Lífsreynslusaga úr Vikunni
Ég leiddist inn í ástarsamband með giftum manni sem reyndist bæði niðurbrjótandi og erfitt. Konan hans var ekki tilbúin að sætta sig við skilnað og það flækti málin meira en orð fá lýst. Mér fannst ég oft ekki ráða neitt við neitt og að togstreita þeirra tveggja væri að færa mig í kaf.
Ég skildi við manninn minn eftir að hafa upplifað mikla erfiðleika í hjónabandinu. Hann var ákaflega mislyndur og stjórnaði heimilinu með fýluköstum sem komu ákaflega illa við mig og börnin okkar. Mér fannst ég lengi ekki geta skilið vegna skapbresta mannsins og taldi að það væri eitthvað sem ætti að vera hægt að leysa og takast á við í hjónabandi. Loks var þetta ástand orðið svo óbærilegt að ég fann að ég varð að gera eitthvað. Börnin okkar voru þá orðin talsvert stálpuð og það elsta flutt að heiman.
Ég keypti mér lítið hús í sama hverfi og við hjónin höfðum búið í og var harðákveðin í að byrja nýtt líf. Ég var sannarlega ekki í leit að elskhuga eða öðrum manni þegar ég féll engu að síður kylliflöt fyrir einum. Hann bjó í nágrenni við mig og við spjölluðum nokkrum sinnum saman þegar við hittumst á förnum vegi. Fljótlega bauð hann mér að keyra mig heim þegar hann hitti mig í verslun hverfisins og þar sem ég átti ekki bíl bauð hann mér að vera sér samferða á morgnana í vinnuna. Vinnustaður minn var ekkert mjög langt frá hans þannig að þetta hentaði okkur báðum mjög vel. Í þessum bílferðum gafst okkur tækifæri til að tala saman og fljótlega urðum við góðir vinir.
Þegar þetta var bjó hann með eiginkonu sinni en hann sagði mér að samband þeirra hjóna væri stirt og hann hefði átt í ástarsambandi við aðra konu árið áður. Kona hans vissi um það og þótt hún væri ekki tilbúin að skilja væri hún ekki tilbúin að fyrirgefa honum heldur. Hann sagðist jafnframt vera á báðum áttum um hvort honum fyndist það þess virði að halda hjónabandinu gangandi. Ég lýsti fyrir honum á móti því helvíti sem ég hafði gengið í gegnum í mínu hjónabandi og við studdum hvort annað.
Ofsótt af eiginkonunni
Kvöld nokkurt hringdi hann í mig og spurði hvort hann mætti koma í heimsókn. Hann hafði lent í rifrildi við konuna og hún rokið burtu. Ég var svolítið hikandi en samþykkti svo að hann kæmi. Ég var auðvitað undir niðri hrifin af honum þótt ég viðurkenndi það ekki fyllilega fyrir sjálfri mér þá. Þetta kvöld byrjaði samband okkar og einhvern veginn varð ekki aftur snúið eftir það.
Næstu mánuði snerist líf mitt meira og minna um að finna tíma til að hitta hann og í hvert skipti sem konan hans fór eitthvað kom hann til mín. Nágrannar okkar tóku eftir þessu og einhver þeirra hefur líklega sagt konunni hans þetta því skyndilega fór hún að elta mig á röndum. Í hvert skipti sem ég fór út í garð eða settist út á verönd birtist hún. Stundum gekk hún fram hjá húsinu mínu en þess á milli stillti hún sér upp og horfði á mig þar til ég stóð á fætur og gekk inn aftur.
„Mér leið skelfilega illa á þessu tímabili og þorði varla út úr húsi. Ég vissi auðvitað sem var að ég hafði brotið af mér gagnvart þessari konu og ég skammaðist mín.“
Ýmislegt fleira skrýtið gerðist um svipað leyti. Á næturnar var hringt heim til mín og þegar ég tók upp tólið var annaðhvort skellt á eða kvenmaður á hinum enda línunnar hellti yfir mig svívirðingum og þvílíkum hroða að ég get ekki einu sinni haft það eftir. Nokkrum sinnum var rusl og alls konar ógeð á víð og dreif um garðinn minn og tröppurnar þegar ég kom út á morgnana og eitt sinn hafði mold verið mokað inn um opinn glugga inn á gólf hjá mér.
Leið skelfilega illa
Mér leið skelfilega illa á þessu tímabili og þorði varla út úr húsi. Ég vissi auðvitað sem var að ég hafði brotið af mér gagnvart þessari konu og ég skammaðist mín. Hvað eftir annað reyndi ég að slíta sambandinu við manninn en hann grátbað mig alltaf um að halda því áfram. Hann sagðist elska mig og vilja búa með mér og hann lofaði að ganga frá sínum málum gagnvart konunni. Það dróst hins vegar alltaf að hann gerði alvöru úr því og ég varð alltaf fastari og fastari í þessum vítahring.
Ég hélt að ég gæti leyst þetta og ákvað því að tala við konuna. Ég hringdi í hana bað hana að hitta mig og ræða við mig. Hún svaraði því til að við ættum ekkert vantalað hvor við aðra. Ég benti henni á að samband mitt við manninn hennar hefði nú staðið í nokkra mánuði og kannski væri kominn tími til að höggva á þennan hnút. Í stað þess að tala við mig hóf hún að spyrja mig alls konar spurninga um samband mitt við manninn sinn. Ég hélt að hún vildi fá sannleikann umbúðalausan svo ég svaraði henni eins hreinskilnislega og ég gat. Það sem ég vissi hins vegar ekki var að hún tók samtalið upp á segulband og næstu daga á eftir spilaði hún það fyrir nágranna, vini sína og nánast hvern þann sem vildi hlusta.
Flestir þeir sem hlýddu á þetta samtal áfelldust mig. Þeim fannst ég grimm að tala af svona mikilli hreinskilni. Ein nágrannakonan vék sér að mér úti á götu og tilkynnti mér að ég hlyti að vera sadisti að geta nuddað konugreyinu svona upp úr samlífi mínu og mannins hennar. Ég reyndi að benda á að ég væri ekki eina konan sem maðurinn hefði átt í ástarsambandi við og fæst af þessu hefði átt að koma eiginkonunni á óvart. En allt kom fyrir ekki. Ýmsir sýndu mér fyrirlitningu sína á mjög opinskáan hátt. Þetta varð til þess að brjóta mig endanlega niður. Ég flúði að heiman og bjó hjá systur minni í þrjár vikur.
Rugluð í ríminu
Enn og aftur reyndi ég að slíta sambandi mínu við manninn en hann gekk á eftir mér og grét og bað mig að hafa þolinmæði ögn lengur. Systir mín skildi þetta ekki og var mér mjög reið fyrir að halda þessu áfram. Ég var hins vegar orðin svo óörugg með mig og rugluð í ríminu að ég vissi ekki hvert ég átti að snúa mér. Að sumu leyti fannst mér eins og ég væri hreinlega að gefast upp með því að yfirgefa hann. Við hefðum nú gengið í gegnum svo margt saman að góðu tímarnir hlytu að fara að renna upp og ef ég bara sýndi örlítið þolgæði þá yrði allt gott aftur.
Konan hans hélt uppteknum hætti og hringdi í mig á næturnar og nokkrum sinnum varð ég vör við hana í bíl fyrir utan hús systur minnar. Dag nokkurn var ég á leið í vinnuna og bíll keyrði upp að gangstéttinni við hlið mér. Mér brá óskaplega og tók á rás niður eftir götunni. Þegar ég þorði loks að líta við sá ég að bílstjórinn hafði stoppað til að hleypa út farþega. Þá áttaði ég mig á að svona gæti þetta ekki gengið lengur. Ég ákvað að slíta mig frá þessari vitleysu í eitt skipti fyrir öll.
„Ég verð þó að viðurkenna það að ég sakna hans og enn í dag er ég ástfangin af honum.“
Ég lét ekki standa við orðin tóm heldur setti húsið mitt á sölu og sótti um flutning í starfi. Systir mín gat útvegað mér íbúð til leigu sem ég flutti í þar til húsið var selt. Eiginkonan hætti að hringja í mig eftir að ég fór úr hverfinu en hann hélt áfram að hringja og reyna fá mig til að halda sambandi okkar áfram. Ég var hins vegar alveg ákveðin í að nú yrði ég að vera sterk og standa við þessa ákvörðun.
Nú eru liðnir margir mánuðir síðan ég heyrði síðast í manninum og vissulega er það léttir að vera laus við allt það neikvæða sem fylgdi sambandi okkar. Ég verð þó að viðurkenna það að ég sakna hans og enn í dag er ég ástfangin af honum. Hann virðist á hinn bóginn ekki tilbúinn að taka af skarið og slíta hjónabandi sínu og lengi vel gat hann heldur ekki að látið mig í friði. Ég lenti á milli hjóna og inni í einhverri brjálæðislegri hringiðu sem ég skil ekki almennilega enn í dag. Þótt ég hafi sannarlega ekki verið saklaus í þessum átökum þá verð ég að segja að bæði komu þau hjónin illa fram. Annað fólk dæmdi mig hins vegar harðast.