Lífsreynslusaga úr Vikunni
Ég var rétt búin að jafna mig eftir skilnað við manninn minn til 15 ára þegar ég kynntist afar sjarmerandi manni í gegnum einkamálasíðu á Netinu. Eftir að hafa tekið fljótfærnislega ákvörðun upplifði ég einn furðulegasta tíma lífs míns.
Erfiðleikarnir í hjónabandinu hófust fljótlega eftir að við hjónin keyptum fallega íbúð í Vesturbænum í Reykjavík, draumaíbúðina okkar. Við höfðum hlakkað mikið til að búa þar með börnunum okkar þremur en eftir að við vorum flutt inn fannst mér maðurinn minn breytast í framkomu. Eftir aðeins fjóra mánuði á nýja staðnum tilkynnti hann mér að hann væri orðinn ástfanginn af annarri konu og vildi skilnað. Þetta var gríðarlegt áfall, mig hafði ekki grunað neitt í þessa veruna. Við reyndum okkar besta til að skilja í góðu, barnanna vegna, og þau fengu að ráða því hjá hvoru okkar þau vildu búa. Elsta barnið okkar, algjör pabbastelpa, flutti með pabba sínum en þau yngri vildu vera hjá mér. Ég fékk íbúðina í minn hlut við skilnaðinn en maðurinn minn fyrirtækið sem við höfðum rekið í nokkur ár. Mig langaði ekki að búa í þessari íbúð sem svo margir draumar höfðu verið bundnir við svo ég setti hana á sölu fljótlega eftir skilnaðinn. Hún seldist þó ekki fyrr en eftir tæp tvö ár en þá fékk ég gott verð fyrir hana og keypti mér notalega íbúð sem hentaði okkur vel.
Sálufélagi
Þegar ég kynntist Guðmundi var ég sannarlega ekki í leit að maka. Vinkona mín hafði hvatt mig til að skrá mig á Einkamál.is og sagði að ég hefði gott af því að eignast vin. Um þrjú ár voru liðin frá skilnaðinum og ég var stundum einmana. Ég skráði mig inn og leist ekki á blikuna í fyrstu, enda fékk ég nokkur gróf bréf frá mönnum, sumum giftum, sem voru í leit að skyndikynnum. Ég hafði þó skráð mig á „vinátta/spjall“ en það skipti þessa menn engu máli.
Þegar Guðmundur sendi mér bréf leist mér strax afskaplega vel á hann. Hann var kurteis og kom vel fyrir og eftir að ég samþykkti að hitta hann, breyttist það álit mitt ekkert, nema síður væri. Hann var myndarmaður og í góðu starfi en sagðist vera í sjúkraleyfi. Hann sagði mér að hann væri í meðferð vegna þunglyndis og allt væri á uppleið hjá honum. Ég þekki þunglyndi úr fjölskyldu minni, bróðir minn þjáðist af því um tíma. Mér fannst fínt hjá Guðmundi að leita sér hjálpar, eins og bróðir minn gerði.
Samband okkar þróaðist hratt og þegar Guðmundur bauð mér að flytja til sín var ég alveg til í það. Ég var viss um að allt gengi vel hjá okkur.
Sjaldan hafði ég séð fallegra og snyrtilegra heimili en hjá honum. Allt var í röð og reglu sem ég kunni vel að meta. Sjálfri líður mér alltaf best þegar fínt er í kringum mig.
Ég var yfir mig ástfangin og hlakkaði til að verja ævinni með Guðmundi. Mér fannst ég hafa hitt sálufélaga minn. Vel gekk að leigja út íbúðina og skynsamlegasta sem ég gerði í öllu þessu ferli var að leigja hana bara út til árs.
Strangar húsreglur
Það sem ég vissi ekki þegar ég flutti til Guðmundar var að hann hætti að taka geðlyfin sín um svipað leyti. Það amaði reyndar mun meira að honum en þunglyndi, ég áttaði mig á því næstu mánuðina og mér fannst mjög ólíklegt að hann ætti afturkvæmt í starf sitt sem reyndist vera rétt hjá mér.
Hann var góður við börnin mín, sjö og tíu ára, og það kunni ég að meta en hann var barnlaus sjálfur.
Guðmundur átti ekki bara fallegt heimili, það var óaðfinnanlegt og þannig vildi hann halda því jafnvel þótt börn væru flutt inn. Hann var auðvitað mikið heima og snurfusaði sífellt og dyttaði að.
Fyrsta rifrildið okkar tengdist umgengni barnanna. Hann skammaði mig fyrir að dóttir mín setti ekki alltaf skóna sína á réttan stað í skóhillunni. Skórnir fóru í hilluna en dóttir mín raðaði þeim hvorki vel né setti þá í hvert skipti á „rétta“ staðinn sem var ætlaður henni. Handklæðin á baðinu urðu líka of óhrein, að mati Guðmundar, og hann reyndi mikið að fá börnin til að þvo sér betur um hendurnar. Loks bað hann þau um að nota pappírsþurrkur en varð síðan fúll þegar börnin settu þurrkurnar ekki nógu vandlega ofan í ruslafötuna. Ég reyndi að segja honum að slaka á, við byggjum ekki á dauðhreinsaðri skurðstofu.
Eina nóttina gat Guðmundur ekki farið að sofa af því að einn gólflampinn hans var bilaður. Það tók hann nokkra klukkutíma að fikta í lampanum þar til hann komst í lag og þá loksins, eða um fjögurleytið um nóttina, treysti hann sér til að fara að sofa. Allt þurfti að vera fullkomið. Skápum og skúffum varð að loka alla leið, annars leið honum illa og hann nöldraði stöðugt í börnunum um að þau yrðu að setja klósettsetuna niður og mér ef honum fannst snyrtidótið mitt verða of fyrirferðarmikið á baðhillunni. Hann hafði látið mig fá pláss fyrir snyrtivörurnar inni í lokuðum skáp á baðinu en mér fannst þægilegra að geyma það nauðsynlegasta á hillunni. Ég var vön því heiman frá mér og það var ekkert ósnyrtilegt að hafa það þar.
„Allt þurfti að vera fullkomið. Skápum og skúffum varð að loka alla leið, annars leið honum illa og hann nöldraði stöðugt í börnunum um að þau yrðu að setja klósettsetuna niður.“
Guðmundur minnti mig stundum á persónu úr bíómynd, skelfilegan mann með fullkomnunaráráttu sem trylltist ef t.d. merktu handklæðin „His/Hers“ voru ekki bein og jöfn á handklæðastönginni. Eiginkona persónunnar setti dauða sinn á svið til að sleppa frá honum. Guðmundur var þó ekki ógnvekjandi á nokkurn hátt en það gat verið erfitt og sífellt meira þreytandi að búa við þetta.
Skilaboð frá almættinu
Guðmundur jók drykkju sína og var yfirleitt kenndur á kvöldin. Ég fékk mér stundum í glas með honum en svo hætti það að vera gaman. Smám saman áttaði ég mig á því hvað hann var veikur og hve lyfjaleysið og drykkjan gerðu honum illt. Hann fór að fá miklar ranghugmyndir og var ýmist hátt uppi eða langt niðri. Í einni uppsveiflunni sagði hann mér að hann tæki lyfin sín ekki lengur, hann þyrfti ekki á þeim að halda því líf hans væri orðið fullkomið með mig og börnin innanborðs. Mér varð virkilega órótt þegar hann sagði mér þetta og hvatti hann eindregið til að halda áfram að taka lyfin en án árangurs.
Yfirleitt var ástandið nokkuð gott en þegar það var slæmt, var það virkilega slæmt og hann hafði allt á hornum sér varðandi umgengni mína og barnanna. Við gengum mjög vel um en að sjálfsögðu var ekki hægt að hafa heimilið fullkomið öllum stundum. Ég fór að finna fyrir streitu og börnin mín líka.
Þótt ég bæri enn tilfinningar til Guðmundar treysti ég mér ekki til að búa með honum lengur og vildi alls ekki bjóða börnunum upp á svona líf. Við vissum aldrei hvað Guðmundi dytti næst í hug. Hann tók skyndiákvarðanir, til dæmis að fara í útilegu með engum fyrirvara og ef ég var ekki til í það fór hann í margra daga fýlu.
Þegar leigjandinn minn spurði mig hvort hann gæti sagt upp íbúðinni með skömmum fyrirvara vegna breyttra aðstæðna, fannst mér það nánast vera skilaboð frá almættinu um að nú væri nóg komið.
Með góðu eða illu
Guðmundur tók því illa þegar ég sagði honum að ég ætlaði að fara frá honum. Hann reyndi mikið til að fá mig til að breyta ákvörðun minni en ég stóð við hana og flutti í íbúðina mína aftur. Þá hafi sambúðin staðið í tæpt ár.
Það var gífurlegur léttir að komast heim aftur eftir þennan furðulega tíma og ég fann að börnin urðu mun rólegri. Þau höfðu lengi verið eins og hengd upp á þráð.
Guðmundur reyndi sitt besta til að fá mig aftur til sín. Þegar ég kom heim úr vinnunni einn daginn, ekki löngu eftir að ég var flutt frá honum sá ég risastóran blómvönd standa á borðstofuborðinu. Búið var að taka til í íbúðinni, vaska upp morgunverðardiskana og allt var orðið svo fínt að ég vissi hver hafði verið í íbúðinni. Ekkert kort fylgdi blómvendinum en ég hringdi strax í Guðmund og spurði hvort hann hefði sent mér þau. Hann sagðist hafa viljað sýna mér hve mikið hann elskaði mig. „Hvernig komstu inn?“ spurði ég. „Þú gleymdir að læsa,“ svaraði Guðmundur að bragði. Mér fannst það ekki líklegt en það voru engin ummerki um innbrot. Ég bað hann vinsamlegast að láta mig í friði, sambandi okkar væri lokið. Svo skellti ég á og tók símann úr sambandi.
Ég fékk frið í tvo mánuði, að vísu reyndi hann oft að hringja í mig, bæði úr eigin númeri og leyninúmeri en ég svaraði bara þeim númerum sem ég þekkti.
Næst lét hann til sín taka á föstudegi. Ég var dauðþreytt eftir vinnuvikuna og hlakkaði mikið til að slaka á heima alla helgina. Börnin voru farin til pabba síns og planið var að dorma fyrir framan sjónvarpið um kvöldið. Þegar ég kom inn á heimili mitt mætti mér hræðileg sjón. Búið var að mölbrjóta alla vasa og styttur í stofunni, leirtauið mitt lá í hrúgu á eldhúsgólfinu, allt brotið. Það sem var uppi á veggjum, eins og ljósmyndir, lágu einnig í brotnum römmum í hrúgunni. Ég skil ekki enn í dag af hverju nágrannar mínir urðu ekki varir við neitt. Sófasettið mitt var skorið þvers og kruss og algjörlega ónýtt. Svefnherbergin höfðu sem betur fer verið látin í friði.
Í algjöru áfalli hringdi ég í lögregluna. Þrír ljúfir lögreglumenn mættu á svæðið. Ég sagði þeim að mig grunaði fyrrum sambýlismann, hann væri ekki sáttur við sambandsslitin.
Guðmundur játaði fyrir lögreglunni að hafa gert þetta og að hann hefði verið með lykil að íbúðinni síðan ég flutti til hans á sínum tíma. Ég var búin að steingleyma því. Hann kom örugglega oftar í íbúðina því mér fannst stundum eins og einhver annar hefði verið þar, hlutirnir mínir voru á öðrum stöðum en ég hafði skilið þá eftir á en ég hélt að börnin hefðu fært þá til. Ég var líka alveg grunlaus. Mér skilst að Guðmundur hafi gert þetta til að ég yrði hrædd og flytti aftur til hans en honum datt víst ekki í hug að ég hringdi beint í lögregluna. Hann var löngu hættur að geta hugsað rökrétt.
Ég fékk tjónið bætt en ég treysti mér ekki lengur til að búa í þessari íbúð svo ég seldi hana og keypti mér aðra á efstu hæð í blokk. Þar upplifði ég meira öryggi en í þríbýlishúsinu sem ég hafði áður búið í.
Mörg ár eru liðin síðan þetta gerðist og ég hef fengið algjöran frið fyrir Guðmundi. Hann býr með konu núna og vonandi er hann farinn að taka lyfin sín á nýjan leik. Ég held að allt þetta rugl sem gerðist á sínum tíma sé vegna þess að hann taldi sig geta verið án þeirra.
Sjálf er ég komin í sambúð með góðum manni. Hann gengur hræðilega illa um miðað við Guðmund en ég er alveg sátt við það eftir fyrri reynslu.