Elfa Þorsteinsdóttir heilsufrömuður stendur á bakvið heimasíðuna rawmother.com þar sem hún deilir hráfæðisuppskriftum og ýmsum heilsutengdum fróðleik.
Heilsuáhugi hennar kviknaði fyrir nokkrum árum þegar breytt mataræði gjörbreytti líðan langveiks sonar hennar.
„Heimasíðan hefur verið lengi í fæðingu. Ég eignaðist dreng árið 2005 sem var langveikur. Eftir lífsnauðsynlegar aðgerðir sat hann enn þá eftir með ýmis heilsufarsleg vandamál sem hefðbundar lækningar gátu ekki hjálpað honum með. Þarna hófst fyrir alvöru heilsuáhuginn minn,“ segir Elfa sem búið hefur ásamt fjölskyldu sinni á suðurströnd Englands í fimm ár. Eftir aðgerðirnar og ýmsa fylgikvilla átti sonur hennar, Anthony, meðal annars erfitt með alla næringarinntöku. „Ég var mamma með veikan strák með það eina markmið að finna lausn sem virkaði fyrir hann. Eftir mikinn lestur ákvað ég að prófa að fara með honum á hráfæði í eitt ár og athuga hvort það myndi hjálpa honum. Það er skemmst frá því að segja að á sjö mánuðum komst líkami hans í fullkomið lag og allt fór að virka rétt í fyrsta skipti á ævi hans.
Daginn sem ég fékk niðurstöðurnar úr prufunum hans lofaði ég honum að ég myndi vera með honum á hráfæði þar til hann flytti að heiman og fljótlega var öll fjölskyldan komin á sama fæði. Maðurinn minn losnaði í kjölfarið við ýmis heilsufarsleg vandamál á nokkrum mánuðum auk þess að missa 30 kíló og dóttir okkar losnaði við áreynsluasma. Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur. Mér fannst ekki hægt að vera komin með alla þessa þekkingu, eftir að vera búin að lifa þessum lífsstíl í svona mörg ár, og halda henni bara fyrir sjálfa mig og fjölskyldu mína.
„Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur.“
Það er líka búin að vera gríðarlega mikil eftirspurn eftir námskeiðum hjá mér og ráðum í sambandi við bætt mataræði. Svo það lá eiginlega beinast við að koma þekkingunni fyrir á einum stað. Ég var svo heppin að fá hana Ingibjörgu Rósu, vinkonu mína, með mér í þetta verkefni. Hún er mín hægri hönd í öllu sem kemur að tæknimálum, textum fyrir heimasíðuna og uppsetningu, enda með enskukunnáttu upp á rúmlega tíu. Heimasíðan var svo opnuð á ellefu ára afmælisdegi hans Anthonys í fyrra.“
Sérstakar barnauppskriftir
Síðan er í stöðugri þróun og vinnslu þar sem Elfa bætir inn uppskriftum reglulega, setur inn bloggpósta og fræðslu. „Sérstaðan felst kannski helst í því að þarna er manneskja sem lifir þessum lífsstíl og er með alla fjölskyldu sína á hráfæði. Ég legg mikið upp úr því að maturinn bragðist vel og geti því höfðað til sem flestra. Fólk hefur svo val um að koma í áskrift hjá mér þar sem það fær nýjar uppskriftir reglulega með vídeói um hvernig hver réttur er búinn til. Þetta er eins og að vera í áskrift að hráfæðinámskeiði þar sem ég býð öllum heim í eldhús til mín.
Anthony er líka með sitt svæði á síðunni, Anthony’s Kitchen, þar sem við búum saman til uppáhaldsréttina hans. Þeir eiga það sameiginlegt að vera allir mjög einfaldir og bragðgóðir. Við upptökur á efni fyrir Anthony’s Kitchen verða stundum mistök. Það er stundum ansi spaugilegt það sem miður fer og svo á Anthony til að vera mjög orðheppinn í tökum, sem er ekki hægt að nota í aðalmyndböndin, svo Anthony kom með þá hugmynd að gera myndbönd úr skotunum sem misheppnast og við erum nýbúin að setja þau inn á síðuna líka.“
Elfa tekur að sér að leiða hópa í föstur og safahreinsanir. „Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig. Ég býð Facebook-vinum mínum og fylgjendum að koma með mér í hreinsanir þrisvar sinnum á ári. Þar fá allir frítt prógramm sem ég hef sett saman og stuðning í gegnum alla hreinsunina. Nýárshreinsunin er sú lengsta, 10-14 dagar, svo eru styttri hreinsanir í maí og september, 4-5 dagar. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og gefandi þrátt fyrir mikla vinnu við hverja hreinsun. Þessar hreinsanir hafa verið upphafið hjá mörgum að taka næstu skref að bættum lífsstíl sem mér þykir sérstaklega vænt um að fá að vera þátttakandi í.“
Í þekktum heilsuþætti
Elfu bregður fyrir í myndinni Fat, Sick & Nearly Dead 2 eftir ástralska kvikmyndagerðarmanninn og heilsufrömuðinn Joe Cross en hann hefur persónulega reynslu af djúsföstu. „Fyrir nokkrum árum var ég að hjálpa einni vinkonu minni sem þurfti að fara í langa og mikla safahreisnun og ákvað að prófa að bjóða Facebook-vinum mínum að vera með. Ég átti von á að fá kannski 4-5 með okkur en á rúmum sólarhring voru komnir yfir 100 manns í hreinsihópinn, alls staðar að úr heiminum. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti stutt allan hópinn og hafði því samband við Joe Cross sem þá hafði nýlega gefið út myndina sína Fat Sick and Nearly Dead og bað um hjálp hans. Honum fannst mjög sérstakt það sem ég var að gera og gerði þá undantekningu að hjálpa mér við að styðja og hvetja fólkið í hópnum. Hann kom inn, kommenteraði og fylgdist með okkur – sem var brjálað „búst“ fyrir alla. Við Joe höfum hist nokkrum sinnum eftir þetta þegar hann hefur komið til London. Hann er svo einstaklega vandaður maður, er alveg eins í persónu og þú sérð hann á skjánum. Honum fannst svo flott að þekkja manneskju frá kalda Íslandi sem væri að djúsa þannig að ég fékk að vera ein af þeim sem heilsa áhorfendum í upphafsatriði myndarinnar Fat, Sick and Nearly Dead 2.“
Fram undan er áframhaldandi uppbygging uppskriftabankans á heimasíðunni, viðbætur á fróðleik og fleira. „Svo eru hreinsanirnar mínar reglulega á dagskrá. Á Facebook getur fólk skráð sig í hópinn og fengið aðgang að prógramminu og stuðningshópnum frítt. Svo er líka hægt að fylgjast með mér á Instagram og Twitter þar sem allar upplýsingar eru einnig settar inn. Svo langar mig mjög mikið til að koma til Íslands og halda þar námskeið aftur sem fyrst.
„Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig.“
Við Anthony erum með langan lista af hugmyndum og réttum sem við eigum eftir að taka upp fyrir Anthony’s Kitchen. Regluleg „live-vídeó“ eru á Facebook-síðunni minni og margt fleira skemmtilegt fram undan. Það er um að gera að fylgjast með fyrir þá sem hafa áhuga á að bæta við hollum grænmetisréttum fyrir fjölskylduna og fá heilsutengda fróðleiksmola.“
Hráfæðis-triffli
Triffli er gamall og hefðbundinn enskur eftirréttur sem er borinn fram í glerskál og samanstendur vanalega af svampbotni eða makkarónukökum, ávöxtum og eggjakremi. Að auki er oft áfengi í honum svo hann er langt í frá hollur í sinni upprunalegu mynd. Hér er hins vegar útgáfa af honum sem er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.
Súkkulaðilag
1 bolli möndlur
1 bolli mjúkar döðlur
1 bolli kakóduft
3 msk. sæta í fljótandi formi, t.d. kókosnektar, hunang, agave o.fl.
3 msk. kókosolía
salt
Setjið möndlur, döðlur og kakóduft í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til möndlurnar og döðlurnar eru komnar í fína bita.
Bætið þá sætunni, kókosolíunni og smávegis salti, eftir smekki hvers og eins, út í og látið matvinnsluvélina ganga áfram í nokkrar sekúndur, eða þar til kurlið loðir saman þegar það er kramið á milli tveggja fingra.
Berjalag
300 g hindber eða jarðarber, eftir smekk. Hvort tveggja eru himnesk ber til að nota í þessa uppskrift.
Settu berin í skál og stappaðu þau með gaffli til að búa til gróft mauk.
Ágætt er að skilja nokkur ber eftir til að nota til að skreyta með.
Búðingur
1 bolli nýkreistur appelsínusafi, úr u.þ.b. 3 appelsínum
safi úr 1 appelsínugulri papriku, u.þ.b. 1 dl
1 mangó
safi úr ½ sítrónu
1 bolli kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-4 klst.
1 bolli kókosolía, fljótandi, hún bráðnar við 25°C
½ bolli hreint xylitol
1 tsk. stevíudropar með vanillubragði
salt eftir smekk
Paprikan er sett í gegnum djúsvél, eða bara í blandara og svo má sía safann frá með fínni grisju eða hnetumjólkurpoka. Afhýðið mangóið og takið steininn frá.
Allt er sett í blandarakönnu og blandað vel eða þar til kasjúhneturnar eru vel maukaðar og komin er búðingsblanda með silkimjúkri áferð.
Samsetning
Sett í lögum í fallega glerskál. Byrjið á að setja helminginn af súkkulaðikurlinu í botninn á skálinni. Þrýstið aðeins niður með sleif svo botninn verði vel þéttur. Hellið helmingnum af búðingnum yfir. Þar ofan á fer allt berjamaukið og svo restin af súkkulaðikurlinu áður en afgangurinn af búðingnum fer ofan á sem efsta lag.
Fallegt að skreyta með sömu berjum og notuð eru í berjalagið.
Látið standa í vel köldum ískáp í um það bil 8-10 klst. eða inni í frysti í 2 klst. til að búðingurinn þéttist áður en trifflið er borið fram.
Njótið hvers munnbita af þessum heilsusamlega og himneska eftirrétti.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Alexandra Kristjánsdóttir