem framleiða 250 týpur af höttum og treflum og meira en fmmtíu týpur af teppum. MJÚK Iceland framleiðir undir eigin nafni og tekur einnig við sérpöntunum. Fyrirtækið vinnur með sjálfstæðum hönnuðum, jafnt sem litlum verslunum og stórmörkuðum. Nú þegar hefur MJÚK framleitt línur fyrir nokkra þekkta íslenska hönnuði og vörumerki.

Hafa oftar en einu sinni misst allt

Þrátt fyrir velgengni síðustu ára hefur reksturinn ekki verið neinn dans á rósum í gegnum tíðina.

- Auglýsing -
Viðtalið við Önnu er að finna í 7. tölublaði Vikunnar.

„Þetta var aldrei einfalt eða auðvelt hjá okkur. Fjölskylda mín hefur oftar en einu sinni misst allt vegna efnahagskrísu eða spillingar í landinu en við héldum áfram að trúa á okkur sjálf, fjölskylduna og að þrautseigja og eljusemi komi manni langt. Þess vegna höfum við ákveðið að styðja við bakið á ungum hönnuðum líka. Það er auðveldara að búa til prótótýpu eða prufulínu í gegnum okkur en nokkurn framleiðanda sem skiptir við Ísland. Við bjóðum líka upp á svokallað workshop fyrir hönnuði, bæði í Úkraínu og Rússlandi, og ég mun líka deila vitneskju minni og reynslu með íslenskum hönnuðum. Námskeiðin verða ókeypis og haldin í MJÚK Iceland-versluninni niðri á Skólavörðustíg,“ segir Anna og sýnir blaðamanni glæsilegt verslunarhúsnæði sem hún var að fá lyklana að.

Þetta var aldrei einfalt eða auðvelt hjá okkur. Fjölskylda mín hefur oftar en einu sinni misst allt vegna efnahagskrísu eða spillingar í landinu.

„Ég mun verja mestum tíma í versluninni og hafa skrifstofu og vinnurými þar einnig þar sem ég get hannað á staðnum og séð um mál tengd rekstri fyrirtækisins. Ég tel það mjög mikilvægt að vera í góðum tengslum við kúnnann og með þessu móti get ég það auðveldlega. Það er mikilvægt fyrir hvaða hönnuð sem er að fá „feedback“ til þess að fá tækifæri til þess að bæta sig.“

Mikilvægt að læra tungumálið

Ekki er nóg með að Anna reki áttatíu manna fyrirtæki í tveimur löndum heldur er hún einnig að læra íslensku við Háskóla Íslands. Hún ákvað líka að taka kúrs sem snýr að íslenskri menningu þar sem hún lærir íslenska listasögu, fer á söfn og hittir rithöfunda, ljóðskáld og kvikmyndaleikstjóra. Anna segir það hjálpa sér að skilja Ísland og Íslendinga betur.

„Mér finnst að ef manneskja flytur til annars lands, sama hvaðan hún kemur, að það sé skylda hennar að læra tungumálið. Þannig sýnir það virðingu og kemst fyrr inn í samfélagið. Íslenska er erfitt tungumál og málfræðin flókin en maðurinn minn lærir rússnesku og þannig styðjum við hvort annað.“

Aðspurð um framtíðardrauma segist hún helst vilja halda áfram að vera hamingjusöm og njóta þeirrar blessunar sem hún hefur hlotið hingað til; ástríkrar fjölskyldu og heilsu. Hún ætlar líka að halda áfram að þróa fyrirtækið, spennandi fatalína er í bígerð en hún inniheldur ponsjó, ullarkápur- og slár. Þær eru hannaðar í nýju hönnunarrými í Úkraínu og Anna vinnur náið með fatahönnuði sem hjálpar henni við að hafa hlutföllin fullkomin og sniðin kvenleg og þægileg. Hana langar til að taka þátt í alþjóðlegum sýningum og þegar ný fatalína hennar kemur á markað ætlar hún næst að fara að vinna í útivistarfatnaði og peysum.

„Eitt af mínum stærstu markmiðum er að framleiða sjálfbæra hönnun og hvetja fólk til þess að kaupa minna magn af hágæðavöru frekar en mikið fjöldaframleitt. Jafnvel litlir hlutir eins og að nota bómullarinnkaupapoka frá okkur þegar farið er að versla getur haft áhrif á náttúruna og bjargað henni frá hundruðum plastpoka.“

Í Úkraínu drekkum við ekki vatn úr krananum. Íslenska vatnið smakkast svo vel og það er enn þá framandi fyrir mér.

En hvað ætli hafi komið henni mest á óvart við að flytja til Íslands?

„Ég var búin að horfa á marga þætti og lesa margar bækur um Ísland áður en ég flutti hingað. En nokkrir hlutir komu mér samt á óvart. Í Úkraínu drekkum við ekki vatn úr krananum. Íslenska vatnið smakkast svo vel og það er enn þá framandi fyrir mér, jafnvel þótt ég sé búin að búa hér í ár. Svo eru engar girðingar hér, nema þá mjög litlar og þá aðallega vegna fagurfræðinnar frekar en öryggisins vegna. Í Úkraínu og Rússlandi eru girðingarnar háar og sterkbyggðar og því ríkari sem fjölskyldan er, því hærri eru girðingarnar.

Svo finnst mér líka skrítið að upplifa umferðartraffík á milli klukkan fjögur og fimm. Í Úkraínu byrjar traffíkin miklu seinna. Fólk ver meiri tíma með fjölskyldum sínum hér og það er góðs viti,“ segir Anna brosmild að lokum.

Viðtalið við Önnu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -